Forsíða > Skólinn > Brautskráningar > Útskrift 2007 > Prentvænt

Skýrsla rektors vor 2007

Skýrsla rektors

Við brautskráningu er við hæfi að gera grein fyrir skólastarfinu. Af mörgu er að taka en hér verður stiklað á stóru og fátt eitt nefnt.

Fyrst vil ég nefna það að í vetur hefur hvert áfallið af öðru dunið yfir okkur.  Alvarleg slys og veikindi hafa hafa herjað áokkur. Þá hafa tveir kennarar við skólann látist á þessu skólaári. Guðrún Sigurðardóttir enskukennari lést síðla síðasta sumar og Jón Gauti Jónsson jarðfræðikennari féll frá í þessari viku. Þetta er okkur gífurlegt áfall að sjá á bak þessum góðu vinum okkar og samstarfsfólki. Ég votta fjölskyldum þeirra innilega samúð mína og þá sérstaklega fjöskyldu Jóns Gauta sem nú er í sárum en aðeins eru 4 dagar síðan Jón lést og sársaukinn því mikill.

Starfið

Víkjum þá fyrst að nemendum skólans: Haustönn 2007  hófst með því að skólinn var settur miðvikudaginn 23. ágúst 2006 og hófst kennsla sama dag. Fjöldi skóladaga var eins og lög gera ráð fyrir. Aðsókn var mjög góð að skólanum og varð að vísa fjölmörgum umsækjendum frá. Nemendafjöldi í skólanum var sá sem við höfum heimild fyrir. Það hófu um 760 nám við skólann sl. haust en um miðja vorönnina voru 716 nemendur við nám í skólanum, 362 piltar og 354 stúlkur. Ótrúlega jöfn kynjaskipting eins og verið hefur nú um langt skeið. Kynjaskiptingin í MS birtist hins vegar í vali nemenda á brautir og kjörsvið.

Málabraut 72,  félagsfræðibraut 320, náttúrufræðibraut 324

Stúlkur eru í meirihluta á málabraut, félagsfræðikjörsviði félagsfræðabrautar og líffræðikjörsviði náttúrufræðibrautar en strákar eru í meirihluta á hagfræðikjörsviði félagsfræðabrautar og umhverfis- og eðlisfræðikjörsviði náttúrufræðibrautar eins og verið hefur undanfarin ár.

Rekstur skólans

Þá að öðru. Örlítið um rekstralegt umhverfi skólans. Það hefur margt gott verið gert af hálfu ríkisins undanfarin ár hvað varðar að bæta rekstraraðstæður framhaldsskólanna og það ber að þakka.

En!I dag segi ég: Það vantar meira fjármagn til að koma góðum hlutum í verk. Það vantar réttlátari skiptingu. Það þarf að nútímavæða í stjórnsýslunni og íslensku skólakerfi.

Viðmið í reiknilíkani því sem notað er til að skammta fjármagn eru alltof þröng. Það er lítið tillit tekið til þess að skólastarf hefur breyst afar mikið á undanförnum árum. Það eru um þrjú hundruð tölvur í skólanum, auk annars tæknibúnaðar í öllum kennslustofum, fullkomið tölvukerfi og fjölþættur hugbúnaður er í notkun. 2001 voru 45 tölvur í skólanum og einn skjávarpi! Það er ekki hægt að líkja þessu saman. Það kostar ð kaupa svona búnað og það kostar pening að halda honum við og endurnýja. Breytingar á reiknilíkaninu undanfarin ár duga enga veginn til þess að koma á móts við þennan breytta veruleika. Svo er um margt annað hvað það varðar.  

Það alvarlegasta varðandi fjármagn til skólanna er að ekki er gert ráð fyrir því að skólar haldi úti forfallakennslu þegar um skammvinn veikindi eða fjarvistir er að ræða. Það sárvantar hér á landi viðurkenningu á því að full þörf sé að hafa afleysingakerfi þegar um veikindi eða forföll kennara er að ræða. Í nágrannalöndum okkar þykir þetta sjálfsögð þjónusta við nemendur. Ég met það svo að það að koma á afleysingakerfi í kennslu sé einfaldasta, fljótlegasta og ef til vill ódýrasta leiðin til þess að draga úr brottfalli í íslensku skólakerfi.

Ég hef því ákveðið að koma á fót afleysingakerfi við MS frá og með næsta skólaári. Á kostnað skólans til að byrja með, en vonandi munum við fá stuðning við þetta verkefni þegar stjórnvöld sjá hver árangurinn verður.

Rekstur skólans var í járnum sl. ár eins og gert var ráð fyrir. Við spilum úr því sem við höfum og reynum að gera okkar besta,  en vissulega vildum við þjónusta nemendur betur. Það væri hægt að gera svo margt betur ef fjármagn og sveigjanleiki væri til þess. Það væri hægt að hrinda í framkvæmd svo mörgu sem okkur þyrstir í að gera.

Bekkurinn er þétt setinn í MS. Enginn skóli á landinu annar en Kvennaskólinn í Reykjavík býr jafn þröngt og við. Við erum því sífellt að reyna að nýta húsnæðið betur. Þannig var sviðið við íþróttasalinn rifið í sumar. Við steyptum fyrir gatið og brutum okkur leið inn í rýmið frá anddyrinu og nú erum við búin að taka í notkun fullkominn fjölnota fyrirlestrarsal sem á engan sinn líka hvorki hér á landi né annars staðar. Sérstaða hans liggur í hönnun hans, þeim tæknibúnaði sem þar er og ekki síst fullkomnasta hugbúnaði sem völ er á til náms og kennslu. Þetta var mikil framkvæmd og fengum við að hönnuninni færustu sérfræðinga undir stjórn arkitektastofunnar Glámu-Kím. Auk þess er allt handverk og allur frágangur í salnum íslenskum hönnuðum og iðnaðarmönnum  til sóma. Það þarf ekki að óttast um iðn- og verknám á Íslandi þegar horft er á hve vel hefur tekist til. Þessi salur sem er sérsniðinn að okkar þörfum og óskum gefur okkur nýja möguleika í starfi og námi. Um það þarf vart að deila. Fasteignir ríkissjóðs studdi dyggilega við okkur varðandi byggingaþáttinn en ríflega helmingur kostnaðarins liggur í búnaðinum og sá kostnaður féll alfarið á skólann. Ekki ein króna hefur komið frá ríkinu í stofnkostnað eins og almenn venja er þegar ráðist er í svona framkvæmdir.

Áætlanir um nýbyggingu við MS eiga sér langa sorgarsögu. Nú liggur fyrir áætlun Ríkis og Reykjavíkurborgar um að byggja við skólann sem byggir á nýlegri þarfagreiningu. Samkvæmt undirrituðu samkomulagi þessara aðila eiga framkvæmdir að vera hafnar, en svo er ekki.

Sterk ríkisstjórn eins og við höfum nú ætti að geta komið þessu verki á koppinn þannig að við sem störfum í MS, nemendur og starfsfólk fáum í það minnsta sambærilegt húsnæði og sambærilegar aðstæður og aðrir skólar geta boðið sínu fólki. Við þetta ástand verður ekki unað lengur! Skilvirkni hins opinbera hlýtur að geta orðið meiri en verið hefur!

Faglegt starf

Í skólum skiptir mestu að góð aðstaða sé til náms. Til þess að svo sé þurfa margir þættir að smella saman. Þannig þarf rekstrargrundvöllurinn að vera traustur. Góður aðbúnaður, gott skipulag, færir starfsmenn og hvetjandi, skapandi  og ögrandi námsumhverfi verður að vera til staðar.

Það þarf til ákveðni, kunnáttu, hlýju og umhyggju gagnvart nemendum. Það þarf að vera til staðar þekking og skilningur á eigin verkum. Það þarf sjálfsrýni. Það þarf að vera unnið markvisst að því að framfylgja stefnu skólans og skólinn þarf að búa yfir sveigjanleika til að takast á við breytilegar og breyttar aðstæður.

 Það er verið að gera miklar breytingar á íslensku skólakerfi. Hvernig þetta þróast allt saman næstu árin er ekki gott að segja en óbreytt skipulag hentar ekki lengur. Við í MS og skólarnir almennt höfum ekki getað aðlagað okkur nægjanlega að breyttri veröld.

 Þó er svo að þróunarstarf hér í skólanum hefur sjaldan verið jafn öflugt. Til að nefna fátt má benda á að í MS hefur farið fram stórmerkilegt starf hvað varðar rannsókn á eigin starfi. Eins og þátttakendur í þessu starfi hafa sagt. “Við erum í þekkingarútrás” Þetta á einnig við það stórmerka starf sem hefur verið unnið hér í skólanum á sviði lífsleikni undir forystu þeirra Jóns Gauta heitins og Sjafnar Guðmundsdóttur. Skólinn hefur einnig ýtt af stað markvissum undirbúningi að breyttu skólastarfi með því að kanna og skoða það sem best er gert í öðrum löndum, jafnt í nágrannaríkjum okkar sem og í fjarlægum heimsálfum. Ríkjum sem einnig eru að takast á við breyttar aðstæður. Næsta skólaár munum við strax sjá breytingar á starfinu þó mestu breytingarnar verði þegar menn hafa ákveðið sig varðandi nýjan ramma að skipulagi framhaldsskólastigsins.

Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því að Menntaskólanum við Sund takist ekki vel upp í þessari vinnu. Fagmennska einkennir vinnubrögðin í skólanum og hópurinn er samhentur. Við þurfum vissulega að skerpa á stefnu okkar og markmiðum og það munum við gera. En vandamálið er að starfsumhverfið er ekki nægjanlega nútímalegt. Lítið fjármagn, úrelt lög og forneskjulegar reglugerðir plaga okkur. Viðbragðstíminn er of langur. Við höfum ekki þennan tíma í dag!

Félagslíf nemenda

Það er gott félagslíf í MS. Helsti kostur þess er hve þátttaka í því er mikil og auðvelt er fyrir nemendur að vera virkir þátttakendur. Svona hefur þetta verið í mörg ár.

Félagslífið er gott en ekki gallalaust. Ef til vill höfum við nú fullreynt að sinni að standa fyrir dansleikjahaldi á vegum skólans? Sá þáttur félagslífsins hefur engan veginn gengið nægjanlega vel þó svo  skólinn og forysta nemenda hafi staðið samhent í 2 ár í því að reyna að koma skikki á þennan afmarkaða þátt félagslífsins.

Ég vil þakka félagsmálafulltrúum skólans og stjórn nemendafélagsins fyrir sérlega ánægjulegt samstarf í vetur. Ég er þeim og öðrum starfsmönnum sem í vetur hafa lagt  nemendum lið afar þakklátur.

Ég býð nýja stjórn nemendafélagsins velkomna til starfa.

Námsárangur

Hvað þá með námsárangurinn? Í heildina var námsárangur í skólanum töluvert betri en síðastliðið ár, færri féllu þó of margir nemendur séu í vandræðum með sitt nám. Það er áhyggjuefni að nemendur eru að lenda í vandræðum með sitt nám síðar á námsferlinum en áður. Meðaleinkunn allra nemenda í skólanum nú í vor 6,7 en var 6,4 í fyrra en frá árinu 2003 hefur meðaleinkunin alltaf verið á bilinu 6,3 til 6,4. Hér er um marktæka breytingu að ræða.

Útskriftarárgangurinn

156 nemendur hófu nám í 4. bekk haustið 2006.  149 útskrifast vorið 2007 en fjórir hættu námi á á vorönn 2007, tveir féllu á stúdentsprófunum og einn má endurtaka próf í júní.

 Brautaskipting stúdenta:

Málabraut, latínukjörsvið (L) 8 nemendur

Málabraut, hugvísindakjörsvið (M) 10 nemendur                                      

Félagsfræðabraut, félagsfræðikjörsvið (F) 60 nemendur

Félagsfræðabraut, hagfræðikjörsvið (H) 23 nemendur   

Náttúrufræðibraut, líffræðikjörsvið (NL) 27 nemendur

Náttúrufræðibraut, umhverfiskjörsvið (U) 13 nemendur   

Náttúrufræðibraut, eðlisfræðikjörsvið (E) 8 nemendur     

Samtals 149 nemendur.

Kynjaskipting stúdenta:

67 eða 45% strákar og  81 eða 56% stúlkur.

Stúlkur eru í meirihluta á málabraut og félagsfræðikjörsviði félagsfræðabrautar, strákar eru í meirihluta á hagfræðikjörsviði félagsfræðabrautar og umhverfis- og eðlisfræðikjörsviði náttúrufræðibrautar en kynjaskiptingin er nokkuð jöfn á líffræðikjörsviði náttúrufræðibrautar. Þetta er svipað kynjamunstur og á undanförnum árum nema að nú eru stelpur í meirihluta í útskriftarhópnum en á síðustu árum hafa strákar verið í meirihluta.

Hæsti nemandi á hverju kjörsviði:

Málabraut, latínukjörsvið (L):  Sandra Bjarnadóttir 4. A

Málabraut, hugvísindakjörsvið (M):  Ragnheiður Bárðardóttir 4. A

Félagsfræðabraut, félagsfræðikjörsvið (F):  Sigmar Þór Matthíasson 4. D

Félagsfræðabraut, hagfræðikjörsvið (H): Íris Dögg Björnsdóttir 4. G

Náttúrufræðibraut, líffræðikjörsvið (NL): Edda Katrín Rögnvaldsdóttir 4. T

Náttúrufræðibraut, umhverfiskjörsvið (U): Kolbrún Irma Hreiðarsdóttir 4. X

Náttúrufræðibraut, eðlisfræðikjörsvið (E): Oddur Óli Jónasson 4. X

 Nemendur með ágætiseinkunn þ.e. 9 eða hærra:

 Edda Katrín Rögnvaldsdóttir 4. T 9,3

María Björg Kristjánsdóttir 4. T 9,0

Sigmar Þór Matthíasson 4. D 9,3

Edda og Sigmar deila að þessu sinni með sér nafnbótinni Dúx skólans

Það er góður siður að vekja athygli á þeim sem standa sig sérlega vel í náminu. Þeir sem fá yfir 9 í aðaleinkunn eru framúrskarandi námsmenn.  Í dag höfum við hér á sviðinu hátt í 150 nýstúdenta. Allir hafa þeir lokið ætlunarverki sínu með sóma. Allir eiga þeir skilið hrós frá okkur hvort sem einkunnin er 9 eða 5.

Afhending viðurkenninga til starfsmanna

Áður en kemur að því að brautskrá stúdenta langar mig til þess að nefna það að einn kennari skólans á 25 ára starfsafmæli við skólann. Tíðkast hefur að veita þeim sem ná þessum áfanga þakklætisvott við brautskráningu að vori. Að þessu sinni nær þessum áfanga Guðmundur V. Karlsson þýskukennari. Ég ætla að biðja Guðmund að koma hingað upp á sviðið til mín.

Ágætu gestir! Skólaárið 2006-2007 var okkur sem þar störfum í senn afar erfitt vegna þeirra áfalla sem við urðum fyrir en jafnframt var það sérlega gott og gefandi hvað varðar starfið. Það er gott fólk í MS. Takk fyrir!


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 29.05.2007