Forsíða > Prentvænt

Menntaskólinn við Sund í úrslit sem Fyrirmyndarstofnun 2008

10. júní 2008

Menntaskólinn við Sund var ásamt 15 öðrum ríkisstofnunum í forvali fyrir tilnefningu sem ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 2008. Skólinn var síðan valinn í hóp fimm ríkisstofnana sem komust í úrslit. Fyrirkomulagið var þannig að fjármálaráðherra skipaði nefnd til þess að velja ríkisstofnun sem skarað hefur fram úr og verið til fyrirmyndar í starfi sínu. Í nefndinni voru Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnsýslufræðingur, og Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis. Með nefndinni störfuðu síðan Angantýr Einarsson, skrifstofustjóri og Arnar Þór Másson stjórnmálafræðingur báðir í fjármálaráðuneytinu.

Í frétt frá fjármálaráðuneytinu segir svo um verkhætti nefndarinnar "Horft var til stefnumótunar, framtíðarsýnar og markmiðssetningar stofnana við ákvörðun um valið. Einnig var horft til stjórnunaraðferða og hvernig stjórnendur og starfsmenn fylgja eftir að settum markmiðum sé náð. Skoðað var hvaða aðferðum stofnanir beita við að þróast og bæta árangur sinn í síbreytilegu umhverfi, auka nýjungar í þjónustu við notendur og bæta liðsheild innan stofnananna. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að starfsemi ríkisstofnunar til fyrirmyndar væri árangursrík, skilvirk og að stjórnendur legðu áherslu á að gera betur." Þegar nefndin hafði unnið úr þeim gögnum sem óskað hafði verið eftir að stofnanirnar sendu var fækkað í hópnum og að lokum kepptu 5 ríkisstofnanir um tilnefninguna og var Menntaskólinn við Sund ein þeirra. Viðurkenninguna að þessu sinni hlaut Samkeppniseftirlitið og var hún afhent af fjármálaráðherra í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær, miðvikudaginn 14. maí kl. 15:00 að viðstöddum fulltrúum frá þeim fimm ríkisstofnunum sem komust í úrslit.

Í umsögn nefndarinnar segir svo um Menntaskólann við Sund:

Menntaskólinn við Sund
"Með krafti og áræðni stjórnenda hefur orðið viðsnúningur í rekstri Menntaskólans við Sund. Galdurinn er traust og ábyrg fjármálastjórnun og jákvætt viðhorf til breytinga. Lögð er áhersla á að sinna nemendum vel og kemur það m.a. fram í lágu brottfalli úr skólanum og öflugu stuðningskerfi við þá sem minna mega sín í námi. Í skólanum er einnig stuðst við virkt árangursmatskerfi sem notað er til þess að umbuna þeim starfsmönnum sem standa sig vel og hvetja þá til dáða. Í daglegri starfsemi notast skólinn við gátlista sem eru í stöðugri endurskoðun og við þá vinnu er leitað til starfsmanna og nemenda þar sem við á. Almennt virðist vel staðið að stjórnun og stefnumótun í Menntaskólanum við Sund og telur nefndin að aðrir framhaldsskólar gætu lært margt af þeim viðhorfum og aðferðum sem þar tíðkast. ."

Frekara efni:

Skýrsla skólans til fjármálaráðuneytis vegna valsins

MSfyrirmyndarstofnun
Acrobat skjal, 448 kB
Sækja...

Vefrit fjármálaráðuneytisins:

[sækja]

 

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004