Tjarnarsjóðurinn er styrktarsjóður Menntaskólans við Sund
Tjarnarsjóðurinn var stofnaður þegar 1977 útskriftarárgangurinn úr MT hélt upp á 30 ára stúdentsafmælið. Stofnfundur var haldinn 11. ágúst 2008, fyrir lá skipulagsskrá sjóðsins og sótt var sérstaklega um skráningu og úthlutun kennitölu hjá ríkisskattstjóra.
Formlega heitir sjóðurinn; Tjarnarsjóðurinn, styrktarsjóður Menntaskólans við Sund
Tilgangur sjóðsins skv. 4. gr. í skipulagskrá er:
1. að stuðla að rannsóknum á sviði hugvísinda og raunvísinda, þ. m. t. í því skyni að efla tengsl á milli
atvinnulífs og æðri menntunar;
2. að hlúa að menningarstarfi og listiðkun innan skólans
Stjórnin hefur haldið reglulega fundi, einn til tvo á ári auk aðalfundar. Stjórn sjóðsins skipa Ottó Guðjónsson, formaður, Sigurður E. Ragnarsson, gjaldkeri, Birna Hilmarsdóttir, Gautur Þorsteinsson, Margrét Sigurðardóttir, Már Kristjánsson og Þórunn B. Jónsdóttir meðstjórnendur. Hjördís Þorgeirsdóttir, konrektor MS er ráðgjafi sjóðsstjórnar.
Fyrir liggja ársreikningar sjóðsins fyrir árin 2008, 2009, 2010 og 2011, 2012, 2013, 2014, 2015 sem endurskoðunarskrifstofan Deloitte, c/o Halldór Arason hefur farið yfir.
Gefi einhver afmælisárgangur styrk til Tjarnarsjóðsins fær sá árgangur fulltrúa í stjórn sjóðsins á því ári og tekur þátt í að ákveða hvaða verkefni MS hlýtur styrk það árið. Eftirfarandi eru upplýsingar um sjóðinn fyrir þá sem vilja leggja sjóðnum lið.
Kennitala: 520908-1100
Banki – HB – reikn: 701-15-630441
Sjóðurinn hefur árlega veitt 100 þúsund króna styrki og hafa eftirfarandi styrkir verið veittir:
2008
Styrk Tjarnarsjóðsins 2008 fékk samstarfsverkefni norrænna skóla í stærðfræði, eðlisfræði og tækni. Samstarfið var á milli Bruksgymnasiet í Svíþjóð, Normallicéum í Finnlandi og Menntaskólans við Sund. Þetta er valgrein fyrir nemendur sem standa sig vel á sviði raungreina. Markmiðið er að efla samstarf ungs fólks á Norðurlöndum, glæða áhuga ungs fólks á raungreinum og tengja fræðileg hugtök í stærðfræði og eðlisfræði við raunveruleg verkefni. Einnig er markmiðið að glæða áhuga stúkna á raungreinum og þess vegna er áhersla lögð á að hafa kynjahlutfallið jafnt í nemendahópnum. Kennarar og umsjónarmenn með verkefninu hafa verið Gísli Þór Sigurþórsson, Hafsteinn Óskarsson og Halldór Hannesson.
2009
Styrk Tjarnarsjóðsins 2009 fékk Kór MS. Þátttaka í kórnum er metin sem valgrein til allt að 6 eininga. Kórinn heldur árlega jólatónleika í Langholtskirkju og syngur við ýmis tækifæri í skólanum og við útskrift stúdenta. Stjórnandi kórsins er Björn Thorarensen. Styrkurinn var nýttur fyrir samstarfsverkni skólaárið 2009-2010 með Samkór Kópavogs, Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hápunktur samstarfsins voru tónleikar í Lindakirkju í apríl 2010 þar sem flutt var verkið Vopnaði Maðurinn: Friðarmessa (The Armed Man: A Mass for Peace) eftir Karl Jenkins.
2010
Styrk Tjarnarsjóðsins 2010 fékk alþjóðlegt samstarfsverkefni PERL sem lífsleiknikennarinn Sjöfn Guðmundsdóttir er þátttakandi í. PERL eru alþjóðleg samtök um menntun og rannsóknir á ábyrgu líferni. Markmiðið er að meta og hvetja til sjálfbærni í daglegu lífi og skapa ábyrga og sjálfbæra lífshætti. Sjöfn Guðmundsdóttir stýrir starfshópi sem vinnur að því að þróa kennsluefni og kennsluaðferðir um sjálfbæra lífshætti. Þrír bæklingar með kennsluefni hafa verið gefnir út og kynntir á námskeiðum fyrir kennara víðsvegar um Evrópu þ.e. Personal consumption and climate change, ´Images and objects´ Active methodology toolkit og Financial literacy, personal finance management.
2011
Styrk Tjarnarsjóðsins 2011 fékk Bókasafn MS til að kaupa rafrænar bækur. Tilgangurinn er að kynna þessa spennandi nýjung fyrir nemendum og munu þær nýtast sérstaklega vel nemendum með lestrarerfiðleika þar sem auðvelt er að breyta leturstærð og lit í bakgrunni á skjánum. Forstöðumaður bókasafns MS er Þórdís T. Þórarinsdóttir
2012
Styrk Tjarnarsjóðsins 2012 fékk Thalía, leiklistarfélag Skólafélags MS. Leiklist hefur verið veigamikill þáttur í skólalífinu allt frá stofnun skólans og þar hafa nemendur fundið sköpunarkrafti sínum útrás við margvísleg verkefni. Viðfangsefni Thalíu hafa verið fjölbreytt og metnaðarfull og sett sterkan svip á skólabraginn. Skólaárið 2012-2013 setti Thalía á svið söngleikinn Rocky Horror Picture Show undir leikstjórn Kára Viðarssonar.
2013
Styrk Tjarnarsjóðsins 2013 fékk hópur kennara sem vinnur að innleiðingu samvinnunáms (cooperative learning) í kennslu sinni. Samvinnunám í fjölbreyttum nemendahópi byggir á hugmyndafræði sem segja má að hnitist í orðunum: Allir geta eitthvað - enginn getur allt. Kennarar í MS, að frumkvæði Þóru Víkingsdóttur líffræðikennara, sátu á skólabekk 2012-2013 til að læra að beita aðferðum samvinnunáms í kennslu sinni og þjálfa sig í að nýta fjölbreytileika bekkjarhópsins til fulls og örva sérhvern nemanda til lærdóms. Tjarnarsjóðurinn veitir samvinnunámshópnum styrk fyrir ráðgjöf skólaárið 2013-2014.
2014
Styrk Tjarnarsjóðsins 2014 fékk skólinn til að útbúa lesskimunarpróf og leggja það fyrir nemendur í 1. bekk. Leitað verður eftir samvinnu við Námsmatsstofnun um leið til að mæla lestrarhæfni nemenda sem innritast í MS haustið 2014. Tilgangurinn er að finna leið til að greina þá nemendur sem eru verst staddir á þessu sviði til að geta veitt þeim sérstaka lestraraðstoð sem aftur gæti minnkað brotthvarf nemenda í MS. Einnig leitar skólinn leiða til að auka lestrarvilja og lestrarhæfni nemenda.
2015
Styrk Tjarnarsjóðsins 2015 fékk skólinn til að hafa sérstaka dagskrá á Jafnréttisdegi MS. Jafnréttisdagurinn er valinn í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan konur á Íslandi fengu kosningarétt. Jafnréttisdagurinn hefur verið haldinn þrjú ár í röð í MS. Fyrsta árið var myndin Fáðu já sýnd í öllum bekkjum og forsvarsmenn hennar héldu erindi á sal á undan sýningunni. Síðustu tvö árin hafa bekkir geta valið á milli ýmissa fræðsluerinda um jafnréttismál t.d. um karlmennslu, ofbeldi, feminisma og jafnrétti í lögreglunni. Jafnréttisdagurinn er haldinn í þeim tilgangi að efla jafnrétti kynjanna í MS og auka gagnkvæma virðingu í samskiptum kynjanna bæði í skólastofunni og í félagslífi nemenda.
2016
Styrk Tjarnarsjóðsins 2016 fékk Ritnefnd Skólafélags MS. Ritnefnd skólafélagsins stóð sig með mikilli prýði á skólaárinu 2015-2016 með útgáfu á veglegu blaði, ársriti skólafélagsins 2016, Steingerði. Blaðið er mikið að vöxtum, um 100 blaðsíður af mjög fjölbreyttu efni. Styrkurinn á að vera hvatning til ritnefndar Skólafélags MS að halda áfram á sömu braut og gera enn betur á næsta skólaári. Það er lærdómsríkt ferli að vinna við útgáfu blaðs. Ritnefnd verður að huga að lesendum við val á ritstíl og efni, höfundar efnis verða að sýna sköpunargáfu í orðfari og málflutningi sínum og skrif í blaðið þjálfa nemendur í að greina blæbrigði tungumálsins. Með útgáfu skólablaðs má því segja að ritnefndin styrki tök nemenda á íslenskri tungu.
2017
Styrk Tjarnarsjóðsins 2017 fékk Foreldraráðs Menntaskólans við Sund. Foreldraráð MS fær styrkinn til að fræða foreldra og forráðamenn nemenda á næsta skólaári um seiglu og þrautseigju nemenda í námi sínu. Markmiðið er að minnka brotthvarf nemenda úr námi og byggja upp námskraft nemenda. Anna Sigurðardóttir brotthvarfssérfræðingur stóð fyrir fræðslu í vetur fyrir forráðamenn um seiglu og þrautseigju nemenda og markmiðið er að gera foreldraráðinu kleift að halda áfram að efla þessa fræðslu.