Forsíða > Skólinn > Brautskráningar > Útskrift 2005 > Prentvænt

Ávarp rektors

Ávarp rektors til nýstúdenta

Ágætu nýstúdentar.

Munið að árangur ykkar nú er afrakstur vinnu. Ykkar vinnu. Munið þó að öll hafið þið þó notið stuðnings, beins og óbeins, fjölskyldu og ástvina sem hafa átt þátt í að móta umhverfi ykkar þannig að þið hafið fengið tækifæri til þess að leggja rækt við námið. Þannig mun það einnig verða í framtíðinni. Áhrifavaldarnir í lífi ykkar munu hafa áhrif hvernig þetta allt þróast. Við erum að nokkru okkar eigin gæfu smiðir, en í dag njótum við þess að búa í umhverfi sem gerir okkur kleift að vaxa og dafna. Verið ævinlega þakklát fyrir þetta.  Munið einnig að þegar hlutirnir ganga ekki upp að þá getur verð gott að staldra við og reyna að greina ástæðurnar. Sören Kirkegaard sagði: “Það er miklu auðveldara að líta til hægri og vinstri en að líta í eigin barm.” Ég held að okkur öllum hætti of oft til að leita skýringa á því sem miður fer út fyrir eigin rann í stað þess að skoða hvað við hefðum sjálf getað gert betur.

Verið óhrædd að reyna nýja hluti, en gerið ykkur einnig far um að læra af reynslu fyrri kynslóða. Þið hafið alist upp á tímum þar sem ríkt hefur stöðugur hagvöxtur og þar sem kreppa er eitthvert hugtak í huga ykkar, hugtak sem lesa má um í sögubókum. Albert Einstein sagði: “Mörg okkar skammast sín fyrir þvæld föt og slitin húsgögn. Betra væri að við skömmuðumst okkar fyrir þvældar hugsanir og slitin lífsviðhorf”  Í dag eiga þessi orð vel við þar sem lífsgæðakapphlaupið hefur aldrei verð harðara en nú. Það er líklegt að þið þurfið einhvern tíma á lífsleiðinni að takast á við erfiðleika, efnahagslega eða félagslega og þá skiptir máli hvernig þið takið á hlutunum.

 Konráð Adenhauer sagði: “ Við lifum öll undir sama himni – en ekki hafa allir sama sjóndeildarhring” Það er þannig að aðstæður okkar eru misjafnar og lífssýnin ekki sú sama. Því þurfið þið að læra að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og ólíkri lífssýn. Verið alltaf málefnaleg í umræðum, gangið ávallt fram af kurteisi og virðingu gagnvart samferðafólki ykkar, jafnt skoðanabræðrum sem öðrum. Kurteisin kostar ekkert en getur skilað ykkur ótrúlega langt.

 Ágætu nýstúdentar. Fyrir hönd allra starfsmanna Menntaskólans við Sund óska ég ykkur  til hamingju með daginn og alls hins besta í framtíðinni. Aðstandendum ykkar færi ég mínar bestu hamingjuóskir.

Til hamingju


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 16.06.2005