Forsíða > Námið > Námsgreinar > Saga > Prentvænt

Menningarsaga í 3.M (h)

MEN 2M3

Menningarsaga (listasaga) í 3. bekk, málabraut, hugvísindakjörsviði

(Námsþátturinn á sér ekki beina samsvörun í Aðalnámskrá)

   Námslýsing

Fjallað er um listsköpun mannkyns frá upphafi fram á okkar daga. Einkum  er lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

Forsöguleg list.Um elstu minjar sem nú teljast með listaverkum, um nytjagildi og listgildi. Um líkleg tengsl listar og trúarbragða. Um hellamyndir og  listsköpun í hefðbundnum samfélögum á síðustu öldum.

Forn menningarríki við austanvert Miðjarðarhaf. Sérstök áhersla á mál­verk, höggmyndir og byggingar Egypta. Fjallað um trúarhugmyndir þeirra, sér­stak­lega framhaldslífið og hvernig trúin endurspeglast í listrænum minjum. Um reglur sem stýrðu listrænu handbragði Egypta og um sér­stöðu egypskrar listar ef hún er borin saman við hin svæðin þrjú, þ.e. Súmer, Krít og Mýkenu.

Grikkland hið forna og Rómaveldi. Um upphaf grískrar listsköpunar og rætur hennar. Tímabilaskipting list­rænna minja. Stíltegundir í leirkeragerð, höggmyndum og byggingum. Um gullöldina og áhrif grískrar listar á tímum hellenismans. Um mikilvægi goðsagna og Hómerskviða. Hvernig Rómverjar nýta sér gríska arfinn og stuðla að útbreiðslu hans.

Þrjú menningarsvæði við Miðjarðarhaf.Grísk-kaþólskt svæði, rómversk-ka­þólskt svæði og lönd múslima. Um klofning rómversku menningar­heildarinnar í þrennt í pólitískum og menningarlegum efnum. Áhrif klofn­ingsins á listrænu sviði og áhrif páfans sem samræmingarafls í listsköpun.

Kristin list á miðöldum í Vestur-Evrópu. Um listsköpun í Vestur- og Norð­ur-Evrópu og samruna ólíkra menningarþátta á þjóðflutningatímanum. Hlut­verk listar í kirkjulegu starfi. Rómanskur og gotneskur stíll í bygg­ingarlist, höggmyndum og málverki. Um alþjóðlegan gotneskan stíl.

Þáttaskil í vændum. Rædd fullyrðingin: „Endurreisnin hófst í bókmenntum og náði síðar til sjón­lista“. (Denys Hay)

Endurreisnarstefnan.Fjallað um þjóðfélagslegar forsendur endurreisnar, nýmæli í listum, einkenni og útbreiðslu. Um mun á frum­endur­reisn, há­endur­reisn og maníerisma (síðendurreisn). Um breyt­ingar á þjóðfélagsstöðu listamanna á endurreisnartímanum.

Barokkstefnan. Um einkenni og útbreiðslu stefnunnar í bygg­ingarlist, málaralist og högg­mynda­list. Fjallað um hana sem „leiktjöld ein­veldisins“. Um áhrif siðskipta og gagnsiðbótar á listir og lista­menn samtímans. Um rókokkóstíl sem franskt afbrigði barokkstíls.

List og listsköpun um 1800. Fjallað um áhrif frönsku byltingarinnar á listir sam­tímans. Rætt m.a. um gotneska endur­vakningu. Um rómantísku stefnuna sem andsvar gegn skyn­semisdýrkun upplýsingaraldar með áherslu á þjóðleg einkenni.

Listbylting á 19. öld. Um áhrif iðnbyltingarinnar á listir samtímans. Um raunsæisstefnuna og áhrif hennar á myndlist. Um forrafaelíta,  upphaf módernismans, áhrif ljósmynda­tækn­innar á myndlist og breytingar á stöðu listamanna í samfélaginu.

Módernismi um 1900. Um einkenni og nýmæli helstu listastefnanna og tekin dæmi um impressionisma, expressionisma, dadaisma, fútúrisma, súrreal­isma, kúbisma, Bauhaus, upphaf abstraktlistar o.fl.

Módernismi á 20. öld. Einkenni og útbreiðsla helstu listastefna á síðari hluta aldarinnar, s.s. abstraktlistar, funkisstefnu, konkretlistar, naumhyggju, popp­listar, skjálistar, post-mód­ernisma. Skoðuð verk helstu fulltrúa þessara stefna.

Áherslur á einstaka þætti geta verið breytilegar frá ári til árs eftir hvaða þættir eru teknir til umfjöllunnar í sögu 303 hverju sinni.

   Markmið

Nemendur

-    kynnist í stórum dráttum þróun lista frá forn­öld til okkar daga

-    þekki helstu listastefnur sem fram hafa komið

-    kynnist höfuð­atriðum ákveðinna tímabila og hvernig listir tímabilsins tengjast þjóðfélagsháttum og hug­myndheimi

-    geti fjallað af þekkingu um sjón­listir, þ.e. höggmyndlist, málaralist, svart­list og byggingarlist

-    sæki heim sýningar og söfn m.a. til að kynnast listum líðandi stundar

   Kennsluaðferðir

Fyrirlestrar kennara, myndgreining og umfjöllun um einstök listaverk, verkefnavinna nemenda, m.a. myndgreiningar, umsagnir um sýningar og einstök verk, ritgerðir, einstaklings­verk­efni og hópverkefni.

   Námsmat

Annareinkunnir byggjast á prófi í lok anna ásamt vinnueinkunn fyrir verkefni og aðra þætti námsins á hvorri önn. Prófað verður úr völdum þáttum námsefnisins á yfirlitsprófi í menningarsögu í lok 4. bekkjar skv. nánari ákvörðun hverju sinni.


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 18.01.2005