Forsíða > Prentvænt

Lambagras er blóm maímánaðar

5. febrúar 2016

Lambagras: Blóm maímánaðar

Lambagrasið ljúfa er einn af vorboðunum í náttúru Íslands og er því blóm mánaðarins í MS að þessu sinni.

Samkvæmt vef Náttúrufræðistofnunar Íslands er lambagras ein af algengustu jurtum landsins. Það vex jafnt á láglendi sem hátt til fjalla, sjá Plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Á annarri hæð aðalbyggingar skólans er bókin Flora Islandica (Rv. 2008) opin á blaðsíðu 126 þar sem sjá má plöntuna. Bókin skartar blómateikningum Eggerts Péturssonar sem upphaflega voru gefnar út sem myndefni í Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar.

Samkvæmt vef Lystigarðs Akureyrar eru önnur náttúruleg heimkynni lambagrass auk Evrópu til dæmis í Asíu og Norður Ameríku en vefur Lystigarðsins státar líka af mörgum góðum myndum af jurtinni sem gaman er að skoða.

Lambagrasið (Silene acaulis) er af hjartagrasaætt. Það vex upp af einni rót, stólparót, og myndar þúfur sem slær yfir bleikum lit þegar blómin eru upp á sitt fegursta á vorin. Lambagrasið blómgast í maí á láglendi en upp til fjalla má sjá bleikar þúfur fram eftir sumri. Oft má sjá mismunandi liti í sömu þúfunni, fagurbleikan, ljósbleikan og hvítan. Samkvæmt Íslenskri flóru (Ágúst H. Bjarnason, 1994) helgast þetta af því að tvíkynja blóm (fagur-rósrauð), karlblóm (rjómagul) og kvenblóm (fölbleik) er gjarnan að finna á sömu blómþúfunni.

Í Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar (Rv. 1994) kemur auk þess fram að rætur lambagrassins hafi verið kallaðar holtarætur, harðaseigjur eða -sægjur. Þær hafi verið notaðar í grauta og eins steiktar í smjöri sem meðlæti með mat.

Nánari upplýsingar um lambagrasið er meðal annars á áðurnefndum vef Lystigarðs Akureyrar, vefnum Flóra Íslands og á Wikipedia en myndin hér að neðan er einmitt fengin af Wikipedia.

 Mynd:Silene acaulis LC0153.jpg

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004