Ljóð á veggjum MS
Undanfarin ár hefur Menntaskólinn við Sund vakið athygli á galdri orðsins með því að skreyta veggi skólans með ljóðum. Þessi ljóð eru á veggjum skólans starfsfólki, nemendum og gestum til ánægju og yndisauka.
Úr Ferðalokum
...
Hélt ég þér á hesti
í hörðum straumi
og fann til fullnustu,
blómknapp þann gæti
ég borið og varið
öll yfir æviskeið.
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg.
En anda sem unnast
fær aldregi
Eilífð að skilið.
(Jónas Hallgrímsson)
Tvífundnaland
Það er landið sem fannst
og týndist
og fannst svo aftur
Ég hef farið langar ferðir
um þetta land meðan
það var enn týnt (vissi
ekki einusinni að það
væri týnt)
Þar eru dimmir skógar
og djúpir dalir
og dýr með gráan feld
sem urra og glefsa
milli trjánna
Fuglarnir sem fljúga
yfir í rökkrinu (þarna
er ekkert tungl) eru
hugarburður
Þetta er landið sem
börnin finna
og týnist þegar
lífið verður steintré
Það finnst óvart á ný
áður en silfur –
þráðurinn slitnar.
(Gyrðir Elíasson)
ævintýri
Fyrir þig
myndi ég gjarna
bera inn sólskin
í botnlausum potti
allan daginn
kreista sólina
svo gulir taumar
rynnu um þig alla
(Ingunn Snædal)
ORÐ
I
Orð fljúga
frá manni til manns
fara yfir sem eldur í sinu
orð bergmála
frá múr og fjalli
bók og heilaberki
Orð spreingja
hljóðhimnur og tárakirtla
tilveru okkar og fjöll bernskunnar
Allsstaðar eru orð
(Dagur Sigurðarson)
Úr Einræðum Starkaðar
Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast
sem aldrei verður tekið til baka.
(Einar Benediktsson)
Sól tér sortna,
sígur fold í mar,
hverfa af himni
heiðar stjörnur.
Geisar eimi
við aldurnara,
leikur hár hiti
við himin sjálfan.
(Völuspá)
Andartak
Þú dokar við horfir í nærstödd augu hugsar um eitthvað - eitt andartak
iðandi fegurð sem lýsir upp sortann geturðu níst það prjóni? stöðvað það á flugi? sett það undir gler?
(Ingibjörg Haraldsdóttir)
Úr Hávamálum
Vits er þörf þeim er víða ratar; dælt er heima hvað. Að augabragði verður sá er ekki kann og með snortrum situr.
Ef
Ef ég ætti 3000 bros myndi ég hnoða úr þeim kúlur og kasta í andlit allra klukkan átta á mánudagsmorgni.
(Andir Snær Magnason)
Menn
Menn skiptast í tvennt; harmvalda og gæfusmiði. Harmvaldarnir eru ágengir, metnaðarfullir og stjórnsamir. Gæfusmiðirnir eru fjölbreytilegir og hógværir. Nánar þarf ekki að lýsa þeim. Ljósti af einhverri ástæðu saman harmvaldi og gæfusmiði þá hugsar gæfusmiðurinn sem svo: Eins og Plátón lít ég svo á að illskárra sé að vera kúgaður en að kúga. Íslendingar orðuðu þetta fyrrum svofelldlega: Sá vægir sem vitið hefur meira.
(Þorgeir Rúnar Kjartansson, 1955-1998)
|