Forsíða > Prentvænt

Þungamiðja Reykjavíkur er hér!

26. apríl 2006

Kannað hefur verið hvar búsetu þungamiðja Reykjavíkur er og reyndist hún vera í byggingum Menntaskólans við Sund og Vogaskóla. Var þetta reiknað út með sama hætti og þegar búsetuþungamiðja höfuðborgarsvæðisins var fundin út frá staðsetningu heimilisfanga allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Framkvæmdasvið Reykjavíkur segir, að eftir að frétt um staðsetningu þungamiðju höfuðborgarsvæðisins birtist í fjölmiðlum fyrr í þessum mánuði hafi borist fyrirspurnir um staðsetningu þungamiðju búsetu í Reykjavík einni og sér. Þetta hafi nú verið kannað með hjálp sömu upplýsinga og áður og reyndist þungamiðjan vera í byggingum Menntaskólans við Sund og Vogaskóla. Jafnframt var reiknuð fjarlægðin á milli þessara þungamiðja og reyndist hún vera 1530 metrar.

Framvegis verður þungamiðja Reykjavíkur skoðuð árlega um leið og þungamiðja höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmdasvið segir, að miðað við áform um uppbyggingu í Úlfarsárdal og öðrum austursvæðum megi búast við að búsetuþungamiðja Reykjavíkur hafi tilhneigingu til að þokast mest í austurátt á næstu árum en einnig eitthvað í norður vegna þéttingar í eldri hverfum borgarinnar. Mikil uppbygging í Vatnsmýri gæti hins vegar breytt þróuninni verulega og togast á við austurhverfin um staðsetningu þungamiðjunnar. (heimild: www.mbl.is, 24 apríl kl. 16:15)

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004