FLORA ISLANDICA - JURT MARS MÁNAÐAR
11. mars 2010
Þórdís T. Þórarinsdóttir forstöðumaður bókasafns MS hefur valið jurt marsmánaðar. Fyrir valinu varð Eyrarrós (Chamerion latifolium). Hún er nú til sýnis í bókinni Flora islandica á annarri hæð framan við skrifstofu skólans.
Í Flora islandica segir svo um Eyrarrós: Upp af jarðstöngli vaxa margir, smádúnhærðir og blaðmargir stönglar. Blöðin eru þykk, blágræn, gistennt og oft dúnhærð. Bikarblöðin eru dökkrauðblá og hin stóru krónublöð ljósrauð. Hýðið er gilt og myglugrátt. Vex á áreyrum, í árgljúfrum og lausum skriðum. Allvíða um land nema sjaldgæf norðvestanlands. Blómgast í júlí. 15-40 cm á hæð.
Fræullina má nota til þess að stoppa með föt, spinna úr henni eða hafa í kveiki. Marin blöð voru lögð yfir opin sár, því hún er samdragandi. Seyði af henni læknar höfuðverk, stillir blóðnasir og blóðgang og þurrkaðar rætur hennar lækna blóðuppgang, að því sagt er í gömlum ritum (Flora islandica, bls. 264. Texti: Ágúst H. Bjarnason).
[lesa um fleiri jurtir]
Guðmundur Böðvarsson skáld orti um Eyrarrósina:
Eyrarrós
Þig vissi ég lifa við hörðust hót:
þú hlúir í sandi viðkvæmri rót.
Þú býrð við hið breiða fljót,
og hlustar á straumanna háværa klið,
þú heyrir þá syngjandi brotna við
urðir og gamalt grjót.
Í fátækt vors lands varð sem fyrirheit
þín fegurð, í minni jökulsveit,
um auðlegð, sem enginn leit,
er eyrin varð rauð undir sól að sjá
og silfur í straumnum þar yfir frá
og gull, sem að glitraði á.
Á bökkum þíns fljóts, þar biðum við
börnin, sem elskuðum sólskinið
og straumvatnsins stríð og frið.
– Og áin rann burt með hið brennandi glit,
og blærinn andaði fjarlægum þyt,
svo blöðin þín breyttu um lit.
En þú varst þó kyrr, hvað sem burtu bar
og barnshugann dró og seiddi þar
og bauð honum fé og far.
En hjörtu vor tóku sér hlutdeild þá:
vor heimþrá, vor útþrá varð draumur sá,
sem fallstraumur að og frá.
Í átthagans fegurð var einkennið þú
í auðninni, bæði fyrr og nú.
– Þar byggðum við arin og bú.
Því ávinnst þér seinna í síðkvöldsins glóð
eitt sveitamannskvæði, eitt hjarðpípuljóð,
um rós, sem er rauð eins og blóð.
– – –
Nú rennur Hvítá með haustlegum nið
og hvítbrýtur strauminn bakkana við
og knýr á hvert klettarið.
Nú er himinninn grár eins og gamalt blý,
– það er gustur í lofti og kafaldsský,
og norðanátt bráðum á ný.
Mín eyrarrós fölnar við fljótið þar.
Hún fegurst af sumarsins blómum var
og rauðustu blöðin bar.
Mín æskusystir á auðnarmel, –
hve erfitt verður að hlífast vel,
svo fáklædd við frost og él.
En næst, þegar vorar hér norður frá
og nóttin og kuldinn er liðinn hjá,
þá munum við sólina sjá.
Því sættumst við á það að sofna nú
um sinn, undir veturinn, ég og þú,
í hinni heilögu trú.
Guðmundur Böðvarsson .
Eldri fréttir
|