Forsíða > Prentvænt

Umhverfisvikan - ráðherrar kynna sér verkefni í umhverfismálum

19. september 2008

Nú stendur endurvinnsluvika sem hæst en hún er haldin til að kynna mikilvægi endurvinnslu fyrir íslenskt samfélag. Sérstök áhersla hefur verið lögð á kynningu fyrir unglinga með útgáfu kennsluefnis, uppsetningu endurvinnslutunna í framhaldsskólum og ýmsum verkefnum innan skólanna.

 

Í tilefni endurvinnsluvikunnar heimsóttu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra Menntaskólann við Sund í dag og kynntu sér hvernig skólinn tekur virkan þátt í verkefninu. Már Vilhjálmsson, rektor MS, kynnti ráðherrunum starfið og fram kom hjá honum að skólinn hefði nú sett sér þau markmið að minnka losun sorps í skólanum um 10% á þessu ári og draga sérstaklega úr sóun á pappír. Þórunn og Þorgerður Katrín heimsóttu einnig kennslustund í lífsleikni þar sem nemendur voru að vinna verkefni um umhverfismál.

 

Mynd: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra heilsa upp á Karl Sigurðsson, ármann skólafélags MS.

Auk þess að kynna endurvinnslu í framhaldsskólum hefur vefsíða Úrvinnslusjóðs verið endurbætt með það að markmiði að upplýsa betur um þau úrræði sem standa til boða í hverjum landshluta fyrir sig. Þar geta kennarar framhaldsskóla einnig nálgast kennsluefni.

 

Þetta er í fyrsta sinn sem endurvinnsluvika er haldin hér á landi en hún er haldin að evrópskri fyrirmynd. Það er Úrvinnslusjóður sem stendur að átakinu í samvinnu við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Gámaþjónustuna, SORPU, Íslenska gámafélagið og Endurvinnsluna. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra setti endurvinnsluvikuna í Menntaskólanum við Hamrahlíð föstudaginn 12. september. (aðsend frétt)

Úrvinnslusjóður er ríkisstofnun sem tók til starfa 2003 og annast umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Úrvinnslusjóður leitast við að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs og semur á grundvelli útboða eða verksamninga um það eftir því sem við á. Atvinnulífið skipar meirihluta í stjórn sjóðsins.

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004