Rjúpnalauf - blöð Holtasóleyjar: Blóm nóvembermánaðar
5. febrúar 2016
Blóm nóvembermánaðar í MS er rjúpnalauf en það kallast lauf þjóðarblómsins, holtasóleyjar. Blómið er valið vegna laufanna en rjúpnalauf eru mikilvæg fæða rjúpunnar sem veiðimenn sækja að eftir megni á þessum árstíma. Á annarri hæð aðalbyggingar skólans er bókin Flora Islandica (Rv. 2008) opin á blaðsíðu 212 þar sem sjá má blómið en bókin skartar einmitt blómateikningum Eggerts Péturssonar sem upphaflega voru gefnar út sem myndefni í Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar.
Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að Íslendingar hafi í atkvæðagreiðslu árið 2004 valið holtasóley sem þjóðarblóm. Hún sé algeng um land allt og vaxi á melum og í þurru mólendi. Blöð hennar séu dökkgræn og gljáandi að ofan en hvítloðin undir og nefnist rjúpnalauf. Holtasóleyjar séu mjög duglegir landnemar á berum melum og breiðist gjarnan yfir klappir. Þegar fræin þroskist myndist á þeim löng, ljósbrún hár sem oft mynda eins og snúinn lokk og nefnist jurtin þá hárbrúða. Holtasóleyjan sé mjög harðgerð jurt sem finnist á allmörgum stöðum upp í 1000 m hæð í fjöllum, hæst skráð á Kirkjufjalli við Hörgárdal í 1200 metra hæð.
Í bókinni Íslensk flóra eftir Ágúst H. Bjarnason (Rv. 1994) segir auk þess að te af blöðunum þyki hinn besti drykkur og hafi m.a. verið talið styrkja magann. Auk þess sem blöðin voru mikilvæg fæða rjúpunnar voru þau áður þurrkuð og mulin til þess að drýgja reyktóbak. Það var og trú manna fyrrum að rótin drægi til sín peninga og var þá kölluð þjófarót.
Myndin hér að neðan er tekin af rjúpnalaufi við Þingvelli síðustu helgina í september. Vonandi að rjúpan njóti laufanna sem lengst en það er sjálfsagt oft hart á dalnum hjá henni.
Eldri fréttir
|