Líffræði 4.N(u)
LÍF 2U6
Líffræði í 4. bekk, náttúrufræðibraut, umhverfiskjörsviði
(Samsvarar LÍF 103 og LÍF 113 í Aðalnámskrá)
Námslýsing
Undirstaða í vistfræði rifjuð upp og ýmsu bætt við. Einkum fjallað um aðferðarfræði vistfræði innan hinna ýmsu sérgreina, kynntar mæliaðferðir bæði í dýra- og grasafræði og hvernig staðið er að greiningu (flokkun) lífvera. Lítillega rætt um tölfræði innan líffræði og gerð reiknilíkana fyrir til dæmis kjörveiði. Gerð grein fyrir gróðurbeltaskiptingu jarðar, í hverju rannsóknir á þeim felast og hver áhrif mannsins hafa verið á einstök gróðurbelti. Tekin fyrir valin verkefni um fjölbreytni lífvera í ólíkum heimshlutum og vistkerfum.
Fjallað er um líkamsstarfsemi dýra og plantna: Fæðunám, meltingu, öndun, efnaflutning, úrgangslosun, ónæmissvörun, boðaflutning, hreyfingu, æxlun, fósturþroskun, stjórn efnaskipta og samvægi. Hvert einstakt líffærakerfi er tekið fyrir og hliðstæð kerfi borin saman. Fjallað um heilbrigða starfsemi en einnig algengustu frávik.
Verklegar æfingar eru reglulegur hluti námsins. Hver verklegur tími er tvær kennslustundir. Dæmi um viðfangsefni eru dýravefir, skynjun, blóðskoðun, blóðþrýstingur, hjartakrufning, lungnarúmmál og öndunartíðni.
Markmið
Nemendur
- geri sér grein fyrir eðli og hlutverki vistfræðinnar sem vísindagreinar
- þekki gerð og starfsemi í vistkerfum og geti tengt einstök lífríki við ákveðin gróðurbelti
- skilji grunnhugmyndir í reiknilíkönum
- þekki lífshætti og gerð valinna lífvera með tilliti til búsvæða þeirra
- þekki fjölbreytni og tilurð hennar í lífríkinu
- þekki gerð og framvindu í vistkerfum á landi, í vatni og á sjó
- þekki helstu efnaflokka sem lífverur eru byggðar úr
- geti lýst myndun efna í ljóstillífun
- geti lýst hlutverki líffærakerfa í plöntum og dýrum
- geti lýst flokkun dýravefja, megineinkennum og hlutverki hverrar vefjagerðar
- geti lýst gerð og starfsemi helstu líffæra og líffærakerfa í spendýri
Námsmat
Á stúdentsprófi er prófað úr námsefni 3. og 4. bekkjar. Námseinkunn er gefin fyrir frammistöðu á haustannarprófi og í skyndiprófum, lausn verkefna, úrvinnslu á skýrslum og ástundun í kennslustundum.
|