Forsíða > Námið > Námsmat eldri námskrá > Prentvænt

Skilgreiningar á hugtökum

Aðaleinkunn

Aðaleinkunn er vegið meðaltal lokaeinkunna. Í 1., 2. og 3. bekk er miðað við einingafjölda námsgreina á árinu en í 4. bekk er miðað við heildareiningafjölda námsgreina á öllum námstímanum. Birtist bæði á einkunnablöðum í lok hverrar annar og á stúdentsskírteini.

Annareinkunn

Annareinkunn er sú einkunn er nemandi fær í lok annar þ.e. haustannareinkunn og vorannareinkunn. Í framhaldsgreinum er annareinkunn samsett einkunn úr prófseinkunn og vinnueinkunn. Í stúdentsprófsgreinum er haustannareinkunn samsett einkunn úr prófseinkunn og vinnueinkunn en á vorönn eru gefnar sérstakar stúdentsprófseinkunnir og námseinkunnir og vega þær 50% hvor í annareinkunn. Birtist á einkunnablöðum hverrar námsannar.

Framhaldsgrein

Framhaldsgrein er námsgrein kölluð þegar hún heldur áfram á næstu önn.

Lokaeinkunn

Lokaeinkunn er annaðhvort meðaltal haustannareinkunnar og vorannareinkunnar í framhaldsgreinum eða meðaltal stúdentsprófseinkunnar og námseinkunnar í stúdentsprófsgreinum. Birtist bæði á einkunnablöðum í lok hverrar annar og á stúdentsprófsskírteini.

Matseinkunn

Matseinkunn bygggir á mati kennara á vinnu nemenda á vorönn, þ.e. frammistöðu í verkefnum, ritgerðum, skyndiprófum og skýrslum og mati á  vinnubrögðum, skólasókn, ástundun og virkni nemenda í kennslustundum á vorönn. Matseinkunn er gefin í öllum námsgreinum, á síðasta kennsludegi vorannar, þeim nemendum sem eiga rétt á því.

Námseinkunn

Námseinkunn byggir á mati kennara á vinnu nemenda yfir skólaárið, þ.e. frammistöðu í verkefnum, ritgerðum, skyndiprófum og skýrslum og mati á  vinnubrögðum, skólasókn, ástundun og virkni nemenda í kennslustundum. Allir nemendur, bæði með reglulega skólasókn og án skólasóknar fá námseinkunn. Námseinkunn er gefin sem sérstök einkunn í stúdentsprófsgreinum. Jafnframt vegur hún 50% í lokaeinkunn hverrar stúdentsprófsgreinar. Í þeim tilvikum sem námsgrein er aðeins kennd eina önn byggir námseinkunn á mati á vinnu yfir önnina. Birtast á einkunnablöðum í lok hverrar annar og stúdentsprófsskírteini.

Prófseinkunn

Prófseinkunn er sá hluti annareinkunnar í framhaldsgreinum sem gefin er fyrir annarpróf í framhaldsgreinum. Annarpróf eru haldin í lok haust- og vorannar. Þau geta vegið 50-90% af annareinkunn.

Stúdentsprófseinkunn

Stúdentsprófseinkunn er einkunn á stúdentsprófi í hverri námsgrein. Hún er gefin sem sérstök einkunn. Jafnframt vegur hún 50% í lokaeinkunn hverrar námsgreinar. Stúdentspróf er lokapróf í námsgrein, yfirleitt 2 tímar og prófað er úr námsefni alls skólaársins nema í aðalgreinum brauta þá er lokapróf 3 tíma yfirlitspróf og prófað úr námsefni tveggja til fjögurra námsára. Í þeim tilvikum sem námsgrein er aðeins kennd eina önn er prófað úr efni annarinnar. Birtist á einkunnablöðum í lok hverrar annar og á stúdentsskírteini.

Stúdentsprófsgrein

Stúdentsprófsgrein er námsgrein kölluð á þeirri önn er nemandi lýkur námi í henni.

Vinnueinkunn

Vinnueinkunn er sá hluti annareinkunnar í framhaldsgreinum er byggir á mati kennara á vinnu nemenda þ.e. frammistöðu í verkefnum, ritgerðum, skyndiprófum og skýrslum og mati á  vinnubrögðum, skólasókn, ástundun og virkni nemenda í kennslustundum yfir önnina. Allir nemendur, bæði með reglulega skólasókn og án skólasóknar fá vinnueinkunn. Getur vegið 10-50% af annareinkunn. 


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 04.10.2010