A1 Sameiginleg áhersluatriði 2017-2018
1
Kjörsviðsverkefni í 4. bekk
Sameiginleg áhersluatriði
Skólaárið 2017 – 2018
Allir nemendur í 4. bekk velja sér 3 eininga kjörsviðsverkefni sem er lokaverkefni í einni af einkennisgreinum á kjörsviði þeirra. Markmið með verkefninu er að dýpka þekkingu og skilning nemenda í aðalgrein á kjörsviði, auka ábyrgð og sjálfstæði þeirra í námi og undirbúa þá enn betur undir ritgerðasmíð og skýrslugerð í námi á háskólastigi. Verkefnið verður unnið allt skólaárið og gert er ráð fyrir að vinna við það samsvari þremur kennslustundum á viku. Kennari metur bæði vinnuferlið og afurð verkefnisins.
Námslýsing:
Nemandinn vinnur verkefnið í einni af einkennisgreinum á sínu kjörsviði. Ýmist getur verið um einstaklings-, para- eða hópverkefni að ræða.
Kennari stýrir og veitir nemendum leiðsögn í öllu vinnuferlinu á reglulegum samráðsfundum, en nemendur stunda sjálfstætt nám og bera sjálfir ábyrgð á framgangi verksins. Samráðsfundir verða m.a. nýttir til að veita leiðsögn um heimildavinnu, nemendur geri grein fyrir framgangi verksins og halda hóp- og einstaklingsviðtöl vegna verkefnanna.
Hvað lengd varðar, gildir það viðmið, að meginmál ritgerðar eða rannsóknarskýrslu í einstaklingsverkefni sé að jafnaði ekki styttra en 6000-7000 orð, en para-, og hópverkefni ekki styttra en 8000-9000 orð. Þegar nemandi skilar verkefni í formi myndbands, veggspjalds, vefs, eða á annan hátt er gert ráð fyrir að í öllum tilvikum skili einstaklingur að lágmarki 2000-3000 orða rannsóknarskýrslu og hópur 4000-5000 orða skýrslu.
Ennfremur kynna allir nemendur kjörsviðsverkefni sitt fyrir samnemendum.
Nemendur velja verkefni úr verkefnabanka, sem kennarar bjóða upp á eða velja sjálfir verkefni í samráði við kennara.
Markmið:
Meginmarkmið námsins er að gera nemandann hæfari til að vinna sjálfstætt að rannsóknum og efla með honum frumkvæði, gagnrýna hugsun og ályktunarhæfni. Þá verður lögð mikil áhersla á, að nemendur komi niðurstöðum rannsóknar sinnar frá sér á vandaðan og viðurkenndan hátt og í einhverju því formi, sem geri þær aðgengilegar áhugamönnum um efnið.
Nemandi
- sýni sjálfstæði í vinnubrögðum við undirbúning, framkvæmd og úrvinnslu einfaldrar rannsóknar
- fylgi vísindalegu rannsóknarferli við einfalda rannsókn
- geri raunhæfa vinnuáætlun fyrir einfalda rannsókn
- afli sér fjölbreyttra heimilda, t.d. skráðra heimilda úr bókum, tímaritum,
blöðum og af Netinu eða frumheimilda, ef svo ber undir
- vinni og leggi mat á upplýsingar úr heimildum á sjálfstæðan og gagnrýnin hátt
- leggi mat á niðurstöður úr rannsóknum út frá heimildargildi og áreiðanleika gagna
- fjalli á gagnrýninn hátt um rannsóknarverkefnið
2
- beiti rannsóknaraðferð og innsæi viðkomandi fræðigreinar á rannsóknarverkefnið
- leggi fram rannsóknarniðurstöður sínar á viðeigandi hátt, t.d. í ritgerð, skýrslu, á veggspjöldum, í bæklingi eða með öðrum hætti þar sem gerð er grein fyrir undirbúningi, framkvæmd, úrvinnslu og niðurstöðum rannsóknarinnar
- fylgi viðurkenndum reglum við gerð og frágang rannsóknarskýrslu eða ritgerðar
Námsmat:
Kennari metur vinnuferlið við verkefnið út frá athugun á rannsóknarvinnu nemenda og dagbók/vinnuskrá, sem nemendur halda yfir vinnu sína og framvindu verksins. Einnig er mat lagt á allt samráð nemanda við kennara t.d. á fundum, á Námsnetinu, í tölvupósti og viðtölum. Einkunn fyrir vinnuferlið gildir 40% og þar af gildir dagbók/vinnuskrá 10% af lokaeinkunn.
Metin er afurð rannsóknarinnar í formi ritgerðar eða rannsóknarskýrslu auk afurðar ef afurð er í öðru formi en ritgerð t.d. vefsíða eða myndband. Einkunn fyrir afurð gildir 50%. Allir nemendur kynna kjörsviðsverkefni sitt fyrir samnemendum. Kynningin gildir 10%.
Mikilvægt er að nemendur velji efni strax í samráði við kennara sinn og geri samning um það í síðasta lagi miðvikudaginn 6. september 2017.
Fyrstu áfangaskil eru í síðasta lagi miðvikudaginn 11. október 2017. Þá á nemandinn að vera komin vel af stað með verkið og skila inn efnisgrind, dagbók/vinnuskrá, lista yfir heimildir og drögum að fyrsta hluta verksins. Krafa er gerð um fjölbreyttar og áreiðanlegar heimildir t.d. bækur, fræðigreinar, tímaritsgreinar, efni af netinu, myndefni.
Miðvikudaginn 22. nóvember 2017 á nemandinn að hafa lokið undirbúningi, uppbyggingu verksins og heimildaöflun og skila inn bróðurpartinum af meginmáli ásamt heimildaskrá. Um jólin verður gefin vinnueinkunn sem byggir á dagbók/vinnuskrá nemenda, þátttöku í sameiginlegum fundum hópsins og framgangi verksins.
Skiladagur lokauppkasts er miðvikudaginn 21. febrúar 2018.
Lokaafurð þ.e. endanlegu verkefni skal skilað í síðasta fimmtudaginn 22. mars 2018. Mjög mikilvægt er að virða skiladaga.
Vinnuframlag nemenda:
Brýnt er að allir nemendur átti sig á því frá upphafi að vinnsla verkefnis af þessu tagi útheimtir verulegt vinnuframlag. Það má best skýra með litlu reikningsdæmi: Þrjár kennslustundir á viku jafngilda tveimur klukkustundum. Ekki er of mikið í lagt, þótt sagt sé að lágmarksundirbúningur nemanda undir hverja kennslustund þurfi að vera 20 mínútur, sem jafngildir þá einni klukkustund á viku. Þá þarf að sinna hverri námsgrein á prófatíma á báðum önnum. Kennsluvikur eru 15 á hvorri önn eða 30 yfir skólaárið. Því má ætla, að á bak við kjörsviðsverkefni þurfi að standa a.m.k. 80-100 klukkustunda vinna, ef vel á að vera, en það jafngildir fullri vinnu í 2-2 ½ viku. Þessir tímar skulu koma fram í dagbók/vinnuskrá hvers nemanda.
Heimildavinna: Bókasafn og upplýsingamiðstöð MS veitir aðstoð við heimildaöflun og framsetningu heimildalista. Nemendur eru hvattir til að notfæra sér þjónustu þess og kynna sér einnig leiðbeiningarefni sem er á heimasíðu safnsins undir upplýsingalæsi.
|