Forsíða > Námið > Námsgreinar > Félagsfræði > Prentvænt

Félagsfræði í 4.F (f)

FÉL 5F6

Félagsfræði í 4. bekk, félagsfræðabraut, félagsfræðikjörsviði

Nemendur í MS velja milli þess að taka Alþjóðastjórnmál og félagsfræði þróunarlanda eða félagssálfræði og heilsufélagsfræði í félagsfræði. 

FÉL 5F6

Félagsfræði í 4. bekk, félagsfræðabraut, félagsfræðikjörsviði

(Samsvarar FÉL 313 í Aðalnámskrá; námsþáttur í alþjóðastjórnmálum aðeins í námskrá MS, en er framhald af FÉL 303 í Aðalnámskrá)

Námslýsing                                                                                                            

Félagsfræði þróunarlanda: Nemendur kynnast mismunandi hugmyndum um skiptingu heimsins, einkum skiptingu hans í þróuð lönd og vanþróuð. Þeir læra um mismunandi hugmyndir að baki þeim hugtökum sem eru notuð yfir þróunarlönd, svo sem vanþróuð lönd, þriðji heimurinn og Suðrið. Þeir læra um ólíka merkingu þróunarhugtaksins. Nemendur gera sér grein fyrir efnahagslegum, stjórnmálalegum og menningarlegum einkennum þróunarlanda. Þeir kynnast ólíkum kenningum um orsakir fátæktar á suðurhveli og hugmyndum um þróunarmöguleika samfélaga í þriðja heiminum. Fjallað um ólíkar tegundir þróunarsamvinnu og sérstaklega um þróunarsamvinnu Íslendinga.

Alþjóðastjórnmál: Í þessum námsþætti er fjallað um alþjóðastjórnmál. Áhersla er lögð á að nemandinn öðlist skilning á hugtakanotkun. Alþjóðastjórnmál skoðuð í ljósi kenninga m.a. um valdið í alþjóðakerfinu. Fjallað um Ísland á alþjóðavettvangi, utanríkisstefnu Íslendinga, austur-vestur átök, suður-norður átök, ríkjabandalög og Sameinuðu þjóðirnar. Styrjaldir og hnattvæðingu. Þá er Evrópusamvinnu gefinn sérstakur gaumur.

Markmið

Nemendur

-          geti skilgreint lykilhugtök í sambandi við þróunarlönd

-          lýsi efnahagslegum, stjórnmálalegum og menningarlegum einkennum þróunarlanda

-          geti útskýrt kenningar um þróunaraðstoð

-          geti útskýrt hugmyndir um orsakir fátæktar í löndum í suðri

-          kunni skil á þróunaraðstoð

-          geti myndað sér skoðun á vandamálum í vanþróuðum ríkjum

-          þekki helstu alþjóðastofnanir og starfsemi þeirra

-          kynnist evrópskri samvinnu og þróun hennar

-          þekki forsendur og grundvöll íslenskrar utanríkisstefnu

-          skilji forsendur bandalagamyndunar

-          þekki breytingar á valdahlutföllum í heiminum

-          geri sér grein fyrir áhrifum hnattvæðingar

Kennsluaðferðir                                                                     

Efnið er kynnt með fyrirlestrum, myndböndum, umræðum og verkefnavinnu nemenda. Ætlast er til að nemendur þekki Netið nægilega til að geta aflað sér upplýsinga um alþjóðleg málefni. Áhersla er lögð á hópvinnu og sjálfstæð og öguð vinnubrögð nemenda.

Námsmat

Stúdentspróf að vori, sem er yfirlitspróf í félagsfræði. Námseinkunn byggist á vinnu og ástundun nemandans allt skólaárið.

Fél 6F6

Félagssálfræði og heilsufélagsfræði í 4. bekk, félagsfræðabraut, félagsfræði-kjörsviði

(Námsþátturinn er aðeins í námskrá MS)

Námslýsing

Félagssálfræði kynnt sem fræðigrein. Félagssálfræði fjallar fyrst og fremst um samskipti, þ.e. um atferli, hugsanir og viðhorf í félagslegu samhengi. Farið er meðal annars yfir eftirfarandi námsþætti: viðhorf, fordóma, persónuleika og staðalmyndir, hlýðni, hjálpsemi, múgsefjun, yrt og óyrt samskipti. Áhersla lögð á virkni nemenda, t.d. að þeir reyni tiltekna þætti á eigin skinni með tilraunum og könnunum, s.s. æfi samskipti, einnig greiningu og beitingu líkamstjáningar. Eftir atvikum er farið dýpra í valda efnisþætti eða bætt við nýjum, s.s. auglýsinga- og táknfræði, vinnusálfræði, skoðaðar persónuleikakenningar, greind eða áróður í fjölmiðlum.

 

Heilsufélagsfræði fjallar um heilbrigðiskerfið og læknavísindin út frá félagsfræðilegu sjónarhorni. Nemendur fá að kynnast félagsfræði heilsu og samfélags.  Skoðað er t.d. áhrif kyns, aldurs, kynþáttar og kynhegðunar varðandi heilsu, auk áhrif lífstíls, hreyfingar og mataræðis. Félagsfræðilegt sjónarhorn og kenningar eru skoðaðar um heilbrigðismál Við kynnum okkur fagvitun og viðhorfs til heilsu og heilbrigðismála.  Kynnum okkur umræðuna um velferðarkerfið, s.s. hvað er velferðarríki, hvernig er íslenskt velferðarríki í samanburði við önnur velferðarríki. Nýjar rannsóknir verða kynntar, bæði íslenskar og erlendar. Einstaka þættir heilsuhugtaksins verða skoðaðir og saga heilsugæslu skoðuð.  

 

Markmið

Nemendur

-          þekki rannsóknir á fordómum og tilraunum til að breyta þeim

-          viti hvaða þættir skipta máli varðandi það við hverja manni líkar og hverja ekki

-          þekki áhrif hópa, t.d. hópþrýsting og höfnun hópsins

-          þekki rannsóknir á hlýðni manna við hversdagslegar og óvenjulegar aðstæður og viti hvaða þættir hafa áhrif á hana

-          séu líklegri til að hjálpa náunga í neyð eftir að hafa kynnt sér hvernig afskiptaleysi náungans er venjulega háttað

-          viti hvaða viðhorf eru, hvort þau eru í samræmi við hegðun, hvernig hægt er að hafa áhrif á viðhorf og mæla þau

-          verði meðvitaðri um ýmsar leiðir til samskipta og tjáningar, yrtar og óyrtar, og geti túlkað afstöðu annarra, ekki aðeins af orðum þeirra heldur einnig af líkamsstöðu og öðrum þáttum

-          öðlist innsýn í áhrif samskipta á atriði eins og vinnuanda og starfsánægju

-          þekki ólíkar skilgreiningar á persónuleika

-          geri sér grein fyrir ólíkum kenningum um persónuleika og hugmyndum um mótun hans

-          geti skoðað heilsufesti út frá samvirkni-, átaka- og samskiptakenningum

-          geri sér grein fyrir áhrifum félagslegra þátta á sjúkdóma

-          þekki faraldsfræðilegar rannsóknir á heilsu og sjúkdómum

Kennsluaðferðir

Kennslan byggist á fyrirlestrum, vettvangsferðum, umræðum og hóp- og einstaklingsverkefnum nemenda.

Námsmat

Stúdentspróf er þreytt að vori, sem er yfirlitspróf í félagsfræði. Námseinkunn byggist á vinnu og ástundun nemandans allt skólaárið.


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 14.03.2007