Íslenska í 2.M
ÍSL 2M5
Íslenska í 2. bekk, málabraut
(Samsvarar að hluta ÍSL 212 og ÍSL 303 í Aðalnámskrá)
Námslýsing
Fjallað er um sögu málsins frá frumnorrænum tíma til nútímaíslensku. Farið í undirstöðuatriði hljóðritunar og helstu mállýskur á Íslandi. Í setningafræði er farið yfir aðalsetningar, flokka aukasetninga og rifjuð upp helstu reglur um greinarmerki. Nemendur kynnast norrænni goðafræði og hugmyndaheimi norrænna manna til forna ásamt dæmum um áhrif goðasagna á nútímabókmenntir. Farið er í eddukvæði og annan fornan kveðskap, sögu hans og einkenni, frá landnámi til 1100. Tvær nútímaskáldsögur eru lesnar. Einnig lesnar þjóðsögur og ævintýri. Nemendur þjálfast í að flytja ýmiss konar efni og tjá sig munnlega og skriflega um einstaka þætti námsefnisins. Enn fremur er nemendum leiðbeint við skrif einnar ítarlegrar ritgerðar þar sem gerðar eru kröfur um vandaða heimildavinnu.
Markmið
Nemendur
- kynnist uppruna og sögu íslenskrar tungu - átti sig á sögulegum tengslum tungumáls og menningar - kynni sér margmiðlunarefni tengt íslenskri málsögu - geti lesið úr hljóðritun og nýtt sér leiðbeiningar um framburð - þekki helstu mállýskur á Íslandi - geti myndað sér skoðun á íslenskri málstefnu sem byggist á þekkingu og víðsýni - þekki helstu atriði í heimsmynd norrænnar goðafræði, viti deili á helstu goðum og hlutverki þeirra, vættum og öðrum átrúnaði - þekki forna bragarhætti, a.m.k. fornyrðislag, ljóðahátt og dróttkvæðan hátt - átti sig á skiptingu eddukvæða í hetjukvæði og goðakvæði og helstu einkennum þeirra - kynni sér vandlega Völuspá og valdar vísur Hávamála og átti sig á efni og hugmyndum þeirra - geti gert grein fyrir efni og hugmyndum Þrymskviðu og Helgakviðu Hundingsbana II
- geti skýrt 2-3 dróttkvæðar vísur og geri sér grein fyrir muninum á dróttkvæðum og eddukvæðum
- þjálfist í ritgerðasmíð og annarri skriflegri tjáningu
- beiti ferliritun (skrifað í skrefum) markvisst við ritsmíðar
- kynnist helstu aðferðum við heimildavinnu og læri að byggja upp heimildaritgerð
- fái tækifæri til að skoða myndbönd og nýta sér margmiðlunarefni um eddukvæði eða þjóðsögur
- lesi þjóðsögur og ævintýri og geti gert grein fyrir einkennum þeirra
- lesi tvær nútímaskáldsögur og fjalli um þær skriflega og munnlega
Námsmat
Auk prófa í annalok byggjast annareinkunnir á vinnueinkunnum með háu vægi þar sem metnar eru ritgerðir nemenda, skyndipróf og önnur verkefni auk ástundunar.
|