Forsíða > Prentvænt

20 ár frá því að verkið Blómgun eftir Sigurjón Ólafsson var afhjúpað á lóð skólans

16. nóvember 2008

Í dag, 4. nóvember 2008 eru nákvæmlega 20 ár liðin síðan verið Blómgun eftir Sigurjón Ólafsson var afhjúpað á lóð Menntaskólans við Sund. Sigurjón vann þetta verk árið 1978. Frummyndin er úr tré, 121x44,5x47 sm. Vorið 1987 sótti Menntaskólinn við Sund um framlag úr Listskreytingasjóði ríkisins til að láta stækka myndina, endurgera hana í varanlegt efni og koma henni fyrir  á lóð skólans.   Umsóknin hlaut jákvæðar undirtektir og var þá gengið til samninga við Birgittu Spur, forstöðumann Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og ekkju listamannsins, um rétt skólans til að mega stækka og endurgera verkið. Framkvæmdinni var þannig háttað, að fyrst gerði Erlingur Jónsson myndhöggvari gipsafsteypu af verkinu í tvöfaldri stærð. Erlingur er gamall vinur og samstarfsmaður Sigurjóns og starfaði á þessum tíma sem kennari við myndlistarskóla í Osló. Fyrirtækið Kristiania Kunst- og Metalsløberi A/S í Osló sá síðan um að steypa verkið í brons. Því var lokið vorið 1988 og kom myndin til landsins þá um sumarið. Erlingur fylgdist með framkvæmd verksins ytra, og hann var einnig með í ráðum varðandi staðarval og gerð stöpulsins undir myndina. Stöpullinn var steyptur upp um haustið og föstudaginn 4. nóvember 1988 afhjúpaði Birgitta Spur verkið við hátíðlega athöfn á lóð skólans að viðstöddum nemendum og starfsmönnum hans.

Ljósmynd: Skúli Þór Magnússon, 2008

 

 

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004