3. Verkefni styrkt af Comenius ofl.
Borgin okkar (Our uniqe free city) - Verkefni á vegum Comenius
Menntaskólinn við Sund er þátttakandi í samstarfsverkefni á vegum Comenius sem er hluti af menntaáætlun ESB. Þátttakendur eru nemendur fjögurra skóla í fjórum löndum; Ísland, Tyrklandi, Ungverjaland og Spánn. Umsjónarmenn verkefnisins eru þau Leifur Ingi Vilmundarson og Brynja Dís Valsdóttir.
Í verkefninu felst að nemendur setja fram hugmyndir sínar um framtíðarborg í Evrópu, ímyndaða borg , ,,Our uniqe free city“. Hugmyndir og þekking ólíkra landa og menningarsvæða renna hér saman og þróast og lokaafurðin verður ítarleg lýsing á framtíðarborginni auk myndrænnar framsetningar. Helstu viðfangsefnin eru:
o Hönnun: Arkítektúr, umhverfi, stærð, aðgengi fólks
o Vistfræðileg hlið borgarinnar: hitun, vatn, samgöngur og náttúruvernd.
o Félagsmál: Þjónusta við fólk, menntamál, það sem andann auðgar, á það að vera á vegum borgarstjórnenda að einhverju leyti.
o List almennt, list borgarinnar, skreytingar með listaverkum, uppákomur og svo framvegis.
o Stjórnun borgarinnar, velta upp íslenska kerfinu og þeim möguleikum sem það býður eða býður ekki uppá.
o Efnahagskerfi borgarinnar þ.e. hvernig mun borgin sjá sér fyrir fjármagni til að standa undir þeirri þjónustu sem henni ber að veita?
o Frágangur lokaskýrslu og kynning á verkefninu.
Nemendur byggja upp borgina í samstarfi við nemendur samstarfslandanna í gegnumt netsamskipti og heimsóknir. Til þessa verkefnis fékk Menntaskólinn við Sund styrk til m.a. að fjármagna ferðalög til að hitta og vinna með nemendum samstarfslandanna. Fyrirhugaðar eru tvær ferðir okkar leiðbeinendanna með nemendum; til Búdapest í apríl 2011 og til Istanbúl vorið 2012 en auk þess verður MS í hlutverki gestgjafa haustið 2011 þegar hinir skólarnir heimsækja Ísland. Þátttaka í verkefninu felur í sér þá skuldbindingu að fara til Ungverjalands og Tyrklands ásamt kennurum skólans auk þess að taka virkan þátt í gestgjafastörfum næsta haust. Styrkurinn sem skólinn fékk greiðir allan ferðakostnað en nemendur hýsa hverjir aðra meðan að á heimsóknum stendur. Mikilvægt er því að forráðamenn nemenda taki virkan þátt í þessari skuldbindingu.
Væntingar okkar til þátttakenda
Ekki er ætlast til sérþekkingar af nemendum en nauðsynlegt er að þeir hafi áhuga á viðfangsefninu og séu viljugir að kynna sér þá fjölmörgu þætti sem skapa nútíma borgir og hvernig framtíðarborgin mun líta út. Nemendur fá leiðsögn um hvernig þeir eiga að bera sig eftir upplýsingum, vinna úr þeim og almennt vinna í nánum samskiptum við hin löndin.
Öll samskipti fara fram á ensku og því er skýr krafa um góða alhliða enskukunnáttu. Umsóknarferlið sjálft mun til dæmis fara fram á ensku, bæði munnlega og skriflega.
Umsóknarferlið
Þetta verkefni er einstakt tækifæri til að kynnast ólíkum sviðum nútímaþjóðfélags og taka þátt í skapandi námi í samevrópsku umhverfi.
Verkefnið verður skilgreint sem þriggja anna valfag (lýkur vorið 2012) og gefur sem slíkt 3 einingar til stúdentsprófs.
Umsókn ber að skila ásamt fylgiskjölum (sjá nánar á umsóknareyðublaði) á skrifstofu skólans eigi síðar en 28. janúar næstkomandi.
Aðeins er pláss fyrir fjóra nemendur þar sem ferðakostnaður frá Íslandi er hár. Leifur og Brynja munu, í samráði við stjórnendur, leitast við að stýra umsóknarferlinu eins faglega og kostur er. Farið verður yfir umsóknir og fylgigögn og þeir nemendur sem lofa góðu boðaðir í stutt viðtal áður en endanleg ákvörðun er tekin. Auk þess verður horft til ástundunar og námsárangurs umsækjenda.
Borgin okkarumsokn Acrobat skjal, 14 kB Sækja...
|