Sameiginlegur fundur foreldraráða framhaldsskóla
Fundur með formönnum/fulltrúum foreldraráða nokkurra framhaldsskóla haldinn hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra að Suðurlandsbraut 24, 18.02.09, klukkan 15:00
Mættir: Björk Einisdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Linda Björk Ólafsdóttir Menntaskólanum við Hamrahlíð, Matthildur Aradóttir Verslunarskóla Íslands, Soffía Karlsdóttir Menntaskólanum í Reykjavík, Steinar Harðarson Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Valdís Arnarsdóttir Menntaskólanum í Kópavogi, Þröstur Gunnarsson Menntaskolanum við Sund. Sævar Guðbergsson Menntaskólanum Hraðbraut boðaði forföll.
Markmiðiðvar að hittast til skrafs og ráðagerða um stofnun og starfsemi nýrra foreldraráða í framhaldsskólum samkvæmt nýjum framhaldsskólalögum frá 12. Júní 2008. Þar segir:
Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð. Skólameistari boðar til stofnfundar þess. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Félagsmenn geta verið foreldrar nemenda við skólann. Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.
Ástæðan fyrir því að ofangreindir aðilar sátu fundinn var sú að þeir höfðu haft samband við samtökin og bent á að aðkallandi væri að skapa vettvang fyrir foreldraráð framhaldsskólanna til að hittast og ræða það sem helst brennur á fólki varðandi stofnun og starfsemi foreldraráðanna. Foreldraráð eru talin mikilvægur tengill milli skólans og forráðamanna ólögráða nemenda. Þeim er m.a. ætlað að
· Vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna.
· Stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
· Vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.
· Hvetja til aukins stuðnings, aðhalds og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra.
· Koma á og tryggja öflugt og gott samstarf foreldra/forráðamanna, nemenda og starfsfólks skólans.
Umræður
Foreldrafélög eða foreldraráðForeldrafélög höfðu starfað með góðum árangri í fjórum skólum af sex og í þeim skólum skipar stjórn foreldrafélagsins foreldraráðið. Í fimmta skólanum var stofnað foreldrafélag um foreldraráðið en í þeim sjötta var stofnað foreldraráð. Í fimm skólum hefur val á áheyrnarfulltrúa í skólanefnd þegar farið fram en í þeim sjötta verður sá fulltrúi valinn innan skamms. Töluverðar umræður sköpuðust um orðin foreldraráð/foreldrafélag og einn nefndi að í sínum skóla væri foreldrafélagið kallað foreldraráð. Rætt um að verksvið foreldraráðs og foreldrafélags væri æði ólíkt. Foreldraráðið samanstæði af fáum aðilum en það virtist misjafnt eftir skólum eða allt frá þremur aðilum upp í tíu þar sem mest er. Einnig virtist skilningurinn vera að foreldraráðin hefðu meira með innra starf skólans að gera, skólanámskrá, skólanefnd. En foreldrafélögin hefðu til þessa haft meira með forvarnir að gera; standa að fræðslufundum fyrir foreldra, eftirlit á böllum, standa fyrir skíðaferðum og þess háttar. Það var samróma álit fundarmanna að hvoru tveggja væri mikilvægt og að starfsemi foreldrafélaganna þyrfti að efla frekar en hitt. Allir foreldrar við skólana eru sjálfkrafa aðilar að félaginu/ráðinu en aðild er ekki skylda. Þannig er öllum foreldrum sem áhuga hafa tryggð aðkoma að skólanum og allir sammála um mikilvægi þess.
Að virkja sem flesta Fram kom að ekki væri nægilegt að allir foreldrar væru sjálfkrafa aðilar að foreldrafélaginu, það þyrfti líka að gera könnun á því að hausti hverjir hafi áhuga á að taka þátt í starfinu.
Félagsgjöld Hvergi eru rukkuð félagsgjöld enn sem komið er.
Gott samstarfAllir voru á einu máli um að samstarfið við skólameistara væri gott og skólarnir hafi hingað til lagt til fjármagn til fræðslufunda og annarrar starfsemi foreldrafélaganna. Skólameistararnir líti á foreldra sem auðlind í skólastarfinu og telja þá mikilvægan bakhjarl fyrir skólastarfið og líðan nemenda.
Skipst á hugmyndum Af umræðunum mátti ráða að starfið er mislangt á veg komið en nokkrir skólar eru í óða önn að skipuleggja fræðslufundi og aðrir komu með dæmi um það sem mælst hefur vel fyrir í þeim efnum:
· Fyrirlestur um netfíkn – Þorsteinn K. Jóhannsson
· Niðurstöður úr könnun Rannsóknar og greiningar um líðan ungmenna í skólum
· Jóna Hrönn Bolladóttir og Þórdís Gísladóttir
Ákveðið að vera í tölvusamskiptum og skiptast á góðum hugmyndum hvað þetta varðar.
Ábyrgð á samstarfinu innan skólans Algengt að forvarnarfulltrúinn haldi utan um samstarfið við foreldra og í einum skólanum heldur hann utan um netfangalista forráðamanna. Námsráðgjafar eru einnig mikilvægir tengiliðir.
Mikilvægt að lýsa upp hlutverk umsjónarkennara og fram kom að hann ætti að vera lykilaðilinn í skólanum varðandi samstarf við foreldra og að upplýsingaflæðið þyrfti að vera gagnkvæmt. Farsælast væri að umsjónarkennarinn héldi utan um netföng foreldra í sínum bekk/hópi.
Áhyggjur af ástandinu í þjóðfélaginu. Mikilvægt að foreldrar séu virkir þátttakendur í skólastarfinu og að þar komi foreldraráðin sterkt inn. Ávinningur af foreldrasamstarfi á framhaldsskólastigi er mikill og dregur t.a.m. úr brottfalli.
Brottfallúr framhaldsskólunum var mikið fyrir og ekki ólíklegt að það muni aukast á næstu misserum. Ástæða talin til að leita allra ráða til að halda nemendum í skólunum þar sem þeir hafi í fá hús að venda í atvinnuleysinu. Stöndum vörð um líðan allra nemenda.
Efla þarf stoðþjónustu við nemendur framhaldsskólannaog skólarnir misvel búnir í þeim efnum; sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, námsráðgjafar, forvarnarfulltrúar, sérkennarar
Kostnaður við námsbækurnaríþyngir mörgum námsmanninum. Heyrst hafa dæmi þess að nemendur séu ekki komnir með bækur nú þegar tveir mánuðir eru liðnir af önninni. Það ætti að vera baráttumál foreldra að bækur í framhaldsskólunum verði endurnýttar með svipuðum hætti og tíðkast í grunnskólunum. Í framhaldi af því sköpuðust umræður um jafnrétti til náms.
Niðurstöður
Haustfundur Fundarmenn sammála um að stefna á stærri fund í haust enda málefnin ærin. Næsti fundur var ákveðinn 06.05.09 klukkan 15:00. Sá fundur yrði undirbúningur fyrir stærri fund en hugmyndin er að boða til fundar á landsvísu í haust þar sem foreldraráðum/félögum gæfist tækifæri til að skiptast á skoðunum og hugmyndum um hvernig hægt er að koma á og tryggja öflugt og gott foreldrastarf í framhaldsskólum. Hugmynd að yfirskrift – Hver ber ábyrgð á ungmennum? Fræðsluskylda/skólaskylda
Handbók Ákveðið að vera í netsambandi fram að næsta fundi og að samtökin fái að vera með í þeim samskiptum. Samtökin vinna nú að handbók fyrir framhaldsskólann um starfsemi foreldraráðanna. Það mun verða leiðbeiningarrit fyrir foreldraráðin/félögin. Stefnt er á að handbókin liggi fyrir til kynningar á áðurnefndum haustfundi.
Fleira ekki gert og fundi slitið 16:30.
Fundargerð skráði Björk Einisdóttir
|