Forsíða > Prentvænt

Blóðberg: Blóm janúarmánaðar

5. febrúar 2016

Blóm janúarmánaðar í MS er blóðberg sem er sígrænn smárunni með litlum blöðum. Nú um stundir eru nær jarðbönn hvað varðar skoðun blómjurta. Helgast valið af því að nú er hægt að ylja sér við að drekka rjúkandi te úr blóðberginu sem tínt var síðastliðið sumar og sjá fyrir sér ilmandi blóðbergsbreiður.

Á annarri hæð aðalbyggingar skólans er bókin Flora Islandica (Rv. 2008) opin á blaðsíðu 344 þar sem sjá má plöntuna. Bókin skartar blómateikningum Eggerts Péturssonar sem upphaflega voru gefnar út sem myndefni í Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar.

Í bók Ágústs kemur fram að blóðberg sé af varablómaætt. Þar segir áfram að stönglarnir séu jarðlægir en blómgreinarnar uppsveigðar. Af  blóðbergi leggi sterkan ilm, aðallega rétt fyrir blómgun. Krónublöðin séu oftast rósrauð eða blárauð en stundum skjóti hvítingjar upp kollinum. Bikarinn sé klæddur hárkransi sem loki opinu eins og bómullarhnoðri að lokinni blómgun.

Í bókinni Íslensk flóra eftir Ágúst H. Bjarnason (Rv. 1994) kemur auk þess fram að seyði af blóðbergi þyki hressandi bæði fyrir líkama og sál. Einnig telji sumir að nota megi blóðbergste við margs konar óáran , s.s. kvefi, svefnleysi og timburmönnum. Einnig sé blóðberg haft í húsum til að bæta lykt og jafnvel lagt í fatakoffort.

Blóðbergið er mjög algengt um allt land, sbr. í upplýsingar í Plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar Íslands og á Vísindavefnum.

Blóðbergið er einnig kryddjurt sem sérstaklega er gott að nota á lambakjöt. Það er líkt kryddinu tímían sem er af skyldri plöntu. Nú í skammdeginu er gott að láta hugann hvarfla til ljúfra sumarkvelda með blóðbergskryddað lambakjöt á grillinu.

Nefna má að á vefnum Nammi.is má kaupa þurrkað íslenskt blóðberg sem krydd. Myndin hér að neðan af blóðbergsbrúsknum er á Wikipedia.

Mynd:Thymus praecox - Iceland - 2007-07-05.jpg

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004