FLORA ISLANDICA
Bókin FLORA ISLANDICA er eitt glæsilegasta rit sem komið hefur út hér á landi í langan tíma. Myndir í bókinni eru eftir Eggert Pétursson listmálara og stúdent frá MT en textinn er eftir Ágúst H. Bjarnason grasafræðing og fyrrum kennara við MS.
FLORA ISLANDICA er nú aðgengileg nemendum skólans og eru áhugasamir beðnir um að snúa sér til starfsfólks bókasafnsins til að fá frekari upplýsingar.
Ákveðið hefur verið að velja í hverjum mánuði jurt mánaðarins og fyrsta blómið sem er valið er þjóðarblómið sjálft, Holtasóley.
JURT MÁNAÐARINS
Febrúar 2010
Holtasóley (Dryas octopetala)
Myndar flatar þúfur með trékenndum stönglum. Blöðin eru skinnkennd, sígræn, niðurorpin á röndum, gljáandi og dökkgræn en hvítlohærð á neðra borði. Blómin standa á mjúkhærðum leggjum og eru krónublöðin átta. Aldinið er með löngum svifhala. Vex í móum og á melum um land allt. Blómgast í maí - júní. 5-15 cm á hæð.
Te af blöðum, ásamt blóðbergi og vallhumli var talið styrkja brjóst og maga og þykir besti drykkur. Blöðin eru mikilvæg fæða rjúpunnar og kallast rjúpnalauf (- lyng). Þau voru áður þurrkuð og mulin til þess að drýgja reyktóbak. Nöfnin hárbreiða og hármey eru dregin af löngum hárum aldina. Sú var trúa manna fyrrum, að rótin drægi til sín peninga, væri hún notuð á réttan hátt, og var hún því kölluð þjófarót. (Ágúst H. Bjarnason).
|