Námslýsing líffræðikjörsvið náttúrufræðibrautar
Kjörsviðsverkefni á líffræðikjörsviði náttúrufræðibrautar
Allir nemendur í 4. bekk skulu velja sér 3 eininga kjörsviðsverkefni sem er lokaverkefni í einni af einkennisgreinum á kjörsviði sínu. Markmið með verkefninu er að dýpka þekkingu og skilning nemenda í aðalgrein á kjörsviði, auka ábyrgð og sjálfstæði þeirra í námi sínu og undirbúa þá enn betur undir ritgerðasmíð og skýrslugerð í námi á háskólastigi. Verkefnið verður unnið allt skólaárið og gert er ráð fyrir að vinna við það samsvari þremur kennslustundum á viku. Kennari metur bæði vinnuferlið og afurð verkefnisins.
Nemendur geta valið um kjörsviðsverkefni á sviði líffræði og efnafræði.
Líffræði
- Nemandi aflar sér heimilda og tekur saman fróðleik um eitthvert tiltekið líffæri eða sjúkdóm. Efnið á að vera skýrt afmarkað og einkum skal reynt eftir föngum að afla upplýsinga er snerta íslenzkar aðstæður. Efninu er síðan skilað í formi ritgerðar, myndspjalda, stuttmyndar eða fyrirlesturs.
- Nemandi, sem hefur þegar tileinkað sér ákveðinn fróðleik innan líffræðinnar eða hefur einlægan áhuga á einhverju sérstöku viðfangsefni, getur sótt um það sérstaklega til fagstjóra í líffræði að fá að velja sér það. Hann skal gera fagstjóra grein fyrir þeirri ástæðu, að hann velur efnið og leggja fram drög að vinnuferlinu.
- Flóra og/eða fána. Nemandi skráir og safnar heimildum um tegundir plantna og/eða dýra (t.d. fugla) á einhverju tilteknu landsvæði eins og á sumarbústaðalandi, svo að dæmi sé tekið. Æskilegt er að merkja helztu líffélög (búsvæði) inn á loftmynd og teikna kort af svæðinu. Síðan má fjalla um, hvernig einstakar spildur eru notaðar, til dæmis til skógræktar eða uppgræðslu.
- Vistfræði. Nemandi aflar sér heimilda og tekur saman fróðleik um eitthvert tiltekið vistkerfi eða líffélag. Efnið á að vera skýrt afmarkað og einkum skal reynt eftir föngum að afla upplýsinga er snerta íslenzkar aðstæður. Efninu er síðan skilað í formi ritgerðar, myndspjalda, stuttmyndar eða fyrirlesturs.
Efnafræði
- Nemandi kynni sér stjóriðju á Íslandi (álver og málmblendi). Hann geri sér grein fyrir hvarfagangi við framleiðslu. Sérstaka áherslu mætti leggja á úrgang frá stóriðjuverum svo sem flúor, gjall, ryk, CO2 og annað. Hann skal einnig kynna sér mismunandi hreinsibúnað, kosti þeirra og galla. Nemandinn skal afla sér heimilda hjá fyrirtækjum í stóriðju, af netinu og frá umhverfisráðuneyti. Efninu er síðan skilað í formi ritgerðar, myndspjalda, stuttmyndar eða fyrirlesturs.
- Fituefni lífvera og notkun þeirra í iðnaði og til eldis. Nemandi kynni sér vel lípíð í lífverum og hlutverk þeirra þar. Síðan má kynna sér notkun þeirra í lýsi, hertu lýsi, olíum, nuddolíum, iðmefni, fóðurbæti, sápugerð og fleira. Efninu er síðan skilað í formi ritgerðar, myndspjalda, stuttmyndar eða fyrirlesturs.
|