Forsíða > Prentvænt

Blóm júnímánaðar er Hrafnaklukka

5. febrúar 2016

Hrafnaklukka: Blóm júnímánaðar

Hrafnaklukka (Cardamine nymanii) er í blóma um þessar mundir og er því blóm mánaðarins í MS að þessu sinni.

Samkvæmt vef Náttúrufræðistofnunar Íslands er hrafnaklukka algeng um allt land í deigum jarðvegi og mýrum frá láglendi upp í 700 m hæð. Hún er einnig algeng um hálendið, sjá útbreiðslukort Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hrafnaklukka er meðalhá með fjöðruðum blöðum og hvítum til fölfjólubláum blómum. Hún blómgast í maí til júní.

Á annarri hæð aðalbyggingar skólans er bókin Flora Islandica (Rv. 2008) opin á blaðsíðu 156 þar sem sjá má plöntuna. Bókin skartar blómateikningum Eggerts Péturssonar sem upphaflega voru gefnar út sem myndefni í Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar.

Hrafnaklukkan er af krossblómaætt. Samkvæmt Íslenskri flóru (Ágúst H. Bjarnason, 1994) segir að te af fjólubláum blómum þyki gott fyrir þá sem eigi við svefnleysi að stríða en te af hvítum blómum vilji maður vaka lengi. Auk þess sé hrafnaklukkan meðal annars álitin magastyrkjandi. Hún var notuð gegn skyrbjúgi, kreppusótti, miltis- og lifrarbólgu. Ekki var samt talið ráðlegt að konur með barni notuðu jurtina.

Í bókinni Íslenskar lækningajurtir eftir Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur (Rv. 1992) kemur fram að hrafnaklukkan sé mjög bitur og því góð til að örva matarlyst sé hennar neytt hálfri klukkustund fyrir máltíð.

Þess má geta að í Hveragerði er hannyrðaverslun sem kennir sig við blómið, sjá Hannyrðabúðin Hrafnaklukka. Einnig má nefna kjólapeysuna hrafnaklukka þar sem litir blómsins eru notaðir sem munstur

Nánari upplýsingar um hrafnaklukku má meðal annars finna á vefnum Flóra íslands og Náttúran.is þaðan sem myndin að neðan er fengin.

 

 

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004