Ræða rektors vor 2008
Menntun í umróti breytinga
Verðandi stúdentar, samstarfsfólk og aðrir gestir. Velkomin til þessarar hátíðar. Það hefur lengi tíðkast að fjalla um starfið á því skólaári sem er að ljúka við útskrift. Að þessu sinni er full ástæða að gera svo enda hefur verið óvanalega mikil gróska í skólastarfinu. Námsárangur þetta skólaárið er svipaður og í fyrra en nokkru betri en ár þar á undan. Meðaleinkunn allra nemenda var 6,6. Í fyrra var hún 6,7 en nokkur þar á undan var hún á bilinu 6,3 til 6,4. Nemendur í forystu félagsmála hafa verið frábærir, jákvæðir og duglegir að brydda upp á nýjungum og starfsfólk skólans hefur unnið markvisst að því að bæta skólastarfið. Starfsfólk skólans hefur verið í forystu í rannsóknum á eigin starfi og unnið hörðum höndum að greiningu og stefnumótun til framtíðar. Einnig má segja að afar vel hafi tekist til fyrsta árið með forfallakerfið sem Menntaskólinn við Sund kom á fót, fyrstur framhaldsskóla. Á því verður framhald.
Ég ætla að þessu sinni fyrst og fremst að ræða um stöðuna í menntunarmálum á Íslandi. Það er nefnilega full þörf á að velta fyrir sér gildi menntunar og hlutverki skólakerfisins í því umróti breytinga sem nú liggur fyrir að verði á íslensku samfélagi og íslensku skólakerfi.
Fyrir 105 árum síðan ritaði Guðmundur Finnbogason um Lýðmenntun. Þar segir hann m.a. um gildi menntunar:
„Með öðrum orðum; menntun hvers manns verður að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra ... Enginn getur orðið að manni nema í samfélagi annarra manna. " (Guðmundur Finnbogason, 1903: Lýðmenntun. Rannsóknarstofnun)
Þessi orð, rituð árið 1903, löngu fyrir tíma fjölgreindakenninga en þó í anda þeirra, eru í fullu gildi og mér þykir Guðmundur Finnbogason lýsa á ótrúlega skýran og einfaldan hátt hvert er hið raunverulega gildi menntunar. Eins og Guðmundur bendir á þá sækjum við ekki alla okkar menntun í skólakerfið. Þar fer hin formlega menntun fram en lífið sjálft er okkar besta tækifæri til menntunar og það hvílir sú ábyrgð á okkur að nýta það tækifæri eins vel og kostur er.
Góðir gestir! Íslenskt skólakerfi hefur fengið alveg nýjan starfsramma. Ný lög um öll skólastig hafa verið samþykkt á þessu þingi og einnig ný lög um menntun kennara og skólastjórnenda. Það er ekkert ríki með jafn unga löggjöf um menntun og skólastarf og Ísland. Jafnframt því að breyta rammanum sem unnið er eftir eru námskrár í endurskoðun og nú þegar hafa all margar nýjar námskrár verið gefnar út og endurbættar á mörgum sviðum auk þess sem fjölmargar reglugerðir eru í smíðum sem skýra eiga framkvæmd laganna.
Flestir sem koma að skólamálum eru sammála um það að róttækustu breytingarnar sem boðaðar hafa verið á íslensku skólakerfi eru á framhaldsskólastiginu (lög samþykkt nú í lok þings 29.05.2008). Þær breytingar sem nú hafa verið boðaðar á því skólastigi eru afraksturs ferlis sem var endurvakið árið 2002 með svonefndri VR-skýrslu. Með lögunum er verið að hnykkja á markmiðum og skýra valdsvið og ábyrgð.
Á meðan markmið eru skilgreind mun betur en áður í lögum um framhaldsskóla er vald og ábyrgð á framkvæmd laganna færð í mun ríkari mæli út til skólanna. Það er opinbert markmið laganna að styrkja stöðu verk- og iðnnáms með því að jafngilda verknám bóknámi eins og þar segir. Við sem stýrum bóknámsskólum þykir sumum sem hlutur bóknámsins hafi orðið heldur rýr í ákafanum við að reyna að styrkja stöðu iðn- og verknáms með nýrri lagasetningu. Ef til vil kemur þetta þó ekkert að sök ef skólarnir fá raunverulegt svigrúm til breytinga. Í nýjum lögum eru skilgreindar lágmarkskröfur og einingar í grunngreinunum íslensku, ensku og stærðfræði en síðan lagt í hendur skólanna að byggja upp námsbrautir út frá þeim áherslum og þeirri sérhæfingu sem þeir vilja viðhafa.
Nýjum lögum fylgir því aukin valddreifing frá ráðuneyti til skóla sem flestir ættu að geta fagnað. Frelsinu fylgir þó ábyrgð. Ábyrgðin felst fyrst og fremst í því að skipuleggja námið þannig að gæði þess náms sem í boði verður verði hvað mest. Það hvílir líka sú ábyrgð á skólunum og ráðuneyti að skapa starfsfóki skólanna gott starfsumhverfi, og góð kjör, þannig að ætíð verði völ á hæfasta fólkinu. Það þarf að tryggja eins vel og unnt er að allir verði tilbúnir til að gera sitt besta. Án stuðnings frá ráðuneyti, bæði faglegum stuðningi sem og fjárhagslegum, er viðbúið að breytingarnar skili ekki tilætluðum árangri. Frelsið sem skólarnir fá er það mikið að þeir gætu, ef stuðningur fæst ekki, ákveðið að halda sínu striki með lítt eða óbreyttri starfsemi. Með því myndu þeir tryggja núverandi gæði en missa af tækifærinu að bæta starfið verulega.
Verði þróunin þessi má segja að það hafi verið viðhaft mikið tilstand fyrir lítið.
Nýtt skipulag framhaldsskólans kallar á nýja hugsun. Skólar og ráðuneyti eiga að sameinast í því að varðveita það sem hvað best hefur gefist í íslensku skólakerfi en nota einnig tækifærið sem fylgir breytingunum til að skapa framúrskarandi náms-og starfsumhverfi. Námsumhverfi sem er í senn nútímalegt, markmiðstengt og árangurstengt en jafnframt stutt af sterkara stuðningskerfi en við þekkjum í dag. Stuðningskerfi sem tekur bæði tillit til getumikilla sem getulítilla nemenda.
Árið 2006 töldum við ljóst að gerðar yrðu miklar breytingar á íslensku skólakerfi. Þá ákvað Menntaskólinn við Sund að vera virkur þátttakandi í breytingaferlinu og taka frumkvæði. Skólinn setti þá í gang áætlun í fimm liðum um það hvernig vinna ætti að þvi að breyta starfsemi skólans þannig að hann gæti sinnt betur markmiðum sínum. Áætlunin fól í sér skilgreiningu á markmiðum, greiningu á ástandi og möguleikum, stefnumótun, innleiðingu á nýju kerfi og loks þróun á því og fínpússun. Markmiðin eru skýr: Að vera með bóknámsskóla í fremstu röð. Skóla sem er framsækinn í kennsluháttum, vel skipulagður og sem getur tekið á móti nemendum þar sem þeir standa í sínu námi og fylgt þeim eftir á þeirra hraða í gegnum námið. Menntaskólinn við Sujnd ætlar að skerpa verulega á sérstöðu sinni og áherslum. Við ætlum að tengja námið betur okkar nánasta umhverfi og það verður lögð áhersla á að tengja sögu, menningu og náttúru námsefninu óháð því á hvaða námsbraut nemendur eru.
Þegar kemur að því að ný lög taka gildi verður Menntaskólinn tilbúinn með nýtt skipulag, nýja námskrá og vonandi mun betra starfsumhverfi en nú. Í skólanum er bæði þekking, geta og vilji til þess að taka afgerandi forystu þessu sviði. Það er fyrir löngu orðið tímabært að yfirvöld viðurkenni þörfina á sérhæfingu bóknáms ekki síður en verknáms og sýni þann skilning með því að styrkja myndarlega við frumkvöðlastarf á því sviði, hvort sem það fer fram í Menntaskólanum við Sund eða í öðrum framhaldsskólum.
Ég hvet stjórnvöld til þess að sjá til þess að fjárveitingar til framhaldsskólans verði þannig að svigrúm verði til þess að breyta og bæta framhaldsskólann. Það verði svigrúm til þess að borga góðu starfsfólki góð laun. Það fylgir bæði mikil fyrirhöfn og kostnaður þeim breytingum sem boðaðar hafa verið en bráðnauðsynlegt er að, með auknu valdi og aukinni ábyrgð, fylgi nothæf tæki til þess að hrinda stefnumálunum í framkvæmd.
Við höfum í dag nokkuð gott skólakerfi. Sérkenni íslenska skólakerfisins eru nokkur og styrkleikarnir eru margir. Gallarnir eru þó einnig nokkrir og sumir ansi áberandi.
Er það ásættanlegt að skóli sem talinn er einn af best reknu ríkisstofnunum á landinu árið 2008. Skóli sem stendur í fremstu röð á sviði árangursstjórnunar, að mati ríkisins. Skóli sem hefur á að skipa úrvals starfsfólki, bæði vel menntuðu og tilbúnu til að gera sitt besta verði, ár eftir ár, að búa við einn lélegasta húsakost sem fyrirfinnst í skólakerfinu?
Það er ekki ásættanlegt til lengri tíma að fjárveitingar séu með þeim hætti að svigrúm til að breyta og bæta skólastarfið sé nánast ekkert. Það er eitthvað öfugsnúið við það að vera með nýja framsækna löggjöf en fjárveitingar sem taka mið af starfseminni eins og hún var á fyrri hluta síðustu aldar.
Ég trúi því hins vegar að það séu bjartari tímar framundan. Ég trúi því að stjórnvöld muni í verki sýna því skilning að það kostar að gera betur. Breytingarnar á lagaumhverfinu eru til góðs. Nú er lag að fylgja góðum markmiðum eftir!
|