Almennar upplýsingar

Menntaskólinn við Sund er bóknámsskóli og býður nám til stúdentsprófs. Það er markmið skólans að bjóða nemendum aðeins það besta, góða þjónustu og fyrsta flokks nám óháð því á hvaða námsbraut þeir eru. Þá leggur skólinn sérstaka áherslu á að vera í fremstu röð hvað varðar náttúrufræðikennslu. Þessum markmiðum sínum ætlar skólinn að ná með því að virkja frumkvæði nemenda og starfsmanna, með því að leggja áherslu á góða kennslu og fjölbreytilega kennsluhætti, nýtingu upplýsingatækni í kennslu, góðan tækjakost, samvinnu við fyrirtæki og stofnanir og símenntun starfsmanna sinna.
Stjórnendur skólans
eru rektor, konrektor og kennslustjóri. Rektor ber ábyrgð á allri starfsemi skólans, jafnt faglegu starfi sem og rekstri hans.
Skólanefnd
er skipuð fimm fulltrúum. Tveir eru tilnefndir af Reykjavíkurborg, en menntamálaráðherra skipar þrjá. Kennarar skólans og nemendur hafa hvorir einn áheyrnarfulltrúa í nefndinni með málfrelsi og tillögurétt. Nefndin kýs sér sjálf formann. Nefndin er skipuð til fjögurra ára. Áheyrnarfulltrúarnir tveir eru þó tilnefndir til eins árs í senn.
Skólanefnd eru meðal annars ætluð eftirfarandi verkefni:
• Ákveða námsframboð skóla ásamt rektor.
• Undirbúa ásamt rektor tillögur til fjárlaga.
• Gera fjárhagsáætlun að fengnum tillögum rektors og fylgjast með framkvæmd hennar.
Rektor er framkvæmdastjóri skólanefndar og situr fundi hennar með málfrelsi og tillögurétt.
Skólaráð
skipa sex fulltrúar, rektor, kennslustjóri, sem skipuleggur og boðar fundi ráðsins og skrifar fundargerðir, tveir kennarar og tveir nemendur. Fulltrúar kennara og nemenda eru kosnir til eins árs við upphaf hvers skólaárs.
Skólaráði eru m.a. ætluð eftirfarandi verkefni:
• Vera rektor til aðstoðar og ráðgjafar um stjórn skólans og daglegan rekstur.
• Fjalla um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar.
• Fjalla um skólareglur, vinnuaðstöðu starfsfólks og nemenda og félagsaðstöðu.
• Veita umsagnir um ýmis erindi, t.d. frá skólanefnd, kennarafundum, nemendaráði og menntamálaráðuneyti.
• Úrskurða um ýmis einstaklingsbundin erindi, t.d. frá nemendum
|