Sköpum jákvætt vinnuumhverfi þar sem einelti þrífst ekki
8. nóvember 2011
Menntaskólinn við Sund vill stuðla að því að í skólanum ríki jákvætt andrúmsloft, þar sem kurteisi og virðing eru höfð í öndvegi. Það er trú okkar að í þannig umhverfi þrífist ekki einelti og einstaklingurinn eigi hvað mesta möguleika á að geta gert sitt besta í námi sem vinnu. Í reglugerð nr. 1000/2004 er einelti skilgreint sem "ámælisverð eða síendurtekin hegðun sem er til þess gerð að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt ofbeldi fellur hér undir." Skólinn hefur sett sér viðbragðsáætlun við einelti og stendur að kynningum á henni meðal nemenda. Allir sem telja sig búa yfir upplýsingum um einelti á okkar vinnustað; gerendur og þolendur jafnt sem þeir sem sitja hjá og hafa fram að þessu þagað eða leitt eineltið hjá sér eru hvattir til þess að vísa grunsemdum sínum áfram til námsráðgjafa, umsjónarkennara eða til stjórnenda skólans. Verum samtaka: Einelti nei takk!
Eldri fréttir
|