Forsíða > Prentvænt

Samræmd próf

28. september 2004

Samkvæmt reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum nr. 196 frá 2003 er nemendum skylt að þreyta tvö samræmd stúdentspróf af þremur þ.e. í íslensku, ensku og stærðfræði. 

Samræmt stúdentspróf í íslensku verður haldið fimmtudaginn 2. desember 2004 kl. 9:00 - 12:00.

Skráning í prófið fer fram í gegnum Innu og skrá nemendur sig sjálfir í prófið. Skráning fer fram frá 15. september til 15. október. Á því tímabili getur nemandi einnig breytt eða eytt skráningunni.

Nemendur geta tekið prófið tvisvar sinnum og þá er það síðari einkunnin sem gildir. Engin sérstök sjúkrapróf eru haldin.

Próftíminn er þrjár klukkustundir. Auk þess er nemendum heimilt að nýta sér 45 mínútna viðbótartíma. Ekki þarf að sækja um að fá að nýta sér þann aukatíma. Um önnur frávik frá reglum um próftöku þarf hver nemandi að sækja skriflega um sjálfur.

Gefin er einkunn á skalanum 1 til 10. Engin skilgreind lágmarkseinkunn er til að standast prófið. Námsmatsstofnun skal senda einkunnir til skóla í síðasta lagi 24 dögum eftir prófið. Einkunnir verða ekki birtar öðrum en nemandanum sjálfum nema með hans samþykki.

Samræmda stúdentsprófið í íslensku er markmiðsbundið yfirlitspróf en ekki bundið við ákveðnar kennslubækur. Prófið er eingöngu skriflegt. Prófað er út frá þeim námsmarkmiðum sem koma fram í 15 eininga kjarna í íslensku í aðalnámskrá. Þetta samsvarar námsefni 1. - 4. bekkjar við Menntaskólann við Sund. Prófað verður úr bókmenntum (um það bil 2/3), ritun (um það bil 1/3) og smávegis úr málnotkun sem hluti af bókmenntaspurningum. Sýnispróf, matsreglur og nánari upplýsingar um skráningu er að finna á heimasíðu Námsmatsstofnunar, http://www.namsmat.is en sú stofnun sér um framkvæmd og úrvinnslu samræmdra prófa.

Í lögum um framhaldsskóla frá 1996 er kveðið á um samræmd stúdentspróf og 2003 gaf menntamálaráðuneytið út reglugerð um samræmd stúdentspróf í framhaldsskólum. Þar kemur fram að tilgangur samræmdra stúdentsprófa er m.a. að:

a) veita nemendum og viðkomandi skóla upplýsingar um námsárangur nemenda og námsstöðu í þeim námsgreinum þar sem haldin eru samræmd stúdentspróf.

b) veita viðtökuskólum upplýsingar um námsstöðu einstakra nemenda og vera viðmið fyrir inntöku í einstakar deildir á háskólastigi.

c) veita fræðsluyfirvöldum upplýsingar um námsárangur, m.a. eftir framhaldsskólum og hvort markmiðum aðalnámskrár hafi verið náð.

Reglugerðina um samræmd stúdentspróf er að finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins og þar er einnig að finna aðalnámskrá í íslensku. Veffangið er: http://menntamalaraduneyti.is/

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004