MS vinnur stuttmyndasamkeppni Félags þýskukennara
5. febrúar 2016
MS vann í ár stuttmyndasamkeppni Félags þýzkukennara (FÞ). Höfundar eru þeir Freyr Heiðarsson, Friðgeir Atli Arnarsson og Kristján Orri Jóhannsson nemendur í 4.G. Stuttmyndina gerðu þeir í lok haustannar í staðinn fyrir munnlegt próf í þýsku, kennari Þórdís T. Þórarinsdóttir. Verðlaunaafhendingin fór fram á uppskeruhátíð þýskunnar í Iðnó föstudaginn 15. mars sl. þar sem sýndar voru þrjár bestu myndirnar. Þýski sendiherrann, Thomas Meister, afhenti vinningshöfum verðlaun, einnig vinningshöfum í þýskuþraut FÞ. Að því loknu voru pallborðsumræður undir yfirskriftinni „Af hverju þýska?“
Jórunn Sigurðardóttir (RÚV) stýrði pallborði með þekktum einstaklingum úr menningarlífinu sem deildu reynslu sinni af þýsku og samskiptum við þýskumælandi fólk og hvaða kosti það hefði í för með sér að tala þýsku sem um 177 milljón manns tala. Þátttakendur Voru Kristín Steinsdóttir rithöfundur, Arinbjörn Vilhjálmsson arkitekt og skipulagsstjóri Garðabæjar, Arngunnur Árnadóttir fyrsti klarinettuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Atli Heimir Sveinsson tónskáld.
Á myndinni eru verðlaunahafar ásamt þýska sendiherranum, f.v. Freyr, Kristján og sendiherrann. Friðgeir gat ekki verið viðstaddur.
Eldri fréttir
|