Landafræði
LAN 1F3
Almenn landafræði í 1. bekk, félagsfræðabraut
(Samsvarar LAN 103 í Aðalnámskrá)
Námslýsing
Fjallað er um landafræði sem fræðigrein, notagildi hennar og tengsl við aðrar fræðigreinar. Kortalestur, kortagerð og túlkun loftljósmynda er stór þáttur í náminu. Fjallað er um landnýtingu, breytingar á notkun lands og afleiðingar þess. Skilgreint er hvað felst í skipulagi lands og á hvaða stoðum slíkt skipulag hvílir. Gerð er grein fyrir undirstöðum efnahagslífs, nýtingu auðlinda og tengslum þessara þátta. Kynnt eru hugtök lýðfræðinnar, vandamál er tengjast fólksfjölgun og breytingum á búsetumynstri og loks orsakir og afleiðingar fólksflutninga. Áhersla er lögð á að nemendur vinni nokkur sérhæfð en fjölbreytt verkefni sem krefjast upplýsingaöflunar úr fjölbreyttum heimildum.
Markmið
Nemendur
- þekki tvískiptingu fræðigreinarinnar og læri að beita vinnuaðferðum hennar við öflun upplýsinga og framsetningu
- þekki mismunandi tegundir korta og kortvarpana, m.a. kosti þeirra og galla og þjálfist í notkun þeirra
- kynnist undirstöðuatriðum fjarkönnunar
- þjálfist í að reikna út mælikvarða og að nota bauganet jarðar
- þekki helstu hugtök í landnýtingu og skipulagi, hvernig þessum málum er háttað á Íslandi, lagarammann og hvað framtíðin getur borið í skauti sér
- geri sér grein fyrir á hvaða auðlindum efnahagslíf landsins byggist og hvernig það tengist íslensku búsetumynstri
- þekki til umræðunnar um nýtingu náttúruauðlinda þar sem iðnaður og ferðaþjónusta takast á
- þekki dreifingu, samsetningu, þróun og hreyfingu fólksfjölda og mikilvæg vandamál tengd búsetuþróun
- geti skilgreint og notað helstu hugtök og kenningar lýðfræðinnar og notað tölfræðileg gögn í því samhengi
- hafi skilning á tengslum milli fólksfjölda og landnýtingar og vandamálum í sambandi við auðlindaþurrð, mengun og eyðileggingu vistkerfa
Kennsluaðferðir
Helstu hugtök og kenningar eru kynnt í fyrirlestrarformi, með aðstoð myndbanda, skyggna, Internetsins, dagblaða o.fl. Nemendur vinna að styttri og lengri verkefnum, t.d. tengd kortagerð, gerð mannfjöldapýramída, dreifingu fólks á Íslandi, byggðaþróun o.s.frv. Í stærri verkefnunum er gert ráð fyrir að nemendur tvinni saman þætti námsins til að fjalla um málefni sem eru til umfjöllunar í samfélaginu á hverjum. Próf eru haldin reglulega úr afmörkuðu efni hverju sinni.
Námsmat
Skriflegt stúdentspróf er haldið í annarlok. Námseinkunn byggist á verkefnum, skyndiprófum og ástundun á kennslutímanum.
|