Jarðfræði 1.N
JAR 1N6
Jarðfræði í 1. bekk,
náttúrufræðibraut
(Samsvarar NÁT 113 og JAR 103 í Aðalnámskrá)
Námslýsing
Nemendur kynnast jarðfræði sem vísindagrein, hugsunarhætti hennar og
aðferðum. Fjallað er um almenna jarðfræði og sérstaklega jarðfræði
Íslands. Um eldvirkni, storkuberg, eldgos, eldstöðvar, hraun og gjósku,
innskot, jarðhita og jarðskjálfta. Ennfremur um grunnvatn, vatnsföll,
ströndina og hafsbotninn, jökla, stöðuvötn, frost og þíðu, jarðveg og
jarðvegseyðingu, vinda, landmótun þeirra, veðrun og setmyndun. Fjallað er
um innri gerð jarðar, flekaskrið og uppruna Íslands, gosbelti og
eldstöðvakerfi. Lýst er tilurð sólkerfisins, jarðarinnar og tunglsins. Farið er
yfir stutt ágrip af jarðsögu Íslands. Þá er fjallað um hagnýti jarðfræðinnar,
hagnýt jarðefni, erlend og íslensk. Ennfremur um orkugjafa, kol, olíu og
gas, vatnsorku og jarðvarma. Einnig um grunnatriði korta og sniða og vikið
er að snúningi jarðar og samspili jarðar, tungls og sólar.
Markmið
Nemendur
- kynnist jarðfræði og jarðvísindum sem vísindagreinum, grunnþekkingu þeirra, hagnýti, orðaforða og hugsunarhætti
- verði læsir á landslag Íslands og smærri jarðfræðifyrirbæri, skilji þau og geti útskýrt fyrir öðrum
- átti sig á landmótun, grunnvatni, vatnsföllum, ströndinni, jöklum, gróðurlendi, jarðvegseyðingu og frostverkunum
- þekki til eldvirkni, storkubergs, eldgosa, eldstöðva, hrauna og gjósku, innskota, jarðhita, jarðskjálfta og flekaskriðs
- átti sig á vatnsöflun, jarðvegsmyndun og hagnýtum jarðefnum, einkum á Íslandi
- hafi nokkra hugmynd um tengsl jarðfræði og mannvirkjagerðar
- þekki til orkuöflunar mannkyns og sérstaklega vatnsafls- og jarðvarmavirkjana Íslendinga
- kannist við helstu íslenskar steindir og storkubergstegundir
- þekki hugmyndir vísindanna um uppruna jarðar og jarðsögu Íslands
- séu sér meðvitaðir um jarðrask og mengun sem hlýst af umsvifum manna, kannist við umhverfismat og alþjóðlega samninga þar að lútandi
- þekki merkustu staði í jarðfræði Íslands og þekki nokkuð til berggrunns einstakra landssvæða.
Námsmat
Stúdentspróf er að vori úr námsefni beggja anna. Námseinkunn er gefin
fyrir skyndipróf, ritgerð, vinnubók og önnur verkefni og ástundun á báðum
önnum.
|