Félagsfræði í 4.G Hagfræðibekkur
FÉL 2H3
Félagsfræði í 4. bekk, félagsfræðabraut, hagfræðikjörsviði
(Samsvarar FÉL 203 í Aðalnámskrá.)
Námslýsing
Megináhersla er lögð á að nemendur öðlist dýpri skilning á félagsfræðilegum hugtökum og kenningum og geti beitt þeim við túlkun og greiningu á samfélaginu, bæði almennt og á tiltekin viðfangsefni. Kynnt eru sjónarhorn og aðferðir félagsfræðinnar og farið yfir hugmyndir frumkvöðla félagsfræðinnar. Kynntar helstu kenningar félagsfræðinnar, m.a. samvirkni-, átaka-, og samskiptakenningar. Samfélagið skoðað í ljósi mismunandi kenninga, svo og nokkrar þekktar rannsóknir innan félagsfræðinnar. Útskýrðar kenningar um táknræn samskipti, m.a. um samskipti án orða og þróun sjálfsins í samspili við umhverfið. Afmörkuð viðfangsefni, t.d. frávik og afbrot, félagsleg lagskipting, fjölmiðlar og kynhlutverk, skoðuð út frá hugtökum og kenningum félagsfræðinnar.
Markmið
Nemendur
- geri sér grein fyrir félagsfræðilegu innsæi og verði færir um að beita því á samfélagsleg málefni
- beiti öguðum vinnubrögðum, beri ábyrgð á eigin námi og geti unnið í samvinnu við aðra
- geti tekið þátt í umræðum um samfélagsleg málefni og myndað sér skoðanir sem byggjast á gagnrýninni hugsun
- þekki til helstu frumkvöðla félagsfræðinnar og geti lýst framlagi þeirra til greinarinnar
- þekki og geti beitt félagsfræðikenningum til að skoða samfélagsleg málefni
- geti útskýrt táknræn samskipti og þekki kenningar um sjálfsmyndina
- geri sér grein fyrir og beiti kenningum um frávik
- þekki helstu tegundir afbrota og geti gert grein fyrir viðbrögðum samfélagsins gagnvart afbrotamönnum
- þekki og geti beitt helstu hugtökum sem tengjast félagslegri lagskiptingu, svo sem stétt, stöðu og félagslegum hreyfanleika
- geri sér grein fyrir helstu kenningum um lagskiptingu og beiti þeim á ólík samfélög
- geti skilgreint hugtakið fátækt og fjallað um fátækt á Íslandi
- geti fjallað um ólíka boðskiptahætti, allt frá munnlegum boðskiptum til Netsins
- geri sér grein fyrir kenningum um fjölmiðla og áhrif þeirra og hlutverk í samfélaginu
- geti gert grein fyrir og lagt mat á kenningar um kynhlutverk
- geti útskýrt hvernig kynhlutverk lærast í gegnum félagsmótun.
Kennsluaðferðir
Kennslan byggist á fyrirlestrum og einstaklings- og hópverkefnum nemenda. Áhersla er lögð á frumkvæði, sjálfstæði og þátttöku nemenda í kennslustundum og á fagleg og öguð vinnubrögð. Ætlast er til að nemendur nýti sér veraldarvefinn við upplýsingaöflun.
Námsmat
Skriflegt stúdentspróf er að vori úr öllu námsefninu. Námseinkunn er gefin fyrir skyndipróf, verkefni og aðra ástundun á kennslutímanum.
|