Forsíða > Námið > Námsgreinar > Kjörsviðsverkefni > A6: Námslýsingar > Prentvænt

Námslýsing málabrautar

Kjörsviðsverkefni á málabraut

 

Allir nemendur í 4. bekk skulu velja sér 3 eininga kjörsviðsverkefni sem er lokaverkefni í einni af einkennisgreinum á kjörsviði sínu. Markmið með verkefninu er að dýpka þekkingu og skilning nemenda í aðalgrein á kjörsviði, auka ábyrgð og sjálfstæði þeirra í námi sínu og undirbúa þá enn betur undir  ritgerðasmíð og skýrslugerð í námi á háskólastigi. Verkefnið verður unnið allt skólaárið og gert er ráð fyrir að vinna við það samsvari þremur kennslustundum á viku. Kennari metur bæði vinnuferlið og afurð verkefnisins.

 

Nemendur á latínukjörsviði málabrautar geta valið um kjörsviðsverkefni á sviði íslensku og ensku. Nemendur á hugvísindakjörsviði málabrautar geta valið um kjörsviðsverkefni á sviði íslensku, ensku og menningarsögu.

 

Íslenska

 

Námslýsing:

Nemendur á málakjörsviði vinna rannsóknarverkefni í íslensku þar sem þeir fá þjálfun í að beita rannsóknaraðferðum í íslenskum fræðum. Áhersla er lögð á öguð vinnubrögð og að vísindalegu vinnuferli sé fylgt. Verkefnin eru af ýmsum toga einstaklingsverkefni, para- og hópverkefni eftir því hvað hentar hverju sinni og hugur nemenda stendur til.

Nemendur velja verkefni tengt íslenskum fræðum í samráði við kennara og fá þjálfun í heimildaöflun, mati og úrvinnslu heimilda.

            Meginmarkmið námsins er að gera nemandann hæfari til að vinna sjálfstætt að rannsóknum, efla frumkvæði, ályktunarhæfni og gagnrýna hugsun. Þá er lögð mikil áhersla á þátt sjálfstæðrar hugsunar og sköpunar í verkefninu.

            Frágangur verkefnis skal vera til fyrirmyndar í hvívetna og niðurstöður skýrar og aðgengilegar.

                       

Hugmyndir um viðfangsefni í kjörsviðsverkefni í íslensku:

 

1. Ljóðagerð á tuttugustu öld

 

Nemandinn fer yfir sögu íslenskrar ljóðagerðar á tuttugustu öld og gerir grein fyrir helstu breytingum í yrkisefnum og formi. Tekið skal á þýðingum ljóða og sérstaklega litið til Magnúsar Ásgeirssonar.

 

2. Málstefna

 

Nemandinn gerir grein fyrir því hvaða málverndarstefnu Íslendingar hafa fylgt á tuttugustu öld og leggur mat á mismunandi sjónarmið. Til samanburðar má íhuga málverndarstefnu annarra þjóða og þróun íslenskrar tungu skal borin saman við eitt eða tvö önnur  mál. Stefnt skal að því að ræða einhverjar glænýjar málbreytingar eða slettur.

 

3. Miðaldabókmenntir

 

Nemandinn les vel valin dæmi um helstu tegundir miðaldabókmennta (Íslendingasögur, konungasögur, biskupasögur, riddarasögur o.s.frv.) og fjallar um einkenni þeirra. Sögur sem lesnar hafa verið á námsferlinum má að sjálfssögðu nota sem dæmi en skylt er að lesa einnig nýjar sögur af hverri tegund, valdar í samráði við kennara. Þekking á miðöldum á að vera leiðarljós í umfjöllum nemandans en viðfangsefnið verður kennari að móta eftir vali á sögum. Til dæmis gætu sumar sögur verið heppilegar til þes að skrifa um gildi  ættarinnar á miðöldum og fletta þá einnig upp í fræðibókum um það mál,- aðrar sögur gætu verið vel til þess fallnar að skilgreina hetjuskap á miðöldum o.s.frv.

 

4. Kvennabókmenntir

 

Skáldsögur um og eftir konur eru viðfangsefni sem auðvelt er að tengja milli landa. Nemandinn velur í samráði við kennrara sína þrjár íslenskar skáldsögur, þrjár enskar og þrjár danskar, les þær og greinir og leitar eftir því hvort þær einkennast á einhvern hátt af þjóðmenningu sinni eða hvort alþjóðleg kvennaviðhorf eru ráðandi.

 

5. Þýðingar

 

Ýmiss konar þýðingar – gætu hentað fyrir einstaklinga sem vilja vinna einir og án samvinnu við aðra.

Efni:    a) stutt skáldsaga þýdd úr t.d. ensku.

b) menningarsögulegt efni t.d. greinar á ensku, þýsku, frönsku eða

    spænsku. Sem dæmi mætti nefna sögu borga, ferðabæklinga, yfirlit

    um sögu lands og þjóðar að eigin vali.

c) sagnfræðin býður upp á ótal möguleika um efnisval. Rétt er að

    hyggja að áhugasviðium nemenda sem geta verið t.d. á sviði íþrótta,

    tónlistar, málaralistar, heimspeki o. fl..

 

6. Baskar á Íslandsmiðum

 

Hvaðan komu þeir, hvar stunduðu þeir veiðar, hvernig var samskiptum þeirra háttað við Íslendinga? Hvaða heimildir má finna um þá? Tengja saman sögu^"ræði.

 


Saga

 

Námslýsing:

Nemendur á hugvísindakjörsviði málabrautar geta valið rannsóknarverkefni í menningarsögu. Í viðfangi við slíkt verkefni fá nemendur þjálfun í að beita rannsóknaraðferðum sagnfræðinga og öguðum vinnubrögðum með því að fylgja vísindalegu rannsóknarferli. Ýmist getur verið um einstaklings-, para- eða hópverkefni að ræða. Nemendur velja sagnfræðilegt viðfangsefni í samráði við kennara og fá í vinnuferlinu þjálfun í heimildaöflun, mati og úrvinnslu sagnfræðilegra heimilda.

Meginmarkmið námsins er að gera nemandann hæfari til að vinna sjálfstætt að rannsóknum og efla með honum frumkvæði, gagnrýna hugsun og ályktunarhæfni. Þá verður lögð mikil áhersla á, að nemendur komi niðurstöðum rannsóknar sinnar frá sér á vandaðan og viðurkenndan hátt og í einhverju því formi, sem geri þær aðgengilegar áhugamönnum um efnið.

Kennari stýrir og veitir nemendum leiðsögn í öllu vinnuferlinu, en nemendur stunda sjálfstætt nám og bera sjálfir ábyrgð á framgangi verksins.

 

Markmið:

Nemandi

-         sýni sjálfstæði í vinnubrögðum við undirbúning, framkvæmd og úrvinnslu einfaldrar sagnfræðirannsóknar

-         fylgi vísindalegu rannsóknarferli við einfalda rannsókn

-         geri raunhæfa vinnuáætlun fyrir einfalda rannsókn

-         afli sér fjölbreyttra heimilda, t.d. skráðra heimilda úr bókum, tímaritum, blöðum og af Netinu eða frumheimilda, ef svo ber undir

-         vinni og leggi mat á upplýsingar úr heimildum á sjálfstæðan og gagnrýnin hátt

-         leggi mat á niðurstöður úr rannsóknum út frá heimildargildi og áreiðanleika gagna

-         fjalli á gagnrýninn hátt um rannsókarverkefnið

-         beiti sagnfræðilegri rannsókaraðferð og innsæi á rannsóknarverkefnið

-         leggi fram rannsóknarniðurstöður sínar á viðeigndi hátt, t.d. í ritgerð, skýrslu, á veggspjöldum, í bæklingi eða með öðrum hætti þar sem gerð er grein fyrir undirbúningi, framkvæmd, úrvinnslu og niðurstöðum rannsóknarinnar

-         fylgi viðurkenndum reglum við gerð og frágang rannsóknarskýrslu eða ritgerðar

 

Námsmat:

Kennari metur vinnuferlið við rannsóknina út frá athugun á þátttöku nemenda í rannsóknarvinnu, dagbók, vinnublöðum og sjálfsmati nemenda. Metin er afurð rannsóknarinnar í formi ritgerðar, rannsóknarskýrslu og kynningar nemenda á niðurstöðum rannsóknarinnar.


 

 

Enska

 

Námslýsing

Nemendur velja sér verkefni sem ýmist fjallar um ensku eða menningarmál

þar sem heimildir eru einkum á ensku. Verkefnið getur verið einstaklingsvinna, para- eða hópvinna og ræðst umfang þess af fjölda þátttakenda.

 

Meginmarkmið er að þjálfa sjálfstæð, skipuleg og öguð vinnubrögð.

 

Vinnuferli

Nemendur skila vinnuáætlun í upphafi annarinnar og gefa kennara síðan

skýrslu um vinnuferli og framgang.  Lokaverkefni getur verið með ýmsu móti,

t.d. ritgerð, skýrsla, veggspjöld, fyrirlestur, upplestur, leiklestur, leiksýning,

handritsgerð eða myndband.

 

Námsmarkmið

Að verkefninu loknu geti nemendur

·         sýnt sjálfstæð vinnubrögð við undirbúning, framkvæmd og úrvinnslu

·         gert raunhæfa vinnuáætlun

·         aflað sér fjölbreyttra skráðra heimilda, t.d. úr bókum, tímaritum, blöðum og af veraldarvefnum

·         aflað sér heimilda með athugun, t.d. vattvangsheimsóknum og viðtölum

·         unnið og lagt mat á upplýsingar úr heimildum á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt

·         kynnt niðurstöður sínar á viðeigandi hátt

·         fylgt viðurkenndum reglum við gerð og frágang verkefna

 

Námsmat

Vinnuferli verkefnisins er metið allt frá vinnuáætlun til kynningar á lokaafurð.

 

Hugmyndir um viðfangsefni

1.      ENSKA í daglegu lífi á Íslandi / ENSKA í íslensku viðskiptalífi / Notkun ensku í ákveðnum greinum.

2.       Áhrif ensku á íslenskt talmál.

3.      Einhver afmarkaður þáttur úr enskri málsögu, t.d. skyldleiki ensku og íslensku og gerðir orðalistar með dæmum.

4.      Bókmenntir:

a)     Fjallað um bókmenntaverk tengd ákveðnum höfundi, tímabili, þema eða tungumálasviði.

b)     Kvikmynd eða skáldverk. Samanburður nokkurra slíkra verka.

5.      Landkynning – land, þjóð, tunga.

6.      Fjölmiðlavakt – málefni líðandi stundar í fjölmiðlum, innlendum sem erlendum ( í sjónvarpi, blöðum og á neti).

7.      Áhrif nýrrar samskiptatækni á tungumál (farsímar, SMS, tölvur, enska/íslenska)


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 16.04.2007