Forsíða > Námið > Námsgreinar > Saga > Prentvænt

Saga í 2. bekk félagsfræðabrautar

   SAG 1F4

   Saga í 2. bekk, félagsfræðabraut

   (Samsvarar SAG 103 ( að mestum hluta) og SAG 303 (að hluta) í Aðalnámskrá)

   Námslýsing

   Viðfangsefnið er saga mannkyns frá upphafi vega og fram  á 18. öld og saga Íslands frá landnámi til sama tíma. Helstu efnisflokkar eru:

   Fornöld í nútímanum. Leitast við að draga fram þá þætti úr arfi fornaldar, sem sett hafa mark sitt á síðari tíma.

   Menningarheimar á miðöldum. Lögð áhersla á að bera saman kristindóm og íslam, tengsl þeirra og árekstra í tímans rás. Fjallað um 
   íslenskt miðaldasamfélag í samanburði við önnur samfélög í Evrópu.

   Ný heimsmynd. Einkum gefinn gaumur að viðhorfsbreytingum í andlegum efnum, eins og þær birtast í endurreisnar- og
   siðskiptahreyfingunum, og að landkönnun og landafundum Evrópuþjóða og þróun náttúruvísinda.

   Ríki og þegnar. Fjallað um þróun ríkisvalds og stjórnarfars í Evrópu á öndverðri nýöld og um sambúð ríkja í álfunni. Staða Íslands í þessu 
   samhengi athuguð sérstaklega.

   Í menningarsögu eru valin 2-3 tímabil og svið til fjölþættrar menningarlegrar könnunar. Lögð er áhersla á verkefnavinnu þar sem viðfangsefnið
   er krufið í ljósi margra þátta menningar. Nemendur kynnast frumtextum, samtímamyndefni og fræðilegri og skáldlegri umfjöllun um efnið.   
   Tveir  þættir eru fastir á dagskrá: 1) Grísk klassík með áherslu á þann menningararf sem lifir í nútímanum og 2) Endurreisnin á Ítalíu með  
   skírskotun til þess samfélags, sem skóp svo glæsilegan menningararf. Að auki er mögulegt að velja til umfjöllunar annan eftirtalinna þátta:
   1)  Heimur miðalda frá mismunandi sjónarhornum eða
   2)  Evrópsk menning á öndverðri nýöld (1500-1750) með sérstakri áherslu á barokk- og rokokkotímann,

 

   Markmið menningarsöguþáttarins

   Nemendur

-          hafi lesið forngríska texta í íslenskri þýðingu og greint viðfangsefni þeirra

-          þekki ýmsa þætti í grískri goðafræði, grískri heimspeki og stjórnarfari og félagsgerð Forngrikkja

-          þekki áhrif grískrar menningar á seinni tíma, t.d. á hugsun, þekkingarleit og fegurðarskyn

 

-          geti metið hvaða nýsköpun átti sér stað á endurreisnartímabilinu

-          hafi lesið og kannað valda bókmenntatexta, t.d. Dante, Macchiavelli og Boccaccio

-          þekki hugmyndir einstaklingshyggju og fornmenntastefnu

-          þekki nokkra þætti í þjóðskipulagi og félagsgerð borga og héraða á Ítalíu endurreisnarinnar

-          geti fjallað um útbreiðslu og áhrif endurreisnarhreyfingarinnar

 

-        kanni afmörkuð fyrirbæri á miðöldum eftir ólíkum efnisatriðum og út frá mismunandi sjónarhornum s.s. menningarlega, félagslega, hugmyndalega, eftir atvikum hverju sinni Dæmi um verkefni gætu verið:

-                víkingaöld í fjölþættu ljósi: út frá siglingum, landnámi og landafundum, handíðum og listum

-                Bayeux refillinn sem einstakur vitnisburður um list, handverk, þjóðhætti og stjórnmálaatburð

-                Sturlungaöld í ljósi einstakra persóna, hagsmuna, fjölskyldulífs og kynjasjónarmiða

-                Svarti dauði sem áfall og prófsteinn á trú og samfélag. Samanburður milli Íslands og umheimsins

-                Skáldskapur og kvikmyndir um miðaldaefni

 

-          kynni sér ævi og verk valinna höfunda og hugsuða, t.d. Williams Shakespeares

-          kynnist listrænum áherslum einveldistímans eins og þær birtast í málaralist, höggmyndalist og byggingarlist, t.d. í Versölum

   Kennsluaðferðir

Í   Í fyrirlestrum draga kennarar upp meginþróunarlínur og setja einstök atriði í stærra samhengi. Nemendur vinna að einstaklings- og
   hópverkefnum. Myndefni af ýmsu tagi verður nýtt eftir því sem föng eru á. Nemendur þjálfast í rökræðum um söguleg viðfangsefni í
   umræðutímum og fyrirlestrum.

   Námsmat

   Annareinkunnir byggjast á prófi í lok anna ásamt vinnueinkunn fyrir verkefni og aðra þætti námsstarfsins á hvorri önn.

 


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 30.03.2011