Forsíða > Prentvænt

Fræðsluerindi Hins íslenska náttúrufræðifélags

19. febrúar 2009

Mánudaginn 23. febrúar kl. 17:15 verður haldið fimmta fræðsluerindi vetrarins.  Erindið verður haldið í fyrirlestrarsal Menntaskólans við Sund (Bjarmalandi) að Gnoðarvogi 43. Allir eru velkominir og aðgangur er ókeypis!

Pokadýr í Ástralíu

Rannveig Magnúsdóttir, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands, flytur erindi um pokadýr Ástralíu. Í þessum fyrirlestri mun Rannveig fara aftur í tímann og skoða uppruna og örlög pokadýra í heiminum og einnig fjalla um í máli, myndum og myndböndum, nokkur af þeim pokadýrum sem hún hitti á ferðum sínum um Ástralíu. Þar á meðal er fenjapokamúsin (Antechinus minimus) sem var viðfangsefni meistaraprófsverkefnis hennar. Rannveig er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og lauk MS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2005 í samstarfi við Deakin háskóla í Geelong, Ástralíu. Hún útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2007 og stundar nú doktorsnám í líffræði við Háskóla Íslands í samstarfi við háskólann í Oxford.

 Pokadýr í Ástralíu eru miklu stærri og fjölbreyttari hópur dýra en margir gera sér grein fyrir. Kengúrur og kóalabirnir koma flestum kunnuglega fyrir sjónir en í þessari fjarlægu heimsálfu leynast margar aðrar furðuverur sem fáir vita um, m.a. pokamerðir, maurapokar, pokagreifingjar, pokaíkornar og pokamoldvörpur. Eins og þessi nöfn benda til líkjast sum þessara dýra öðrum alls óskyldum fylgjuspendýrum frá öðrum heimsálfum og hér hefur því orðið samhliða þróun. Pokadýr eru af mörgum stærðum og gerðum; minnsta pokamúsin (Planigale ingrami) er einungis 4 grömm en rauðkengúran (Macropus rufus) getur orðið 70-80 kíló. Mörg risapokadýr voru til áður en maðurinn fluttist til Ástralíu en þau dóu öll út fyrir um 47 þúsund árum og talið er að maðurinn hafi haft þar mikil áhrif. Diprotodon var stærsta pokadýr sem vitað er að hafi lifað en það var tveggja metra hátt og vó yfir tvö tonn. Skyldmenni þess í dag eru kóalabirnir og vambar.

(ágrip í fullri lengd og myndir má nálgast á heimasíðu félagsin; www.hin.is)

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004