Forsíða > Námið > Námsgreinar > Efnafræði > Prentvænt

Efnafræði 2. N(e)

EFN 2E4

Efnafræði í 2. bekk, náttúrufræðibraut, eðlisfræðikjörsviði

(Samsvarar EFN 203 og EFN 303 í Aðalnámskrá)

   Námslýsing

Fjallað er um samband hita, þrýstings og rúmmáls fyrir gastegundir. Ennfremur um helstu gerðir efnahvarfa og farið dýpra í magnbundna útreikninga. Fjallað er um ýmsa þætti tengda efnahvörfum, jafnvægishugtakið og um leysni salta. Þá er gerð grein fyrir oxunar-/afoxunarhvörfum og farið inn á svið rafefnafræðinnar. Þetta er tengt dæmum úr umhverfi nemenda og íslenskum aðstæðum, s.s. álframleiðslu og ryði. Fjallað nokkuð ítarlega um sýrur og basa og helstu þætti sýru-/basahvarfa. Skoðað hvernig eiginleikar efna og efnaflokka eru háðir staðsetningu þeirra í lotukerfinu. Rækileg umfjöllun um valin frumefni úr hópi málma og málmleysingja. Nemendur fást við verklegar æfingar og skýrslugerð. Gerðar kröfur um sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði.              

   Markmið

Nemendur

-    þekki gaslögmálið og hugmyndir um kjörgas og geti í því sambandi útskýrt samband þrýstings, rúmmáls og hita fyrir
     kjörgas, notað gaslögmálið til að reikna rúmmál, hita og þrýsting, útskýrt hugtakið hlutþrýstingur og þekki samband
     hlutþrýstings, mólstyrks og heildarþrýstings

-    þekki helstu gerðir efnahvarfa en í því felst að þekkja í sundur oxunar-/afoxunarhvörf, sýru-/basahvörf og
     fellingarhvörf og geta lokið við efnajöfnur sem lýsa efnahvörfum af þessum gerðum

-    geti framkvæmt útreikninga tengda massahlutföllum í efnahvörfum, fundið takmarkandi þátt, ofgnótt, afgang og nýtni

-    öðlist skilning á varmabreytingum í efnahvörfum en í því felst að geta útskýrt hugtakið hvarfavarmi, notað lögmál Hess
     til að reikna hvarfavarma og þekkja hugtakið myndunarvarmi

-    kunni skil á helstu atriðum varðandi hraða efnahvarfa, geta lesið úr hraðajöfnu efnahvarfs, þekkja hugtakið hraðafasti
     og tengsl hvarfgangs og hraðajöfnu, geta útskýrt áhrif hita, mólstyrks og hvata á hraða efnahvarfa, þekkja hugtakið
     virkjunarorka og geta teiknað orkulínurit efnahvarfs

-    kunni skil á jafnvægishugtakinu og geti beitt jafnvægislíkingu efnahvarfs við útreikninga en í því felst að geta ritað
     jafnvægislíkingu efnahvarfs og notað hana til að reikna jafnvægisfasta eða jafnvægisstyrk

-    þekki áhrif ytri þátta, svo sem hita, þrýstings og breytinga á mólstyrk, á jafnvægisstöðu og jafnvægisfasta efnahvarfs

-    þekki helstu atriði oxunar-/afoxunarhvarfa. Í því felst að geta lýst rafeindaflutningi í oxunar-/afoxunarhvarfi, þekkja
     oxara og afoxara í oxunar-/afoxunarhvarfi, þekkja samhengið milli hálfhvarfa og heildarhvarfs, geta skrifað hálfhvörf
     oxunar-/afoxunarhvarfs og kunna meginreglur um oxunartölur

-    þekki grundvallaratriði rafefnafræði. Í því felst að geta lýst galvaníhlöðu, skrifað hlaðskema fyrir galvaníhlöðu, lýst
     staðalvetnishálfhlöðu, notað staðalspennu hálfhvarfa til að reikna staðalíspennu galvaníhlöðu, þekkja tengsl íspennu
     galvaníhlöðu og fríorkubreytingar hlöðuhvarfsins, geta notað jöfnu Nernsts, þekkja spennuröð málmanna og hugtakið
     vetnislosandi málmur

-    kunni skil á sýru-/basahugtakinu og helstu atriðum sýru-/basahvarfa en í því felst m.a. að þekkja sjálfsjónun vatns
     og vatnsfastann, kunna skil á hugtakinu sýrustig, pH, geta reiknað pH fyrir rammar og daufar sýrur og basa út frá
     sýrufasta/basafasta og formlegum mólstyrk sýrunnar/basans

   Námsmat

Stúdentspróf að vori er úr námsefni 1. og 2. bekkjar. Námseinkunn er gefin fyrir skyndipróf, skýrslur, heimadæmi og almenna ástundun yfir veturinn.


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 23.02.2005