Forsíða > Námið > Námsgreinar > Saga > Prentvænt

Saga í 2.M

SAG 1M6

Saga í 2. bekk, málabraut

(Samsvarar SAG 103 og SAG 303 í Aðalnámskrá)

   Námslýsing

Viðfangsefni áfangans er tvíþætt: (A) Saga mannkyns frá upphafi vega og fram um 1800 og saga Íslands frá landnámi til sama tíma. (B) Menningarsaga. Efnisflokkar úr báðum áföngum verða samþættir á hverjum tímabili um sig eftir því sem henta þykir og við á hverju sinni.

(A) Helstu efnisflokkar eru:

Fornöld í nútímanum. Dregnir fram þeir þættir úr arfi fornaldar, sem sett hafa mark sitt á síðari tíma.

Menningarheimar á miðöldum. Lögð áhersla á að bera saman kristindóm og íslam, tengsl þeirra og árekstra í tímans rás. Fjallað um íslenskt miðaldasamfélag í samanburði við önnur samfélög í Evrópu.

Ný heimsmynd. Einkum gefinn gaumur að viðhorfsbreytingum í andlegum efnum, eins og þær birtast í endurreisnar- og siðskiptahreyfingunum, og að landkönnun og landafundum Evrópuþjóða og þróun náttúruvísinda.

Ríki og þegnar. Fjallað um þróun ríkisvalds og stjórnarfars í Evrópu á öndverðri nýöld og um sambúð ríkja í álfunni. Staða Íslands í þessu samhengi er athuguð sérstaklega.

Upplýsingin. Leitast við að greina grunnhugmyndir helstu frömuða upplýsingarinnar, einkum um stjórnmál, uppeldi og fræðslu og áhrif þeirra. Hugað að aðgerðum í anda upplýsingarinnar hér á landi.

(B) Í menningarsögu eru valin 3-4 tímabil og svið til fjölþættrar menningarlegrar könnunar. Lögð er áhersla á verkefnavinnu þar sem viðfangsefnin eru krufið í ljósi margra þátta menningar. Nemendur kynnast frumtextum, samtímamyndefni og fræðilegri og skáldlegri umfjöllun um efnið. Tveir þættir eru fastir á dagskrá: 1) Grísk klassík með áherslu á þann menningararf sem lifir í nútímanum og 2) Endurreisnin á Ítalíu með skírskotun til þess samfélags, sem skóp svo glæsilegan menningararf.

Af fjórum eftirtöldum þáttum verða síðan 1-2 valdir að auki til umfjöllunar hverju sinni: 1) Evrópsk menning á öndverðri nýöld (1500-1750) með sérstakri áherslu á barokk- og rokokkotímann, 2) Rómantíkin og snertifletir hennar við bókmenntir, listir, stjórnmál og lífsviðhorf. Jafnframt verður hugað að raunsæisstefnu 19. aldar til samanburðar, 3) Aldamótin 1900 og straumar og stefnur í andlegu lífi, bókmenntum og listum við þau tímamót. Hugað að aldamótunum 2000 til samanburðar, 4) Nútímalist og tíðarandi. Hér verður hugað að þeim stefnum og straumum, sem mótað hafa menningu og listir á undangengnum áratugum og ráða mestu um menningu samtímans.

Markmið menningarsöguþáttarins

Nemendur

-          hafi lesið forngríska texta í íslenskri þýðingu og greint viðfangsefni þeirra

-          þekki ýmsa þætti í grískri goðafræði, grískri heimspeki og stjórnarfari og félagsgerð Forngrikkja

-          þekki áhrif grískrar menningar á seinni tíma, t.d. á hugsun, þekkingarleit og fegurðarskyn

-          geti metið hvaða nýsköpun átti sér stað á endurreisnartímabilinu

-          hafi lesið og kannað valda bókmenntatexta, t.d. Dante, Macchiavelli og Boccaccio

-          þekki hugmyndir einstaklingshyggju og fornmenntastefnu

-          þekki nokkra þætti í þjóðskipulagi og félagsgerð borga og héraða á Ítalíu endurreisnarinnar

-          geti fjallað um útbreiðslu og áhrif endurreisnarhreyfingarinnar 

-          kynni sér ævi og verk valinna höfunda og hugsuða, t.d. Williams Shakespeares

-          kynnist listrænum áherslum einveldistímans eins og þær birtast í málaralist, höggmyndalist og byggingarlist, t.d. í Versölum

-          geti greint rómantíkina sem tímaskeið, listastefnu og hugmyndahreyfingu í Evrópu

-          þekki upphaf hrollvekju sem bókmenntagreinar á rómantíska tímabilinu

-          þekki valda rómantíska höfunda og bókmenntatexta, erlenda og íslenska

-          séu meðvitaðir um tengsl rómantíkur við hugmynda- og stjórnmálastefnur, einkum þjóðernishyggju

-          þekki helstu einkenni raunsæisstefnunnar í bókmenntum og listum 

-          kynni sér hugmyndir um sameiginleg einkenni í listsköpun, vísindum, heimspeki og hugarfari um aldamótin (1800??) („fin de siècle“)

-          þekki bókmenntaverk og bókmenntatexta frá tímabilinu, t.d. eftir Oscar Wilde

-          verði handgengnir lýsingum á Vínarborg á tímabilinu (Freud, Zweig)

-          átti sig á því andrúmslofti sem birtist í skrifum íslenskra blaða

-          kanni einhverjar listastefnur síðustu ára eða áratuga

-          geti lagt mat á þann samfélagslega, hugmyndalega og fagurfræðilega jarðveg sem stefnurnar eru sprottnar úr og áhrif  þeirra í nútímanum

-          þekki nokkra einstaklinga sem voru í fararbroddi viðkomandi stefna

   Kennsluaðferðir

Í fyrirlestrum draga kennarar upp meginþróunarlínur og setja einstök atriði í stærra samhengi. Nemendur vinna að einstaklings- og hópverkefnum. Myndefni af ýmsu tagi verður nýtt eftir því sem föng eru á. Nemendur þjálfast í rökræðum um söguleg viðfangsefni í umræðutímum og fyrirlestrum.

   Námsmat

Annareinkunnir byggjast á prófi í lok anna ásamt vinnueinkunn fyrir verkefni og aðra þætti námsins á hvorri önn.


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 27.01.2011