Forsíða > Skólinn > Brautskráningar > Útskrift 2006 > Prentvænt

Skýrsla rektors vor 2006

Skýrsla rektors

Við brautskráningu er við hæfi að gera grein fyrir skólastarfinu. Af mörgu er að taka en hér verður stiklað á stóru og fátt eitt nefnt.

Rekstur skólans

Hefð er fyrir því að ræða fjármál og rekstur skólans á útskrift. I dag segi ég: Það vantar meira fjármagn til að koma góðum hlutum í verk. Þannig er það hjá okkur eins og öðrum. Við nýtum hins vegar peningana ákaflega vel og höfum gætt þess að halda jafnvægi í rekstrinum undanfarin ár. Með því hefur okkur tekist að búa til sem næst viðunandi starfsumhverfi þar sem með strangri forgangsröðun hefur tekist að bæta aðstöðuna smátt og smátt. Jafnvægi í rekstri skólans er forsenda þess að hægt sé að hafa stöðugleika í hinu faglega starfi.

Starfið

Víkjum þá fyrst að nemendum skólans: Haustönn 2005  hófst með því að skólinn var settur miðvikudaginn 24. ágúst 2004 og hófst kennsla sama dag. Alls voru kennsludagar á skólaárinu 147, prófadagar voru 28 og starfsdagar utan 9. mánaða skólaárs 4 eða alls 179 dagar. Nemendafjöldi í skólanum var svipaður og sl. ár. Það hófu um 760 nám við skólann sl. haust en um mitt skólaárið í janúar voru 740 nemendur við nám í skólanum, á málabraut voru þeir 85 á félagsfræðabraut voru 327 nemendur og á náttúrufræðibraut voru þeir 328.

 Kynskiptingin var þannig að piltar voru 375 og stúlkur 365.  Ótrúlega jöfn skipting eins og verið hefur nú um langt skeið. Kynjaskiptingin í MS birtist í vali nemenda.

 Stúlkur eru í meirihluta á málabraut, félagsfræðikjörsviði félagsfræðabrautar og líffræðikjörsviði náttúrufræðibrautar en strákar eru í meirihluta á hagfræðikjörsviði félagsfræðabrautar og umhverfis- og eðlisfræðikjörsviði náttúrufræðibrautar. Þetta er sama kynjamunstur og í fyrra

 En bekkurinn er þétt setinn í MS og við erum því sífellt að reyna að nýta húsnæðið betur.  Þannig fær sviðið við íþróttasalinn að fjúka í sumar og næsta skólaár munum við í staðinn  taka í notkun fullkominn fyrirlestrarsal sem vonandi á eftir að nýtast okkur mun betur en sviðið sáluga. Þetta er mikil framkvæmd og höfum við fengið að hönnuninni færustu sérfræðinga undir stjórn arkitektastofunnar Glámu-Kím og þá höfum við notið dyggs stuðnings Fasteigna ríkisins sem ætið hafa reynst okkur ákaflega vel.

 Húsnæðismál skólans hafa verið í umræðunni jafn lengi og skólinn hefur starfað. Húsnæði gamla Miðbæjarskólans þar sem Menntaskólinn við Tjörnina var til húsa sín fyrstu ár  var bráðabirgðahúsnæði. Þegar skólinn flutti síðan alfarið í núverandi húsnæði var flutt í húsnæði sem byggt var yfir Vogaskóla. Skólinn hefur aldrei starfað í sérbyggðu húsnæði sem sniðið er að þeirri starfsemi sem fer fram. Það er fyrst núna sem eru að verða breytingar á þessu. Þarfagreining liggur fyrir. Í skólasamningi MS og menntamálaráðherra segir að á þessu ári verði gengið frá skipulagi lóðar og unnið að undirbúningi framkvæmda við hönnun viðbótarhúsnæðis vegna fyrirhugaðs útboðs á framkæmdum við skólann. Það hillir því undir það að Menntaskólinn við Sund fái um 3000 fermetra af sérhæfðu viðbótarhúsnæði sem okkur vantar svo sárlega. Það var kominn tími til. Með nýju húsnæði skapast ný tækifæri sem við munum nýta okkur.

 Faglegt starf

Grundvöllur góðs skólastarfs felst í góðri kennslu. Gott skipulag, góð stjórnun, góður rekstur, skýr námsmarkmið, gott námsframboð, nýting upplýsingatækni í kennslu, skipulagt sjálfsmat og góður starfsandi skipta máli en það er kennslan sem gerir útslagið. Ef kennslan er ekki í lagi er skólinn ekki í lagi.

 Í vetur var unnið í samstarfsnefnd skólans og félagsmanna í KÍ að því að gera nýjan stofnanasamning. Afrakstur þeirra vinnu var sá að nýtt launakerfi leit dagsins ljós, gengið var frá samningi um kjör fyrir faglega stjórnun, verkefnastjórnun og ýmis sérverkefni auk þess sem gengið var frá nýjum samningi um árangurstengingu launa. Með því samkomulagi var haldið áfram á þeirri braut sem skólinn, fyrstur íslenskra framhaldsskóla mótaði. Með þessu sýnir skólinn vilja til að borga betur það sem vel er gert. Því er ekki að leyna að það eru margir möguleikar á að útfæra árangurstengt launakerfi og auðvitað sýnist sitt hverjum um þá leið sem við völdum. Vinnan í samstarfsnefndinni var ákaflega ánægjuleg og ég get seint fullþakkað hve vel nefndin var mönnuð. Það sama á við um aðra starfsmenn skólans. Fagmennska einkennir vinnubrögðin, það eru uppi skoðanir á mönnum og málefnum, pólitík og dægurmálum, það er tekist á um skólamál, mál eru afgreidd en að átökum loknum þegar vinnudegi lýkur setjast menn niður, leysa þýska krossgátu, fara í blak, spila bridge, skrifa pistla í Króa eða leggja á brattann og ganga um hálendi Öskjuhlíðar eins og gönguklúbburinn auglýsti eina ferð sína um daginn. Starfsfólk Menntaskólans við Sund er óhrætt við að leggja á brattann!

 Skólamál hafa mikið verið í umræðunni. Mótmæli margra nemenda gegn fyrirkomulagi samræmdra prófa var umfjöllunarefni fjölmiðla í vetur. Skólafólk ræddi mikið um hugsanleg áhrif þessara prófa á skólastarfið og margir fögnuðu því þegar menntamálaráðherra ákvað að leggja þau af í núverandi mynd. Annað stórmál í skólamálum bíður úrlausnar:  Væntanleg stytting námstíma til stúdentsprófs. Hér er um að ræða verkefni sem þarfnast þess að vel sé unnið. Harðir andstæðingar fyrirhugaðar styttingar eru margir en fylgjendur einnig.  Það þarf að vinna að þessu verkefni fordómalaust og meðvitað um áhrif breytingarinnar á hagi nemenda og starfsmanna skólanna. Það skiptir máli að okkar færustu sérfræðingar í skólamálum, starfsmannamálum, samningamálum og rekstri skólanna vinni saman til að tryggja sem besta niðurstöðu. 10 – skrefa samkomulag Kennarasambands Íslands og menntamálaráðherra er mikilvægt framlag til þessa en sú vinna sem framundan er mun ráða því hvernig til tekst.

Félagslíf nemenda

Þá nokkur orð um félagslíf nemenda við skólann. Flestir hér inni urðu eflaust varir við umfjöllun fjölmiðla um drykkju og dólgslæti á dansleikjum haustannar. Vissulega var ástandi ekki gott. En eins og oft þá voru fjölmiðlar svo sem ekki að draga úr þegar greint var frá og ekki bætti úr skák að sumir sögðu meira um þetta mál í fjölmiðlum en þeir ættu að hafa gert stöðu sinnar vegna. Ég er ánægður og stoltur af nemendum skólans fyrir það hvernig þeir tóku á þessu máli með mér. Ég er alveg sérlega ánægður með forystulið nemenda í þessu máli. Það var tekið á vandanum.

 Annars má fullyrða að félagslífið blómstraði í vetur. Mikið líf var í ýmiskonar klúbbastarfi, íþróttastarfi og voru uppákomur með fjölbreyttasta móti. Söngvakeppni, leiklistarstarf, gettu betur, ræðukeppni, spunakeppni, íþróttamót af ýmsu tagi, útgáfa og margt fleira var meðal þess sem skipulagt var. Í árshátíðarvikunni hjá okkur var skólastarfið brotið upp og þá sýndu margir nemendur á sér nýjar hliðar og er það mér ákaflega eftirminnilegt að hlusta á nemendur skólans lesa upp úr íslendingasögunum um miðja nótt.

 Ég vil þakka félagsmálafulltrúum skólans og stjórn nemendafélagsins fyrir sérlega ánægjulegt samstarf í vetur. Ég er þeim og öðrum starfsmönnum sem í vetur hafa lagt  nemendum lið afar þakklátur.

Ég býð nýja stjórn nemendafélagsins velkomna til starfa.

Námsárangur

Ástundun hefur áhrif á námsárangur. Þetta brýnum við fyrir nemendum okkar á hverju ári. Allar niðurstöður rannsókna á fylgni góðs námsárangurs og ástundunar sýna að fylgnin er sterk. Þess vegna fylgjumst við vel með ástundun nemenda og reynum að grípa inn í ef nemendur virðast vera að slaka á klónni. Því veitum við þeim nemendum viðurkenningu á hverri önn sem best mæta. Til að mæting verði enn betri verða nemendur að sýna meiri sjálfsaga og svo þurfum við aukið liðsinni foreldra og forráðamanna.

 Hvað þá með námsárangurinn? Í heildina var námsárangur í skólanum svipaður og síðastliðin ár, fall var þó of mikið, allt of margir eru að taka sénsa og það er áhyggjuefni að nemendur eru að lenda í vandræðum með sitt nám síðar á námsferlinum en áður. Til dæmis er meira fall í öðrum bekk en fyrsta. Meðaleinkunn allra nemenda í skólanum nú í vor var 6,4 í fyrra var hún 6,3, 6,4 árið 2004 og 6,3 árið 2003.

Í dag verða brautskráðir frá skólanum 112 nemendur. Þetta er nokkru færri nemendur en hófu nám á fjórða ári. Þrír nemendur til viðbótar munu geta útskrifast síðar í sumar takist þeim að ná endurtökuprófum sem við vonum að gerist.

Málabraut, hugvísindakjörsvið (M): 18 nemendur                                      

Félagsfræðabraut, félagsfræðikjörsvið (F); 28 nemendur

Félagsfræðabraut, hagfræðikjörsvið (H); 11 nemendur   

Náttúrufræðibraut, líffræðikjörsvið (NL):  31 nemandi

Náttúrufræðibraut, umhverfiskjörsvið (U): 11 nemendur   

Náttúrufræðibraut, eðlisfræðikjörsvið (E): 13 nemendur   

Hæsti nemandi á hverju kjörsviði:

Málabraut, hugvísindakjörsvið (M):                  Hjördís Alda Hreiðarsdóttir9,5

Félagsfræðabraut, félagsfræðikjörsvið (F):    Sunna Þrastardóttir 8,7

Félagsfræðabraut, hagfræðikjörsvið (H):       Áslaug Dagbjört Benónýsdóttir 7,9

Náttúrufræðibraut, líffræðikjörsvið (NL):         Steinunn Guðmundsdóttir 9,3

Náttúrufræðibraut, umhverfiskjörsvið (U):       Elín Albertsdóttir 8,9

Náttúrufræðibraut, eðlisfræðikjörsvið (E):       Egill Tómasson 9,8

 

Nemendur með ágætiseinkunn þ.e. 9 eða hærra:

Björn Þór Aðalsteinsson, líffræðikjörsvið náttúrufræðibrautar 9,1

Egill Tómasson, eðlisfræðikjörsvið náttúrufræðibrautar, 9,8       

Hjördís Alda Hreiðarsdóttir, hugvísindakjörsvið málabrautar 9,5

Kristín Þóra Pétursdóttir, hugvísindakjörsvið málabrautar 9,1

Lilja Dröfn Gylfadóttir, líffræðikjörsvið náttúrufræðibrautar, 9,0

Steinunn Guðmundsdóttir, líffræðikjörsvið náttúrufræðibrautar 9,3

Semidúx skólans er Hjördís Alda Hreiðarsdóttirmeð 9,5. Hún var jafnframt formaður nemendafélagsins í vetur. Dúx skólans að þessu sinni er Egill Tómasson með 9,8 aðaleinkunn. Þar með hefur hann slegið fyrra met skólans en það var 9,7 og þótti flestum sú einkunn ótrúleg. Annað sem er sláandi við þennan einstæða árangur er að lægsta einkunn Egils á stúdentsprófi er 9,5  annars er þetta nánast allt tíur.

Það er góður siður að vekja athygli á þeim sem standa sig sérlega vel í náminu. Þeir sem fá yfir 9 í aðaleinkunn eru framúrskarandi námsmenn.  Það eru þó fleiri nemendur sem eiga skilið að þeim sé hrósað. Allir þeir nemendur sem eru hér á sviðinu í dag eiga hrós skilið. Allir hafa þeir lokið ætlunarverki sínu með sóma hver sem aðaleinkunnin er.

Afhending viðurkenninga til starfsmanna

Áður en kemur að því að brautskrá stúdenta langar mig til þess að nefna það að  tveir starfsmenn skólans eiga núna 25 ára starfsafmæli við skólann en tíðkast hefur að veita þeim sem ná þessum áfanga þakklætisvott við brautskráningu að vori. Að þessu sinni ná þessum áfanga þau Guðmundur Ólafssoníþróttakennari og Þórdís T. Þórarinsdóttir forstöðumaður bókasafns skólans. Ég ætla að biðja þau að koma hingað upp á sviðið til mín.


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 30.05.2006