Forsíða > Námið > Námsgreinar > Kjörsviðsverkefni > A6: Námslýsingar > Prentvænt

Námslýsing hagfræðikjörsvið félagsfræðabrautar

Kjörsviðsverkefni á hagfræðikjörsviði félagsfræðabrautar

 

Allir nemendur í 4. bekk skulu velja sér 3 eininga kjörsviðsverkefni sem er lokaverkefni í einni af einkennisgreinum á kjörsviði sínu. Markmið með verkefninu er að dýpka þekkingu og skilning nemenda í aðalgrein á kjörsviði, auka ábyrgð og sjálfstæði þeirra í námi sínu og undirbúa þá enn betur undir  ritgerðasmíð og skýrslugerð í námi á háskólastigi. Verkefnið verður unnið allt skólaárið og gert er ráð fyrir að vinna við það samsvari þremur kennslustundum á viku. Kennari metur bæði vinnuferlið og afurð verkefnisins.

 

Nemendur geta valið um kjörsviðsverkefni á sviði hagfræði.

 

Hagfræði

 

Námslýsing

Nemendur vinna rannsóknarverkefni þar sem þeir fá þjálfun í að beita rannsóknaraðferðum félagsvísindanna og sýna öguð vinnubrögð með því að fylgja vísindalegu rannsóknarferli.  Ýmist getur verið um einstaklings-, para- eða hópverkefni að ræða.  Nemendur velja viðfangsefni á sviði rekstrarhagfræði eða þjóðhagfræði í samráði við kennara. Einnig geta nemendur valið viðfangsefni annarra fræðigreina og skoðað það út frá hagfræðilegu sjónarhorni t.d. á sviði landafræði, umhverfisfræði og markaðsfræði.

Meginmarkmið áfangans er að gera nemandann hæfan til að vinna sjálfstætt að rannsóknarverkefni í hagfræði, beita öguðum vinnubrögðum og skrifa um það rannsóknarskýrslu.

 

Kennsluaðferð

Kennari stýrir og veitir nemendum leiðsögn við rannsóknarvinnuna allt ferlið en nemendur stunda sjálfstætt nám og bera sjálfir ábyrgð á framgangi vinnu við rannsóknina.  Nemendur gera rannsóknaráætlun í upphafi, skrifa rannsóknarskýrslu og kynna rannsóknina í lok annarinnar með fjölbreyttum aðferðum, t.d. í formi dreifirits, veggspjalds, vefsíðu, myndbands, glærusýningar, fyrirlestrar eða á öðru formi sem kennari samþykkir.

 

Námsmat

Vinnuferlið við rannsóknina er metið út frá athugun á þátttöku nemenda í rannsóknarvinnu, dagbók, vinnublöðum og sjálfsmati nemenda.  Metin er afurð rannsóknarinnar í formi rannsóknarskýrslu og kynningar nemenda á niðurstöðum rannsóknarinnar.

 

 


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 16.04.2007