Mjaðjurt: Blóm ágústmánaðar
5. febrúar 2016
Mjaðjurtin (Filipendula ulmaria) er í blóma um þessar mundir og er því blóm mánaðarins í MS.
Samkvæmt upplýsingum og útbreiðslukorti á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands er mjaðjurtin einkum algeng á Suðurlandi, Vesturlandi og í Eyjafirði. Plantan er hávaxin, 30-70 sm, og kraftmikil planta sem hefur smáa ilmandi hvíta blómklasa. Búsvæði hennar eru deigir grasmóar, graslautir, skóglendi eða mýrar. - Þess má geta að mjaðjurtina má oft sjá í og við vegaskurði á Suðurlandi.
Á annarri hæð aðalbyggingar skólans er bókin Flora Islandica (Rv. 2008) opin á blaðsíðu 208 þar sem sjá má plöntuna í allri sinni dýrð. Bókin skartar blómateikningum Eggerts Péturssonar sem upphaflega voru gefnar út sem myndefni í Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar.
Mjaðjurtin er af rósaætt. Samkvæmt Íslenskri flóru (Ágúst H. Bjarnason, 1994) segir að eins og nafnið bendi til hafi plantan verið notuð við mjaðargerð. Séu blöðin marin leggi af þeim sterka og þægilega lykt. Mjaðarkerin hafi verið smurð með þeim að innan og ennfremur voru þau notuð sem krydd í ölið.
Í bókinni Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur (Rv. 1992) kemur fram að virk efni mjaðjurtarinnar séu meðal annars barksýrur, ilmolíur og sykrungar. Mjaðjurtin hafi bæði verið kölluð vinur magans og verkjalyf grasalækna. Jurtin sé einstaklega góð við sárum og bólgum. Einnig sé hún góð við alls konar gigt og bólgu í liðum, vöðvum og taugum.
Nánari upplýsingar um mjaðjurtina má meðal annars finna á vefnum Flóra Íslands og Wikipedia þaðan sem myndiní skjalinu hér að neðan er fengin.
Mjaðjurt Acrobat skjal, 26 kB Sækja...
Eldri fréttir
|