Forsíða > Námið > Prentvænt

Almennt

Nám við Menntaskólann við Sund

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla segir m.a. eftirfarandi:

„Framhaldsskólum ber að búa nemendur sína undir líf, starf og frekara nám. Skólarnir gegna því veigamiklu hlutverki hvað varðar almenna menntun og félagslegt uppeldi nemenda auk þess sem þeir skulu vera vettvangur fyrir kynningu þjóðlegra og alþjóðlegra menningarverðmæta.“

Menntaskólinn við Sund er bóknámsskóli og býður nám til stúdentsprófs. Það er markmið skólans að bjóða nemendum aðeins það besta, góða þjónustu og fyrsta flokks nám óháð því á hvaða námsbraut þeir eru. Þá leggur skólinn sérstaka áherslu á að vera í fremstu röð hvað varðar náttúrufræðikennslu. Þessum markmiðum sínum ætlar skólinn að ná með því að virkja frumkvæði nemenda og starfsmanna, með því að leggja áherslu á góða kennslu og fjölbreytilega kennsluhætti, nýtingu upplýsingatækni í kennslu, góðan tækjakost, samvinnu við fyrirtæki og stofnanir og símenntun starfsmanna sinna.

 

 Skólinn leggur áherslu á:

·   Nemendavænt umhverfi.

·   Fjölbreytta kennsluhætti og öflugt þróunarstarf.

·   Góðan starfsanda.

·   Góðan undirbúning fyrir háskólanám og faglega ráðgjöf.

·   Góðan og nútímalegan aðbúnað til náms og kennslu.

·   Alþjóðlegt samstarf nemenda og kennara.

·   Virkt sjálfsmat.

·   Aðstoð við nemendur með námsörðugleika.

·   Sjálfstæð vinnubrögð nemenda.

·   Öflugt félagslíf nemenda og virkt forvarnastarf.

Stúdentspróf

Að loknu námi eru gerðar eftirfarandi kröfur til nemenda:

1.      Nemendur uppfylli skilyrði til náms á háskólastigi.

2.      Nemendur hafi öðlast víða sýn á samfélagið sem auðveldar þeim náms- og starfs­val.

3.      Nemendur hafi  almenna þekkingu en jafnframt trausta yfirlits­þekk­ingu á kjörsviði. Það felur í sér að nemendur:

·         Séu vel að sér um bókmenntir og listir og kunni að njóta þeirra.

·         Þekki réttindi sín og skyldur sem þegnar lýðræðisríkis.

·         Séu vel að sér um umhverfismál og meðvitaðir um ábyrgð sína gagnvart lífríkinu.

·         Séu meðvitaðir um rætur íslenskrar menningar, sérstöðu Íslands, stöðu þess í alþjóðasamfélaginu og ábyrgð gagnvart því.

4.      Nemendur hafi tamið sér öguð vinnubrögð og hæfni til að takast á við ný viðfangsefni. Það felur í sér að nemendur:

·         Hafi gott vald á íslensku máli, bæði í ræðu og riti.

·         Hafi góða færni í ensku og í a.m.k. tveimur öðrum ev­rópsk­um tungumálum.

·         Geti unnið skipulega að verkefnum, bæði sjálfstætt og með öðrum.

·         Geti af eigin rammleik aflað upplýsinga á margvíslegan hátt, t.d. notað bókasöfn, ýmis uppfletti­rit og tölvunet..

·         Geti beitt þekkingu sinni á ný viðfangsefni.

·         Geti veitt og þegið uppbyggilega gagnrýni og rökstutt hugmyndir sínar.

5.      Nemendur hafi tamið sér góða framkomu. Það felur í sér að nemendur:

·         Beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðru fólki, óháð skoðunum þess, trú og útliti.

·          Virði umhverfi sitt.

·         Temji sér skilvísi, stundvísi og almenna kurteisi.

6.      Nemendur hafi trú á hæfileikum sínum og geri sér ljóst að þeir bera sjálfir ábyrgð á námi sínu.

Réttindi að námi loknu

Stúdentspróf veitir rétt til inngöngu í háskóla og skóla á háskólastigi eftir nánari ákvæðum hvers skóla. Menntaskóli veitir góða almenna menntun sem telst ágætur undir­búningur að ýmsum störfum. Stúdentspróf úr mennta­skóla veitir hins vegar engin lög­vernduð starfsréttindi.

 


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 14.04.2016