Líffræði 3.N(e)
LÍF 1E6
Líffræði í 3. bekk, náttúrufræðibraut, eðlisfræðikjörsviði
(Samsvarar NÁT 103 og LÍF 103 í Aðalnámskrá)
Námslýsing
Teknir eru fyrir ýmsir grundvallarþættir lifandi náttúru, sameinkenni lífvera og ferli sem tengja lífverur hvers vistkerfis saman. Fjallað um byggingu frumna og starfsemi og efnisþættir þeirra skoðaðir út frá gerð og hlutverki. Um grundvallarþætti erfðafræði, um gerð og starfsemi vistkerfa með áherslu á efna- og orkuflutning, mikilvægi fjölbreytileikans innan þeirra og áhrif mannsins. Gerð grein fyrir flokkunarkerfi lífvera og helstu flokkum með áherslu á örverur, frumverur og sveppi. Fjallað um líkamsstarfsemi dýra og plantna: fæðunám, meltingu, öndun, efnaflutning, úrgangslosun, ónæmissvörun, boðaflutning, hreyfingu, æxlun, fósturþroskun, stjórn efnaskipta og samvægi. Hvert einstakt líffærakerfi er tekið fyrir og hliðstæð kerfi borin saman. Fjallað um heilbrigða starfsemi en einnig algengustu frávik.
Markmið
Nemendur
- geri sér grein fyrir eðli og hlutverki líffræðinnar sem vísindagreinar
- þekki vísindalega aðferð og læri að beita nokkrum rannsóknaraðferðum líffræðinnar
- þekki gerð og starfsemi frumna og helstu efnaflokka sem lífverur eru byggðar úr
- þekki meginatriði í erfðafræði
- þekki lífshætti og gerð gerla, sveppa og frumvera og geti í því sambandi lýst samskiptum þeirra við aðrar lífverur til góðs og ills
- þekki meginatriði í vistfræði
- geti lýst myndun efna í ljóstillífun og nýtingu þeirra til vaxtar og öndunar
- geti lýst hlutverki líffærakerfa í plöntum og dýrum og borið saman hliðstæð líffærakerfi í ólíkum lífverum
- geti lýst gerð og starfsemi meltingarfæra og þekki starfsemi lifrar
- þekki gerð og hlutverk öndunarfæra ólíkra lífveruhópa, geti lýst ferðum loftskiptaefna um líkama og borið saman loftháða öndun og gerjun
- þekki gerð og hlutverk flutningskerfa en í því felst að þekkja efnaflutning í plöntum og dýrum,
- þekki byggingu og starfsemi ónæmiskerfis
- geti lýst húð og fjölþættri starfsemi hennar
- geti lýst grundvallarþáttum samvægis, nefnt dæmi um þá og þekki í því sambandi
- hvernig lífverur losa úrgang, byggingu og starfsemi nýrna og temprun líkamshita
- þekki og geti borið saman byggingu og starf taugakerfis og innkirtlakerfis
- geti rakið orsakir sjúkdóma til breytinga á líkamsstarfseminni
- þekki og geti borið saman ólík stoðkerfi
- geti lýst myndun, þroskun og afdrifum kynfrumna og rakið fósturþroskun frá okfrumu til holfósturs
Námsmat
Stúdentspróf er að vori úr námsefni alls vetrarins. Námseinkunn er gefin fyrir haustannarpróf og frammistöðu í kennslustundum, skyndipróf, verkefni og skýrslur úr verklegum æfingum á öllum kennslutímanum.
|