Forsíða > Námið > Námsgreinar > Kjörsviðsverkefni > A6: Námslýsingar > Prentvænt

Námslýsing félagsfræðikjörsvið félagsfræðibrautar

Kjörsviðsverkefni á félagsfræðikjörsviði félagsfræðibrautar

 

Allir nemendur í 4. bekk skulu velja sér 3 eininga kjörsviðsverkefni sem er lokaverkefni í einni af einkennisgreinum á kjörsviði sínu. Markmið með verkefninu er að dýpka þekkingu og skilning nemenda í aðalgrein á kjörsviði, auka ábyrgð og sjálfstæði þeirra í námi sínu og undirbúa þá enn betur undir  ritgerðasmíð og skýrslugerð í námi á háskólastigi. Verkefnið verður unnið allt skólaárið og gert er ráð fyrir að vinna við það samsvari þremur kennslustundum á viku. Kennari metur bæði vinnuferlið og afurð verkefnisins.

 

Nemendur geta valið um kjörsviðsverkefni á sviði félagsfræði og sögu

 

Félagsfræði

 

Námslýsing

Nemendur vinna rannsóknar- eða heimildarverkefni. Þeir munu því þjálfast enn frekar í að sýna öguð vinnubrögð og fylgja rannsóknaraðferðum félagsvísindanna. Ýmist getur verið um einstaklings-, para- eða hópverkefni að ræða. Nemendur velja félagsfræðilegt viðfangsefni í samráði við kennara.  Nemendur geta notað margvíslegar aðferðir við öflun gagna t.d. tekið viðtöl, beitt þátttökuathugun, verið með rýnihóp, gert spurningakönnun, notað skráðar heimildir og kvikmyndir. Meginmarkmið áfangans er að gera nemandann hæfan til að vinna sjálfstætt að rannsóknarefni í félagsfræði og beita öguðum vinnubrögðum.

 

Kennsluaðferð

Kennari stýrir og veitir nemendum leiðsögn við rannsóknarvinnuna en nemendur stunda sjálfstætt nám og bera sjálfir ábyrgð á framgangi vinnu við rannsóknina. Kennari er með vikulega fundi, þar sem farið er yfir gengi og framvindu verksins. Lokaskil á verkefnum er á vorönn.

 

Námsmat:   

Vinnuferlið yfir árið er metið svo sem vinnubrögð, mæting á fundi og vinnusemi. Afurð er metin hvort sem það er ritgerð, rannsóknarskýrsla eða annað sem telst lokaafurð t.d. dreifirit, fyrirlestur, glærusýning, veggspjald eða myndband.


Saga

 

Námslýsing:

Nemendur á félagsfræðikjörsviði vinna rannsóknarverkefni í sögu. Í viðfangi við slíkt verkefni fá nemendur þjálfun í að beita rannsóknaraðferðum sagnfræðinga og öguðum vinnubrögðum með því að fylgja vísindalegu rannsóknarferli. Ýmist getur verið um einstaklings-, para- eða hópverkefni að ræða. Nemendur velja sagnfræðilegt viðfangsefni í samráði við kennara og fá í vinnuferlinu þjálfun í heimildaöflun, mati og úrvinnslu sagnfræðilegra heimilda.

Meginmarkmið námsins er að gera nemandann hæfari til að vinna sjálfstætt að rannsóknum og efla með honum frumkvæði, gagnrýna hugsun og ályktunarhæfni. Þá verður lögð mikil áhersla á, að nemendur komi niðurstöðum rannsóknar sinnar frá sér á vandaðan og viðurkenndan hátt og í einhverju því formi, sem geri þær aðgengilegar áhugamönnum um efnið.

Kennari stýrir og veitir nemendum leiðsögn í öllu vinnuferlinu, en nemendur stunda sjálfstætt nám og bera sjálfir ábyrgð á framgangi verksins.

 

Markmið:

 

Nemandi

-          sýni sjálfstæði í vinnubrögðum við undirbúning, framkvæmd og úrvinnslu einfaldrar sagnfræðirannsóknar

-          fylgi vísindalegu rannsóknarferli við einfalda rannsókn

-          geri raunhæfa vinnuáætlun fyrir einfalda rannsókn

-          afli sér fjölbreyttra heimilda, t.d. skráðra heimilda úr bókum, tímaritum, blöðum og af Netinu eða frumheimilda, ef svo ber undir

-          vinni og leggi mat á upplýsingar úr heimildum á sjálfstæðan og gagnrýnin hátt

-          leggi mat á niðurstöður úr rannsóknum út frá heimildargildi og áreiðanleika gagna

-          fjalli á gagnrýninn hátt um rannsókarverkefnið

-          beiti sagnfræðilegri rannsókaraðferð og innsæi á rannsóknar-verkefnið

-          leggi fram rannsóknarniðurstöður sínar á viðeigndi hátt, t.d. í ritgerð, skýrslu, á veggspjöldum, í bæklingi eða með öðrum hætti þar sem gerð er grein fyrir undirbúningi, framkvæmd, úrvinnslu og niðurstöðum rannsóknarinnar

-          fylgi viðurkenndum reglum við gerð og frágang rannsóknarskýrslu eða ritgerðar

 

Námsmat:

Kennari metur vinnuferlið við rannsóknina út frá athugun á þátttöku nemenda í rannsóknarvinnu, dagbók, vinnublöðum og sjálfsmati nemenda. Metin er afurð rannsóknarinnar í formi ritgerðar, rannsóknarskýrslu og kynningar nemenda á niðurstöðum rannsóknarinnar.

 

 

 


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 27.08.2009