Forsíða > Námið > Námsgreinar > Líffræði > Prentvænt

Lífefna- og líffræði 4.N(l)

LÍF 2N9

Lífefna- og líffræði í 4. bekk, náttúrufræðibraut, líffræðikjörsviði

(Samsvarar Efn 313 og Líf 103 í Aðalnámskrá)

   Námslýsing

Undirstaða í frumufræði rifjuð upp og ýmsu bætt við. Lesið er um lífefnin, meðal annars sykrur, lípíð, amínósýrur, prótín, ensím og kóensím. Fjallað um gerð þessara efna, hlutverk þeirra og nýtingu í lífverum. Farið er nákvæmlega í sundrunar- og nýmyndunarferli frumna og rætt um gerð og hlutverk DNA og RNA kjarnsýra í lífverum og um prótínmyndun í frumum.

Megináhersla er lögð á lífeðlisfræði spendýra (mannsins) seinni hluta námsársins, en einnig vikið að plöntum í nokkrum atriðum. Fjallað um flokkun dýravefja, gerð og megineinkenni hvers flokks, gerð og starf helstu líffærakerfa. Skoðuð meltingarfæri, melting, næringarefnaþörf og efnaskipti, öndunarfæri og öndun, blóðrásarkerfi, blóð og vessi, ónæmiskerfi og varnir líkamans, lifrin, nýrun, vökvastjórnun og úrgangslosun, taugakerfi, taugaboð og samhæfing líkamsstarfs, skynfæri og skynjun, kirtlar og hormón, æxlunarfæri og æxlun, kynlíf, getnaðarvarnir og kynsjúkdómar. Fjallað um heilbrigða starfsemi en einnig algengustu frávik.

Verklegar æfingar eru reglulegur hluti námsins. Hver verklegur tími er tvær kennslustundir. Dæmi um viðfangsefni eru litritun, sykrur, jafnhleðslusýrustig, ensímvirkni, osmósa og flæði, dýravefir, skynjun, blóðskoðun, blóðþrýstingur, hjartakrufning, lungnarúmmál og öndunartíðni.

   Markmið

Nemendur

-    þekki efnaflokka, sem lífverur eru byggðar úr, eiginleika þeirra, hlutverk og flokkun

-    geti lýst mikilvægi ensíma og hlutverkum þeirra í efnaskiptum

-    geti lýst sundrunarferlum frumna og megindráttum í öndunarkeðjunni og þekki hvar í frumum sundrunarferlin gerast

-    þekki orkubreytingar og orkubeislun í sundrunarferlum

-    þekki ljóstillífun og gerð grænukorna

-    geti lýst nýmyndun helstu efnaflokka

-    þekki gerð erfðaefnisins og nýmyndunarkerfi prótína í frumum

-    þekki dæmi um erfðir gerla og veirna, áhrif þeirra á aðrar lífverur og notkun örvera í erfðarannsóknum og erfðatækni

-    geti lýst hlutverki líffærakerfa í plöntum og dýrum

-    geti lýst flokkun dýravefja, megineinkennum og hlutverki hverrar vefjagerðar

-    geti lýst gerð og starfsemi helstu líffæra og líffærakerfa í spendýri

   Námsmat

Á stúdentsprófi er prófað úr námsefni 3. og 4. bekkjar. Námseinkunn er gefin fyrir frammistöðu á haustannarprófi og í skyndiprófum, lausn verkefna, úrvinnslu á skýrslum, færslubókum og ástundun í kennslustundum.


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 24.01.2007