Áheitaferð 1. bekkjar á Egluslóð 2009
11. febrúar 2009
Í tilefni þemadaga við Menntaskólann við Sund sem verða í vikunni 15. til 21. febrúar hefur verið ákveðið að ganga á ný til samstarfs við Barnaheill. Nemendur við skólann munu nú í fjórða sinn safna fé og styrkja samtökin Barnaheill sem vinna að því að bæta hag barna víðsvegar um heim. Hluti þessa verkefnis að þessu sinni er áheitaferð nemenda á fyrsta ári á slóðir Eglu. Hér á eftir er bréf sem skólinn sendir forráðamönnum nemenda á fyrsta ári vegna ferðarinnar þar sem gerð er grein fyrir verkefninu og dagskrá þemadaga (þorravöku) er kynnt. Allir viðkomandi eru beðnir um að kynna sér vandlega innihald bréfsins og styðja myndarlega við átakið.
Ágætu forráðamenn.
Í næstu viku (17.-19. febrúar) fer í hönd hin árvissa þorravaka Menntaskólans við Sund. Þá brjótum við upp hefðbundið skólastarf og vinnum að einhverjum þematengdum verkefnum. Verkefnin eru mismunandi frá ári til árs en að þessu sinni er hjálparstarf í brennidepli. Nemendur MS ætla að standa fyrir fjársöfnun og láta afraksturinn renna til Barnaheilla.
Samtökin Barnaheill vinna að bættum hag barna víðs vegar um heiminn, m.a. á Íslandi, með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. MS-ingar hafa þrisvar áður stutt starf samtakanna og safnað á þriðju milljón króna. Þeim peningum var varið til byggingar skóla í Kambódíu.
Í ár leggjum við okkar af mörkum í fjórða sinn. Eldri bekkingar munu kynna sér starf hinna ýmsu hjálparsamtaka og fara svo út af örkinni og vinna í þágu þeirra í einn dag. Vinnuframlag 1.bekkinga verður náms- og áheitaferð á slóðir Egils sögu en sagan er einmitt á efnisskránni þessa dagana. Ferðin verður farin þriðjudaginn 17.febrúar og lagt af stað frá skólanum kl. 8.15. Mikilvægt er að nemendur komi vel klæddir og með nesti þann dag. Heimkoma er áætluð kl.16.00. Kostnaður vegna ferðarinnar er nokkur en skólinn heitir á Barnaheill að láta 500 kr. renna til samtakanna fyrir hvern nemanda sem fer á Egluslóð. Auk þess greiðir skólinn hluta ferðakostnaðarins en sú upphæð sem fellur á ykkur er 1000 krónur og eru nemendur beðnir að koma með þá upphæð á þriðjudagsmorguninn. Í ljósi þess hvernig árar á vinnumarkaði nú er rétt að taka fram að ef einhver á erfitt með að greiða fyrir ferðina er sá hinn sami beðinn að snúa sér til Bjarkar Erlendsdóttur námsráðgjafa sem fyrst og við leysum úr því.
Dagskrá þorravökunnar verður að öðru leyti þannig:
mánud. 16. feb. Hefðbundin kennsla.
þriðjud. 17. feb. Áheitaferð á Egluslóð.
miðvikud. 18. feb. Tónlistarsmiðjur undir styrkri stjórn Tóneyjar.
fimmtud. 19. feb. Árshátíðardagur sem hefst með morgunverði í leikfimissalnum og lýkur með árshátíð um kvöldið.
föstud. 20. feb. Frí!
Eldri fréttir
|