Námslýsing umhverfiskjörsvið náttúrufræðibrautar
Umhverfisfræði
Námslýsing
Nemendur vinna rannsóknar- eða heimildarverkefni. Þeir þjálfast í að sýna öguð vinnubrögð og fylgja viðurkenndum rannsóknaraðferðum. Ýmist getur verið um einstaklings-, para- eða hópverkefni að ræða. Nemendur geta notað margvíslegar aðferðir við öflun gagna t.d. tekið viðtöl, gert spurningakönnun, notað skráðar heimildir og kvikmyndir/heimildamyndir. Meginmarkmið áfangans er að gera nemandann hæfan til að vinna sjálfstætt að rannsóknarefni og beita öguðum vinnubrögðum.
Nemendur velja viðfangsefni í samráði við kennara. Umhverfisfræði er þverfagleg og spannar mjög vítt svið. Val á viðfangsefni er því mjög fjölbreytt og getur tengst öðrum námsgreinum eins og jarðfræði, efnafræði, landafræði, félagsfræði, sögu eða hagfræði. Dæmi um kjörsviðsverkefni eru: náttúruhamfarir (jarðskjálftar, eldgos), líffræðilegur fjölbreytileiki (eyðimerkurmyndun, dýr í útrýmingarhættu), loftslagsbreytingar (afleiðingar og áhrif), hagrænir þættir við mat á umhverfi (mat á umhverfisáhrifum, umhverfismerki), neysla og neysluhyggja (sorp, umhverfismerki, plastnotkun) og sjálfbær þróun (staðardagskrá 21, umhverfisstefnur).
Kennsluaðferð
Kennari stýrir og veitir nemandanum leiðsögn í öllu vinnuferlinu á reglulegum samráðsfundum, en nemandinn stundar sjálfstætt nám og ber sjálfur ábyrgð á framgangi verksins.
Meginmarkmið er að gera nemandann hæfari til að vinna sjálfstætt að rannsóknum og efla með honum frumkvæði, gagnrýna hugsun og ályktunarhæfni. Þá er lögð áhersla á að nemandinn komi niðurstöðum rannsóknar sinnar frá sér á vandaðan og viðurkenndan hátt.
Námsmat
Vinnuferlið yfir árið er metið svo sem vinnubrögð, mæting á fundi og vinnusemi. Afurð rannsóknarinnar er metin í formi ritgerðar eða því formi sem ákveðið er í upphafi t.d. myndbands, veggspjalds, vefsíðu eða fyrirlestrar.
(uppfært 12.4.2014)
|