Forsíða > Námið > Orðagaldur > Prentvænt

Ljóð á kaffistofunni í MS

Kaffistofan í Menntaskólanum við Sund er oft vettvangur umræðu um bókmenntir og skáldskap. Gísli Þ. Sigurþórsson kennari mótmælti því hversu hallaði á kvennskáld þegar ljóð eru sett varanlega uppá veggi skólans. Hann hóf að birta öðru hvoru ljóð eftir íslenskar skáldkonur á veggjum kaffistofunnar.

Hér eru nokkur þeirra ljóða sem hafa ratað upp á veggina.


Þegar hver og ein okkar skilur samtakamáttinn
eftir Elísabetu Þorgeirsdóttur

Ég segi við ykkur þið hundruð

sem sitjið yfir kaffibollanum

og rekið þeim raunir ykkar:

Eyðið ekki lengur dýrmætum tíma ykkar

í að telja kjarkinn hver úr annarri

löng kaffiblaut kvöld

þegar krakkavælið er þagnað

og vinnugallinn bíður ykkar og næsta dags.

Tíminn er of dýrmætt leikfang

endalaus kaffiþambs kvöld

og máli ykkar og hugsun ekki lengur samboðið

að draga á langinn baráttuna

sem við eigum fyrir höndum þegar hver og ein okkar skilur samstakamáttinn

og slær óhikað í borðið

máli sínu til stuðnings.

(Elísabet Þorgeirsdóttir 1977. Augað í fjallinu, Ljóðhús)


Hjón drekka kaffi við eldhúsborð

eftir Kristínu Ómarsdóttur

kaffivélin er ný

þetta eru fyrstu tveir bollarnir sem við drekkum

af kaffinu sem hún lagar, keypt í tilefni dagsins:

fjörutíu ár síðan við giftum okkur hjá borgarfógeta

sama kvöld drukkum við bjór

og lékum okkur með myndavélina

bjuggum til alls konar uppstillingar

nú er komið að þessari

(Kristín Ómarsdóttir 2008. Sjáðu fegurð þína, Uppheimar)


Um syndina

Fyrir byrjendur og lengra komna

Eftir Steinunni Sigurðardóttur

 Að bendla synd við veikleika er kennisetning sem stenst ekki skoðun.

Því sá sem ætlar að syndga þarf einmitt að vera sterkur á svellinu, sækja í sig veðrið. Hrista af sér veikleika og slen.

Byrja snemma ef hann ætlar að ná langt í sinni sérstöku synd því einnig hér er það æfing sem skapar meistara.

Á móti reynsluleysi unga syndarans kemur frumkrafturinn og öfundsvert úthaldið til að endurtaka syndina hratt og fólskulega.

Bæta snarlega úr mistökum.

Gamall syndari, hins vegar, hefur síst efni á að gera mistök

og reynslan hefur kennt honum að syndin verður ekki sæt nema hún sé nákvæmlega útfærð.

En einmitt þessu lykilatrið er haldið leyndu mann fram af manni og kemur öllum jafnmikið í opna skjöldu þegar syndin er ný.

(Uppeldisvanræksla sem er ígildi erfðasyndar).

Almestu nákvæmni í synd þarf virðulega konan með bilaða mjöðm. Sú þarf að leggja niður fyrir sér hvert höktandi fet

og berja sig jafnframt áfram með orðum Marquise de Deffand (um dýrlinginn sem hélt á afhöggnu höfði sínu meðan hann gekk) að vegalengdin skipti ekki máli, aðeins fyrsta skrefið.

Hafi þessi hálffatlað kona gert syndahlé, af leti eða illri nauðsyn, mun hún einmitt kenna á því að fyrsta skrefið er nánast óyfirstíganlegt og að þetta með vegalengdina er rétt.

Gamall syndari er yfirleitt léttur í lund (mun léttari en ungur starfsbróðir).

Vegna þess að hann á stutt ófarið með sinn drösul.

Vegna þess  tekur það ekki fyrir hann að líta um öxl og reka út úr sér tunguna,

hvað þá að hvísla í flaustri: Það var ekki ég!


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 27.01.2009