Í dag, 16.nóvember, er Dagur íslenskrar tungu og þess vegna dagur þinn, dagur minn- dagur okkar allra. Jónasi Hallgrímssyni (f. 16.11.1807) skáldi og náttúrufræðingi hefði trúlega þótt sú hugmynd sérkennileg að helga einn dag á ári íslenskri tungu. Hann hefði viljað hafa þá fleiri. Hér við skólann eru ýmsir kennarar sem fara iðulega yfir í garð íslenskunnar með fræði sín, enda sýnir það sig að áhugi á einni grein eykst um leið og farið er að tengja hana öðrum greinum eða daglegu lífi. Íslenskan var Jónasi „ástkæra, ylhýra málið“ og í ljóðunum fylgdust skáldið og náttúrufræðingurinn iðulega að. En hann stundaði líka rannsóknir á náttúrunni og ekki má gleyma þýðingu hans á stjörnufræði þar sem hann varð að smíða fjölmörg orð. Hver kannast ekki við: aðdráttarafl, sporbaug og ljósvaka!
Kennarar eru hvattir til að verja stundarkorni af kennslutíma sínum 16. nóvember í umræður um eigin fræðigrein í ljósi tungumálsins.