Forsíða > Námið > Námsgreinar > Líffræði > Prentvænt

Líffræði 3.N(l,u)

LÍF 1N6

Líffræði í 3. bekk, náttúrufræðibraut, líffræði- og umhverfiskjörsviði

(Samsvarar NÁT 103 og að hluta LÍF 113 og LÍF 203 í Aðalnámskrá)

   Námslýsing

Teknir eru fyrir ýmsir grundvallarþættir lifandi náttúru, sameinkenni lífvera og ferli sem tengja lífverur hvers vistkerfis saman. Fjallað er um byggingu frumna og starfsemi; efnisþættir þeirra skoðaðir út frá gerð og hlutverki. Þá er gerð grein fyrir flokkunarkerfi lífvera og fjallað um helstu flokka þeirra, þ.e. gerla, þörunga, frumdýr, sveppi, vefplöntur og vefdýr. Fjallað um innri gerð plantna og mismunandi hlutverk vefjagerða. Vefjasýni úr plöntum skoðuð og teiknuð. Um lykilatriði í erfðafræði, lögmál Mendels, kyntengdar erfðir, litninga og gen, myndun kynfrumna og frjóvgun. Um erfðamynstur lífvera og hvað ræður kynferði þeirra. Litningar eru teknir nánar til umfjöllunar. Breytingum á erfðaefni, stökkbreytingum og litningabreytingum er lýst ásamt sérkennum í erfðum örvera. Fjallað um helstu aðferðir sem beitt er í erfðarannsóknum og erfðatækni. Vistfræði tekin fyrir sem fræðigrein, meginhugtök hennar og viðfangsefni. Um gerð vistkerfa, orkuflæði, fæðukeðjur og efnahringrásir, framvindu líffélaga, stofnvöxt og áhrif þéttleikaháðra og þéttleikaóháðra umhverfisþátta á hann. Skoðuð tengsl vistfræði við skyldar greinar og notagildi fyrir umhverfismál og auðlindanýtingu og helstu mælingaaðferðir kynntar.

   Markmið

Nemendur

-    geri sér grein fyrir eðli og hlutverki líffræðinnar sem fræðigreinar

-    þekki vísindalega aðferð og þjálfist í að beita nokkrum rannsóknaraðferðum líffræðinnar

-    þekki gerð og starfsemi frumna og þekki mun á kjarnafrumum og dreifkjörnungum

-    þekki feril frumuskiptinga og mun á mítósu og meiósu

-    þekki þrjú meginform lífsferla meðal lífvera þ.e. einlitna, tvílitna og tvíeinlitna lífsferla

-    þekki flokkunarkerfi lífvera og tvínafnakerfið, skiptingu í ríki og megineinkenni hvers ríkis

-    þekki flokkun, lífshætti og gerð gerla, sveppa og frumvera og samskipti þeirra við aðrar lífverur til góðs og ills

-    þekki gerð vefdýra og flokkun þeirra í yfirfylkingar, auk flokkunar hryggleysingja í fylkingar og flokka

-    þekki byggingu plantna, gerðir og hlutverk vefja og kynnist þannig sérhæfingu frumna til ákveðinna hlutverka í fjölfrumungum

-    þjálfist í notkun smásjár sem rannsóknartækis og í framsetningu niðurstaðna úr líffræðilegum athugunum

-    þekki lykilhugtök erfðafræðinnar, lögmál Mendels, kyntengdar erfðir, atviksbundna og arfbundna ákvörðun kynferðis, tengdar og ótengdar erfðir gena og kortlagningu gena út frá víxlunartíðni milli þeirra

-    þekki helstu breytingar sem verða á erfðaefninu, orsakir þeirra og afleiðingar og tengsl milli erfða og þróunar

-    þekki dæmi um nýtingu erfðafræði og erfðatækni í daglegu lífi, í landbúnaði og í læknavísindum

-    þekki viðfangsefni og meginhugtök vistfræðinnar, geti lýst orkunámi vistkerfis, fæðukeðjum, flæðiorku og nýtingu hennar, hringrásum vatns, kolefnis, súrefnis, niturs og fosfórs

-    þekki stofnvöxt samkvæmt J- og S-kúrfum, stofnsveiflur og áhrif þéttleikaháðra og þéttleikaóháðra umhverfisþátta á viðgang stofna, mismunandi stofnstærðarmælingar, framvindu í líffélögum og orsakir hennar

-    þekki tengsl vistfræði við skyldar greinar og notagildi fyrir umhverfismál og auðlindanýtingu

   Námsmat

Annareinkunnir byggjast á prófum í annalok, vinnueinkunn fyrir frammistöðu í kennslustundum, skyndiprófum og skilum á verkefnum og færslubókum úr verklegum tímum.


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.09.2004