Stórtónleikar í Lindakirkju 16. og 17. apríl, 2010
14. apríl 2010
Vopnaði Maðurinn eftir Karl Jenkins.
Stórtónleikar í Lindakirkju 16. og 17. apríl, 2010.
Samkór Kópavogs – Tónlistarskóli Kópavogs – Tónlistarskóli Hafnarfjarðar Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar Samkór Kópavogs og Kór Menntaskólans við Sund í samvinnu við nemendur og kennara úr Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar efna til tónleika í Lindakirkju dagana 16. og 17. apríl næstkomandi.
Flutt verður verkið Vopnaði Maðurinn: Friðarmessa (The Armed Man: A Mass for Peace) eftir Karl Jenkins. Stjórnandi á tónleikunum verður Björn Thorarensen og Hjörleifur Valsson vermir sæti konsertmeistara.
Kórarnir tveir hafa innan sinna raða yfir 100 söngvara og sinfóníuhljómsveitin úr skólunum þremur verður skipuð um 70 hljóðfæraleikurum, blöndu af kennurum og lengra komnum tónlistarnemum. Þetta verða því sannkallaðir stórtónleikar sem án efa verða mjög áhugaverðir og skemmtilegir.
Um svipað leyti í fyrra flutti Samkórinn ásamt Kór Kársnesskóla og hljóðfæraleikurum úr Tónlistarskóla Kópavogs verkið Requiem eftir sama höfund. Þóttu þeir tónleikar takast með afbrigðum vel og var þrefaldur húsfyllir í Lindakirkju.
Vopnaði Maðurinn eftir Karl Jenkins var frumflutt í Royal Albert Hall í London þann 25. apríl árið 2000 og eru því rétt 10 ár frá því það var fyrst flutt. Það hefur verið flutt yfir 800 sinnum í meira en 20 löndum en þetta er í fyrsta sinn sem verkið í heild sinni er flutt hér á landi með hljómsveit í fullri stærð. Undirtitill verksins, Friðarmessa, vísar til þess að verkið hefur mjög sterkan friðarboðskap og er tileinkað fórnarlömbum borgarastríðsins í Kosovo, en það stríð stóð einmitt sem hæst um það leyti sem verkið var samið. Messan samanstendur af hefðbundnum messuliðum – Kyrie, Sanctus, Benedictus og Agnus Dei en inn á milli er fléttað köflum sem hafa það hlutverk að sýna hvað stríð eru hryllileg og tilgangslaus. Textar verksins koma úr ýmsum áttum; Davíðssálmar og Opinberunarbók Biblíunnar, múslímskt bænakall, franskur miðaldatexti, latneskir og grískir messutextar, ásamt ljóðum eftir m.a. Kipling, Tennyson og eftirlifandi fórnarlamb kjarnorkusprengjunnar í Hiroshima.
Vopnaði Maðurinn er afar áhrifamikið verk, á vissan hátt nútímalegt en um leið mjög aðgengilegt hinum almenna hlustanda. Það er því óhætt að gera ráð fyrir áhugaverðum og skemmtilegum tónleikum í Lindakirkju 16. og 17. apríl næstkomandi.
Miðinn á tónleikana kostar kr. 3.000 og hægt er að panta á samkor@samkor.is eða í síma 695-0427. Aukatónleikar verða sunnudaginn 18. apríl og hefjast þeir klukkan 17:00.
Eldri fréttir
|