Innritun nema
- Virðing - Jafnrétti - Ábyrgð - Heiðarleiki
Það er stefna skólans að nám við skólann sé bæði krefjandi og spennandi.
Menntaskólinn við Sund býður upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs. Skólaárið 2017-2018 munu allir nýnemar sem koma upp úr grunnskóla hefja nám sem skipulagt er sem þriggja ára nám. Áætluð útskrift þessara nemenda er í lok vorannar 2020. Eldri nemendur skólans ljúka námi samkvæmt þeirri námskrá sem gilti þegar þeir hófu náms sitt.
Nám í framhaldsskóla hvort sem það er skipulagt til þriggja eða fjögurra ára þarf að vera byggt þannig upp að það stuðli að þroska einstaklingsins, styrki hann og veiti honum góðan undirbúning til frekara náms. Nám þarf að fela í sér þjálfun á vinnubrögðum, gagnrýnni hugsun og hvatningu til sköpunar.
Í Menntaskólanum við Sund er lögð sérstök áhersla á náttúrulæsi, menningu og sögu. Lögð er vaxandi áhersla á verkefnatengt nám og að verkefni sem nemendur takast á við tengist daglegu lífi. Það er stefna skólans að nám eigi að vera markmiðsbundið frekar en efnisbundið. Það skipti mestu hvaða getu, færni og leikni nemandi býr yfir að námi loknu.
Nám í framhaldsskóla er á ábyrgð nemandans sjálfs. Skóli er samfélag sem hlítir ákveðnum reglum. Nemandi sem sækir um skólavist í Menntaskólanum við Sund þarf að vera tilbúinn að vinna vel, sýna sjálfstæði í einstaklingsverkefnum og þroska til að taka þátt í samstarfi við aðra.
Hlutverk skólans er að bjóða upp á gott nám, búa nemandanum góðar aðstæður til náms og hvetja hann og styðja í náminu. Skólaandinn einkennist af gagnkvæmri virðingu og hlýju á milli kennara og nemenda.
Skólinn leggur áherslu á gott samstarf við nemendur og forráðamenn þeirra. Sameiginlegt markmið er að nemandanum gangi vel í náminu og hann hafi jöfn tækifæri og aðrir til náms.
Már Vilhjálmsson
rektor Menntaskólans við Sund
|